21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

12. mál, fjárlög 1947

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar nú frv. til fjárl. fyrir árið 1947 kemur til 2. umr. í dag, eru það að vonum tvö atriði, sem þjóðin mun krefjast nokkurrar skýringar á í sambandi við umr. málsins og afgreiðslu. Annað er dráttur sá, sem orðið hefur á afgreiðslu fjárl., hitt gjaldaupphæðin, ásamt rekstrarhalla og óhagstæðum greiðslujöfnuði. Þykir mér því rétt, áður en ég ræði frv. í einstökum atriðum, að gera þessum tveimur atriðum nokkur skil.

Fjárlagafrv. var útbýtt hér í sameinuðu þingi þann 16. október s.l. Hafði þing þá setið hálfan mánuð. Þann 29. s. m. var frv. vísað til fjvn., sem þá tók það samstundis til meðferðar.

Eins og kunnugt er, mælir 41. gr. stjskr. svo fyrir um: „að ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða aukafjárlögum.“ Fjvn. taldi sér því skylt, þótt tíminn væri naumur, að haga svo störfum sínum, að unnt væri að uppfylla þetta lagaboð og afgreiða fjárl. fyrir jól. N. var líka að mestu leyti tilbúin með till. sínar í lok nóvembermánaðar.

N. var þá þegar ljóst, að ekki yrði komizt hjá því að leggja til að hækka allverulega ýmsa gjaldaliði á frv., m.a. vegna lagafyrirmæla frá síðustu þingum, nema því aðeins, að horfið yrði að því ráði að fresta framkvæmd þeirra. En auk þess hafði vaxandi bjartsýni og stórhugur þjóðarinnar, svo að segja á öllum sviðum, framkallað margvíslegar stórframkvæmdir, sem lítil hyggindi væri fyrir ríkisvaldið að torvelda. N. var því komin að þeirri niðurstöðu þegar í nóvembermánuði, að bæta þyrfti um 43 millj. króna við rekstrargjöldin og jafnframt að hækka tekjuliði eða afla nýrra fyrir um 53 millj. kr., ef skila ætti rekstrarhallalausum fjárl. Þessar bráðabirgðatill. lét n. öllum flokkum í té þegar í nóvembermánuði. En eins og kunnugt er, hafði fyrrv. ríkisstj. þá beðizt lausnar, og þegar vitað var, að þáverandi fjmrh. var ófáanlegur til að taka sæti í væntanlegri stjórn og allt óvíst þá um stjórnarmyndun og hvaða menn eða flokkar kæmu til með að bera ábyrgð á henni og fjármálum landsins, þótti ekki rétt að afgreiða fjárlagafrv. með svo stórkostlegum brtt. til umræðu í þinginu.

Ég vil nú ekki leyna því, að þótt þetta sjónarmið yrði ofan á, þá hafði ég og hef enn allt aðra skoðun á þessu máli. Ég tel, og vil leggja á það alveg sérstaka áherzlu, að ákvæðum stjskr. beri að fylgja út í æsar og veigra sér ekki við að taka á sig alla, þá erfiðleika og alla þá ábyrgð, sem því er samfara, en forðast miklu frekar hitt, að sniðganga fyrirmælin með þeirri afsökun einni, að unnt sé að skýra þau lögfræðilega á einn eða annan hátt. Alþingi á sem stendur í harðri baráttu við almenningsálitið. Það er borið mörgum og hörðum ásökunum um ábyrgðarleysi. iðjuleysi og áhugaleysi fyrir heill almennings, og virðing þess fer því miður ekki vaxandi meðal þjóðarinnar. Flestar eru þessar ásakanir algerlega rangar, en gera samt sitt til að veikja virðingu þingsins. En á móti þessum vansa verða þm. að hefja sókn, bæði í orði og verki. Út frá þessari stofnun ganga lagaboð góð eða ill, sem marka á hverjum tíma lífskjör og afkomu þjóðarinnar, menningu hennar og möguleika alla til sjálfsbjargar. Hér í þessum sal er fjöreggi þjóðarinnar kastað á milli borða og milli manna. Dómur þjóðarinnar fer svo oftast eftir því, hversu gáleysislega er farið með þann leik eða hversu mikinn svip hann ber af öryggi, festu, alvöru og ábyrgð. Eins og þjóðin er yfir þinginu og ræður örlögum þess á kjördegi, eins er þingið yfir stjórninni á hverjum tíma. Og sé engin stjórn í landinu, eða aðeins framkvæmdastjórn, eins og hér var, frá því að fyrrverandi stjórn baðst lausnar og þar til ný stjórn var mynduð, ber Alþingi, ef það situr á annað borð, að taka einmitt þá á sig fulla ábyrgð á málunum, og ekki hvað sízt á fjármálum ríkisins. Ég veit, að það voru margvíslegir erfiðleikar á því að afgreiða fjárl. á réttum tíma undir þeim kringumstæðum, sem fyrir voru, og ég veit, að því fylgdi ábyrgð. En ég er þá líka þess fullviss, að þingið hefði vaxið af því verki eins og öllu,. sem það gerir vei. — Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til nál. um þetta atriði.

Ég skal þá fara hér nokkrum orðum almennt um hitt atriðið, gjaldaupphæðina og hallann á frv., áður en ég fer út í hverja einstaka gr. frv.

Þegar fjárlagafrv. er lagt fram af fyrrv. fjmrh., eru tekjurnar aðeins áætlaðar rúmlega 136 millj. kr., en gjöldin rúmlega 146 millj. Frv. er þá með nærri 10 millj. kr. rekstrarhalla og 22 millj. kr. óhagstæðan greiðslujöfnuð. Þegar litið er á það, að ríkistekjurnar árið 1945 urðu nærri 166 millj. kr., og vitað er, að þær hlutu að verða mun meiri 1946, og engin sérstök ástæða til að halda, að úr þeim mundi draga verulega 1947, má segja, að hér hafi verið sýnt mikið yfirlætisleysi í áætlun teknanna hjá ráðh., sem er að skila af sér málunum í hendur annars manns. Reynslan hefur sýnt, að bæði árin 1945 og 1946, þegar fyrrverandi ráðh. fór með fjármálin, hafa tekjur og gjöld farið mikið fram úr áætlun, en tekjur þó miklu meira, svo að rekstrarafkoman hefur orðið miklu hagkvæmari, en áætlað hafði verið. Er rekstrarhagnaðurinn 1945 um 14 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir og líklega um 30 millj. kr. meiri 1946.

Bæði þessi ár hefur einn þýðingarmesti þáttur atvinnulífsins brugðizt, þ.e. síldarútvegurinn. Það verður því ekki hrakið, að þessi óvenjulega hagstæða afkoma ríkissjóðs stafar beinlínis af margvíslegum áhrifum frá ríkisvaldinu, og þá ekki sízt frá því, að á þessum árum er losað mun meira um höftin í viðskiptamálum og fjármálum þjóðarinnar, en áður. En það mun jafnan reynast svo, að því meira frelsi, sem þar er beitt, því meiri þróttur brýzt fram hjá athafnamönnum þjóðarinnar til framkvæmda landi og lýð til blessunar.

Samkvæmt bráðabirgðayfirliti, sem lá fyrir n., voru tekjur ríkissjóðs s.l. ár um 199 millj. kr., og mun þó nokkuð enn óinnkomið. Þótt ljóst sé, að enn vantar um 31 millj. kr. í tekjuáætlunina til þess að mæta rekstrarútgjöldum á frv., hefur fjvn. ekki viljað leggja til, að tekjuliðirnir yrðu hækkaðir meira, en um tæplega 31 millj. kr., eða upp í 167 millj. kr. frá 136 millj. kr., sem voru á frv., er það var lagt fram. Þótti jafnvel sumum nm., að boginn væri spenntur of hátt í áætlun tekna og að mjög vafasamt væri, að þessar áætlanir gætu staðizt. Ég vil síður en svo álasa þeim fyrir slíka varfærni. En í sambandi við þetta má þó ekki gleyma því, að úr því að n. leggur til, að gjaldaupphæðin sé færð upp í nærri 200 millj. króna, og vitað er, að ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún mundi afgreiða rekstrarhallalaus fjárl., þá er ekki nema um tvennt að velja, að áætla tekjurnar svo nálægt sanni, sem unnt er eða að fylgja nýjum skatta- og tollaálögum á móti rekstrarhallanum. Og þótt ég sé engan veginn mótfallinn því, að eðlilegir skattar og tollar séu á lagðir, svo lengi sem það sligar ekki atvinnulífið og fer að verka þannig þveröfugt á hag ríkissjóðs við það, sem til er ætlazt, þá tel ég hitt þó eðlilegra, að áætla tekjurnar sanngjarnar og stilla þá jafnframt í hóf nýjum álögum.

Það skal að vísu viðurkennt, að áætlun tekna og gjalda er enginn mælikvarði á afkomu ríkissjóðs, þótt það sé bæði sjálfsagt og nauðsynlegt, að hún sé gerð svo nákvæm sem unnt er. Á hinu veltur allt, að ríkisvaldið sé jafnan hvetjandi, en ekki letjandi um framkvæmdir og að þjóðin megi jafnan bera óskorað traust til þeirra, sem fara með viðskipta- og atvinnumál þjóðarinnar.

Ég hef ekki gert ágreining um tekjuáætlunina frekar, en þeir aðrir nm., sem eru á gagnstæðri skoðun um þetta atriði, en ég vil þó leyfa mér að benda hér á sem rök fyrir því, að tekjuáætlunin sé a.m.k. ekki óvarlega hátt áætluð:

1. að tekjur síðasta árs urðu hart nær 200 millj. króna;

2. að ríkissjóður hefur með sérstökum lögum tekið ábyrgð á 30% hækkun á flestöllum sjávarafurðum, framleiddum á þessu ári, sem hlýtur að gera hvort tveggja í senn, að örva menn stórlega til framkvæmda á því sviði og hækka jafnframt stórlega tekjur þeirra, sem þennan atvinnuveg stunda, miðað við afkomu þeirra á s.l. ári, en hvort tveggja þetta hlýtur að skapa tekjur í ríkissjóðinn. Hitt er svo annað mál, að ábyrgðin kann að skapa ríkissjóði einhver eða allmikil útgjöld, ef varan selst ekki fyrir hið ákveðna verð, en það snertir algerlega gjaldahliðina. en ekki tekna;

3. að aflabrögð hafa, það sem af er þessu ári, verið meiri en menn hafa átt að venjast. Mun þorskaflinn, það sem af er á þessu ári. vera orðinn 13 þús. smálestum meiri, en á sama tíma í fyrra, eða sem svarar 40% meiri, en þá var;

4. að nú hafa verið brædd um 70–80 þús. mál síldar, sem aldrei hefur þekkzt áður á þessum tíma árs;

5. að síldarverksmiðjur og önnur fiskiðjuver hafa ýmist verið byggð nú eða stækkuð svo, að þar er að vænta tvöfaldra afkasta, ef afli fæst nægur;

6. að hinn nýi mótorbátafloti margfaldar afköstin á móts við það, sem áður var;

7. að á þessu ári koma hinir nýju togarar til landsins, til jafnaðar tveir á mánuði. Mun fyrsti togarinn hafa selt afla sinn í gær úr fyrstu veiðiför.

Að vísu er allt í óvissu enn um sölu afurðanna. Og mjög veltur sjálfsagt á því, að hún takist vel. En það hefur a.m.k. verið vonað, að kapphlaupið um lýsi og annað feitmeti mundi verka þann veg, að halda mætti uppi eða hækka allverulega aðrar framleiðsluvörur þjóðarinnar.

Ég geri því fullkomlega ráð fyrir því, með tilliti til þess, sem ég hef hér tekið fram, að afkoma atvinnuveganna almennt verði mun betri þetta ár, en undanfarin ár, einmitt fyrir áhrif fyrrv. ríkisstj. og þeirrar nýsköpunar, sem hún hóf og núv. ríkisstj. mun halda áfram að auka og treysta. Ég hefði því haldið, að óhætt væri að áætla tekjur ríkissjóðs á þessu ári allverulega hærri, en gert er og skal minnast nokkru nánar á það, um leið og ég fer yfir hina einstöku tekjuliði frv.

Skal ég þá fara nokkrum orðum um útgjaldahliðina almennt.

Fjvn. leggur til, að gjaldaliðirnir verði hækkaðir alls um nærri 53 millj. króna frá því, sem er í frv., og að auk þess verði gjöld á 20. gr. út hækkuð um 2.650 þús. kr. En á móti komi tæpl. einnar millj. kr. gjaldalækkun á ýmsum gr. frv.

Þegar fyrrv. fjmrh. lagði frv. fram, var gjaldaupphæðin 146 millj. kr., eða með 18,5 millj. kr. hærri útgjöldum en fjárl. síðasta árs. Kom þetta m.a. til af því, að taka varð inn á frv. vegna nýrra lagafyrirmæla nærri 19 millj. kr. nýjan útgjaldalið vegna almannatrygginganna, 5 millj. kr. vegna landbúnaðarmála, 2 millj. kr. vegna raforkumála og rúmar 3 millj. kr. vegna flugmála, eða alls 29 millj. kr., auk þess sem reikna varð alla gjaldaliði mun hærri vegna hækkandi vísitölu og aukins rekstrarkostnaðar á ýmsum sviðum. Það hefði því ekkert verið eðlilegra, en að þessir gjaldaliðir hefðu allir verið teknir inn á frv. í upphafi, og auk þess ýmsir aðrir liðir, svo sem vegna niðurgreiðslu dýrtíðarinnar, skólalöggjafarinnar o.m.fl., er fjvn. leggur nú til, að tekið sé inn á fjárl., og að auki yrði ekki dregið verulega úr verklegum framkvæmdum á öðrum sviðum frá því, sem var á síðasta ári. Og að þetta er ekki gert, veldur því, að fjvn. skilar nú brtt. um svo stórkostlega hækkun á gjaldaliðunum. Ýmsum mun nú finnast, að þessi undirbúningur fjárlagafrv. sé einkennilega andstæður vilja og áliti n. og jafnvel einkennilega andstæður því raunverulega ástandi, sem ríkir í landinu, þegar frv. er samið. En þegar þetta er athugað nánar, er ljóst, að hér er raunverulega ekkert að undrast yfir eða að áfellast. Sá fjmrh., sem undirbjó þetta frv. og lagði það fram, hafði marglýst yfir því, að hann teldi það beinlínis þjóðhættulegt, að ríkið færi á þessum tíma í kapphlaup við atvinnuvegina um vinnuafl og fjármagn og efni. Og af þeim ástæðum og þeim ástæðum einum leggur hann ekki til, að fé sé veitt í ár til verklegra framkvæmda fram yfir það allra nauðsynlegasta, og vill heldur, að framkvæmd ýmissa hinna nýju laga sé frestað um stund, eða þar til sýnt sé, að atvinnuvegirnir megi frekar sjá af vinnuaflinu.

Þótt þetta sjónarmið fyrrv. fjmrh. hafi ekki verið viðurkennt við afgreiðslu frv. frá n., þá er þó því ekki að neita, að mikill meiri hluti þings er að viðurkenna það með flutningi og væntanlegu samþykki frv. um fjárhagsráð, sem fyrir fram á að ákveða, hvar fé skuli fest, einmitt til þess alveg sérstaklega að tryggja það, að framleiðslan verði ekki afskipt í kapphlaupinu um vinnuafl og fjármagn.

Fyrrv. fjmrh. hafði og marglýst yfir því, að hann teldi niðurgreiðslur dýrtíðarinnar úr ríkissjóði algerlega óverjandi til lengdar og enga raunverulega lausn vera á þeim vandamálum. Hann vill fara þar allt aðrar leiðir og leggur ráðherradóm sinn niður að langmestu leyti fyrir það, að þm. vildu ekki aðhyllast hans tillögur hér að lútandi. Hann tekur því enga upphæð inn á frv. til að mæta þessum útgjöldum. Nú hefur fjvn. í samráði við ríkisstj. lagt til. að 35 millj. kr. verði teknar upp í fjárl. til þess að mæta útgjöldum í sambandi við niðurgreiðslur og dýrtíð. Ríkisstj. hefur enn ekki komið auga á neitt annað í þeim málum — sem heldur er kannske ekki von, svo skamma stund sem hún hefur setið — en að troða þær gömlu slóðir, sem fyrrv. fjmrh. vildi ekki fara lengur og allir eru sammála um, að endi að síðustu í einstigi, ef ekki er snúið við eða beygt af leiðinni á einn eða annan hátt. — Ég hygg, að þetta sé nægilegt til að sýna, að undirbúningur fjárlagafrv. út af fyrir sig hafi verið í fullu samræmi við margyfirlýstan vilja fyrrv. fjmrh.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða hér mjög nákvæmlega hverja tillögu til breyt. á frv. og læt mér nægja að langmestu leyti að vísa til nál. Ég mun þó minnast hér á nokkur atriði. er ég tel rétt, að fram komi við þessa umr., og ekki eru tekin upp í nál. Hafa verið um þau atriði skiptar skoðanir í n., og verða því ummæli mín um þau ekki skoðuð sem álit fjvn. í heild, að því leyti sem þau kunna að verða víðtækari, en nál.

Við 2. gr. Ég hef þegar rætt nokkuð um þá 8 millj. kr. hækkun. sem lagt er til, að gerð verði á verðtollinum (brtt. 1), og skal ekki fara frekar út í það atriði. Aðrir liðir þessarar gr. hafa á s.l. ári gefið 79,4 millj. kr., en eru áætlaðir hér aðeins 60 millj. kr. Ég tel því, að þessi áætlun sé mjög varleg og að þessir liðir muni gefa mun meira í tekjur, en áætlað er.

Við 3. gr. Eins og sést á brtt. 2, er lagt til, að tekjur póstsjóðs hækki um 800 þús. kr. til þess að mæta áætluðum tekjuhalla. S.l. ár var rekstrarhalli á póstsjóði 1 millj. 440 þús. kr., svo að það verður að vonum erfitt að jafna þennan halla, en að því ber þó að stefna. Það er þó enginn vafi á því, að burðargjöld fyrir blöð og tímarit má hækka allverulega. Þau gjöld eru í engu samræmi við núverandi verðlag. Einnig mætti nokkuð hækka áætlun á frímerkjatekjum, og þykir ekki ólíklegt, að þessir liðir gætu gefið um 600 þús. kr. meiri tekjur. Þá er ekki gert ráð fyrir neinum hagnaði af fólksflutningsbifreiðum póststjórnarinnar, en hér er ekki ósanngjarnt að gera ráð fyrir, að af þessum lið kæmi a.m.k. sem því svaraði. er sérleyfishafar yrðu að greiða í skatta af rekstrinum til ríkis og sveitarsjóða, ef hann væri í þeirra höndum. En einkum og sér í lagi verður að skipuleggja á sama tíma reksturinn. svo að gjöld fari eigi fram úr tekjum. Samkvæmt skrá, sem n. hefur fengið, er eftirvinna greidd við stofnunina fyrstu 10 mánuði ársins allt að 190 þús. kr. Er sumum starfsmönnum greitt þar þennan tíma yfir 13 þús. kr. fyrir aukavinnu auk fastra launa. Þarf þetta fyrirkomulag að athugast.

Samkvæmt brtt. 3. er lagt til, að tekjur Landssímans verði hækkaðar um 3,5 millj. kr. Er gerð nokkur grein fyrir því í nál. Rekstrarhalli Landssímans hefur orðið 2,7 millj. kr. á s.l. ári. En samkvæmt línuriti. sem n. barst frá Póst- og símamálastjóra yfir rekstur landssímans frá upphafi, sést, að síðan 1908 hefur síminn ávallt verið rekinn með rekstrarágóða þar til 1945. Það eru því engin frambærileg rök fyrir því nú, þegar eftirspurnin er svo mikil eftir síma og notkun hans eykst stórkostlega frá ári til árs, að ekki sé unnt að reka stofnunina hallalaust. Samkvæmt launayfirliti. sem n. hefur fengið, er greitt rúmlega 1.200 þús. kr. í aukavinnu fyrstu 10 mánuði ársins. Einn einstakur maður hefur komizt þar hæst með kr. 22.300 í aukavinnu og samanlögð laun rúmlega kr. 44.000. eða kr. 4.400 á mánuði til jafnaðar. Slíkar launagreiðslur verða að endurskoðast hjá fyrirtæki, sem rekið er með stórkostlegum halla.

Eins og getið er um í nál.. hefur n. ekki á þessu stigi fallizt á að leggja til, að 500 þús. kr. verði áætlaðar til útgjalda vegna viðbyggingar í Gufunesi. Ég tel, að það sé bæði æskilegt og nauðsynlegt að láta það verða allra fyrsta verk stofnunarinnar að koma rekstrinum í viðunandi horf, áður en tekin er fullnaðarákvörðun um frekari byggingar.

Um hækkun á tillagi til notendasíma í sveitum vísast til nál.

Um 5. og 6. brtt., hækkun á tekjum af ágóða áfengisverzlunarinnar og tóbakseinkasölunnar, vísast til nál. Ég vil þó taka það fram, að sameiginlegar tekjur af þessum stofnunum s.l. ár voru 55,4 millj. kr., en n. leggur til, að hreinar tekjur verði áætlaðar 51,5 millj. kr., og er þá ekki reiknað með tekjum af þeirri verðhækkun, sem nýlega hefur verið gerð á áfengi og tóbaki. Það sýnist því vera höfð hér fyllsta varfærni í þessari áætlun.

Í nál. er minnzt nokkuð á rekstur Landssmiðjunnar, og get ég að mestu vísað til þeirrar aths., en ég vil þó til enn frekari áréttingar í sambandi við það mál leyfa mér að benda á, að hið raunverulega ástand á rekstri þessa fyrirtækis er þannig, að gera verður róttækar aðgerðir til úrbóta. Stjórn fyrirtækisins er í höndum þriggja manna, sem allir eru hver í sínu embætti svo hlaðnir störfum, að þess er ekki að vænta, að þeir hafi mikil áhrif á daglegan rekstur, enda kom það fullkomlega fram í viðræðum við þá, að þeir vissu lítið um þau viðskipti, sem mestu tapi hafa valdið, fyrr en of seint. Lögboðnir skattar til ríkissjóðs eru enn ógreiddir, svo að hundruðum þúsunda skiptir, og annað er eftir þessu, á sama tíma sem hliðstæð atvinnufyrirtæki einstaklinga græða stórar fjárfúlgur og greiða háa skatta til ríkis og bæjar. Að vísu hefur nú verið skipt um forstjóra við fyrirtækið, og væntanlega verða við það eitt góð umskipti á rekstrinum, en þótt svo sé, þykir rétt að láta þessar staðreyndir koma hér fram.

Þá hefur verið rætt innan n. um rekstur útvarpsins og væntanlega byggingu útvarpshúss. Samkvæmt fjárlagafrv. eru hreinar tekjur útvarpsins áætlaðar rúmlega 1,5 millj. kr. Eru þá meðtaldar tekjur af viðtækjaverzluninni, tæpar 570 þús. kr. Gert er ráð fyrir á 20. gr. út, að 1.120 þús. kr. af tekjunum sé varið til byggingar á útvarpshúsi. Út af fyrir sig er ekkert við því að segja, að stofnunin noti það fé, sem henni græðist af starfsemi sinni, til þess að auka og endurbæta húsakost, vélar o.fl. Hitt er svo annað mál, hvort rétt sé, að stofnunin haldi áfram sérstökum og mjög öruggum tekjustofni frá ríkissjóði, sem á sínum tíma var afhentur þessari stofnun, þegar hún raunverulega þurfti á honum að halda. M.a. vegna þess, að lagabreyt. þarf til þess, að þessi breyt. gæti komið til framkvæmda, leggur n. ekki til, að hér verði gerð breyt. á. Er á þetta bent, ef ráðuneytið teldi eðlilegt, að þessi breyt. yrði gerð. Þá hefur verið upplýst, að greitt hafi verið um 550 þús. kr. fyrir teikningar og annan undirbúning undir byggingu útvarpshússins. svo og að stofnunin hafi lánað 550 þús. til einstaklingafyrirtækis til 10 ára, á meðan hún enn skuldar ríkissjóð: a.m.k. 2 millj. kr. Er vafasamt, hvort ráðuneytið getur lagt samþykki sitt til slíks án samþykkis Alþ., en sjálfsagt mun þetta atriði upplýsast hér við umr. á Alþ. Við 10. gr. Um 7. brtt. vísast til nál.

Við 11. gr. Um brtt. n. nr. 8–11, sem allar eru tilheyrandi 11. gr., læt ég mér nægja að vísa til nál. Ég tel hins vegar rétt að vekja athygli hér á kostnaði við landhelgisgæzluna, sem var mjög til umr. í n., þótt eigi hafi verið gerð till. til breyt. á þeim lið. Með því að minni upphæð er tekin upp í frv. á þessum lið en beðið hafði verið um af framkvæmdastjóra skipaútgerðarinnar, þá kvaddi n. hann á fund til sin til þess að ræða þessi mál. Fékk n. m.a. þær upplýsingar, að launakjör skipverja væru miðuð við launakjör manna, sem siglt hefðu á ófriðarsvæðinu í stríðinu og enn héldu áhættuþóknun. Kæmust skipstjórar upp í 60–70 þús. kr. tekjur eftir stærð skipa, þegar allt væri reiknað með, peningagreiðslur og hlunnindi, og laun annarra skipverja í hlutfalli við það. Ég vil að vísu ekki gerast talsmaður þess, að laun sjómanna verði skert á einn eða annan hátt, en ég tel. að það sé rétt að láta það koma fram, að á meðan þessi mál eru þannig, geta skapazt ýmiss konar erfiðleikar um að halda uppi strandgæzlu og björgunarstarfsemi í landinu. sem þá eru ekki allir ríkisstj. og Alþ. að kenna.

Það upplýstist einnig, að allur kostnaður við kaupin á hraðbátunum hafi orðið 677 þús. kr., en á móti megi reikna 360 þús. kr., sem sparazt hafi í leigu á öðrum skipum við það, að bátarnir lágu hér mestallan tímann í höfn.

Við 12. gr. Um brtt. 12–13 við 12. gr. vísast til nál. Aðrir liðir gr. gefa ekki tilefni til aths. Við 13. gr. Um brtt. 14-17, sem allar eru við 13. gr., vísast til nál. Þó skal hér enn fremur tekið fram, að vegamálastjóri óskaði eftir því, að framlag við viðhalds vega yrði hækkað upp í 10 millj: kr., eða um 1 millj. kr. Þar sem hér er um að ræða áætlunarupphæð, sem mjög er háð m.a. veðráttufari og svo því, hversu mikið er unnið með vélum, en vegavélum fer nú fjölgandi, sá n. ekki ástæðu til breyt. á þessum lið.

Eins og tekið er fram í nál.. er áætlað í kostnað við strandferðir 250 þús. kr. tap á upp- og útskipun á vörum. Ég vil í sambandi við þennan lið mega vænta þess, að viðkomandi aðilar geri raunhæfar ráóstafanir til úrbóta á þessu atriði. Það er engan veginn verjandi, að ríkissjóður sé að leggja til stórar fjárfúlgur í sambandi við upp- og útskipun, og má undarlegt heita, að þeim málum skuli stjórnað þannig, að slíkt geti komið fyrir. Þá vil ég einnig benda á, að hér er um sama fyrirbrigði að ræða í sambandi við launakjör skipverja eins og við rekstur strandgæzlunnar, nema hvað það er heldur óhagstæðara útgerðinni, þar sem upplýst er, að skipstjórar komist með öllum hlunnindum yfir 80 þús. kr. árlegar tekjur, vísa ég að öðru leyti til þess, er ég hef áður sagt um hliðstæð atriði.

Eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja um rekstur flugmála, þykir allt benda til þess, að með betri skipulagningu á þeim málum mætti svo fara, að rekstrarhallinn gæti orðið mun minni. Annars eru öll þessi mál, sem tilheyra þessari gr., svo umfangsmikil, að það kemur mjög til athugunar, hvort ekki væri heppilegra að setja öll samgöngumálin undir eina þriggja manna stjórn, sem væri þá þeim forráðamönnum til aðstoðar, sem nú fara með þessi mál, hver upp á sitt eindæmi að mestu leyti.

Við 14. gr. Um brtt. n. nr. 18–32, sem allar eru við 14. gr., vísast til nál. En þó vildi ég gera hér nokkru nánari grein fyrir sumum þeirra.

N. þótti rétt að stuðla að því, að sem fyrst gæti komið út bók í siglingafræði, og leggur því til, að 25 þús. kr. verði varið til þess. Í því sambandi vil ég benda á, að mjög væri æskilegt, að hafizt væri handa sem fyrst um það að semja og gefa út kennslubók í vélfræði. Alla tíð, síðan vélskólinn var stofnaður, hafa nemendur orðið að nota danskar kennslubækur. Hefur þetta háð þeim mjög að lesa þannig örðuga og þungskilda námsgrein á framandi tungumáli, sem þeir hafa oft kunnað sáralítið í. Er þess að vænta, að sá ráðh., sem fer með þessi mál, geri ráðstafanir til úrbóta á þessu sem fyrst.

Þá hefur n. lagt til, að 100 þús. kr. verði veittar til endurbóta og stækkunar á fjósi á Hvanneyri. Er gert ráð fyrir, að í þessari byggingu megi fyrst um sinn einnig koma fyrir búvélageymslu, sem jafnframt er mjög aðkallandi, að komist upp. Þá þótti n. og rétt að leggja til, að veittar yrðu 50 þús. kr. til undirbúnings þátttöku í Ólympíuleikjunum 1948. Eigi íslenzkir íþróttamenn að keppa þar, og annað mundi ekki þykja tilhlýðilegt, er óhjákvæmilegt að veita fé til þess, úr því að íþróttasjóði er ekki ætlað að kosta slíkan undirbúning.

Langsamlega stærstu liðirnir á þessari gr. eru framlög til skólabygginga. Eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu frá fræðslumálastjóra, mun þurfa að byggja ný skólahús fyrir allt að 10 millj. kr. á ári næsta áratug, ef uppfylla á að öllu leyti ákvæði hinna nýju skólalaga, og dugir þó naumast til. Þegar hefur verið hafizt handa um margar byggingar, sem sumar hverjar eru langt komnar og aðrar svo aðkallandi, að ekki er unnt að fresta framkvæmdum. Eru þær upphæðir, sem lagt er til, að teknar séu inn á frv., það minnsta, sem talið er, að unnt sé að komast af með á árinu.

Þá þótti n. og rétt að leggja til, að hækkað yrði framlag til íþróttasjóðs um 300 þús. kr. Er það sama upphæð, sem sjóðnum er þá ætluð, og var í fjárl. s.l. ár. Beiðni lá fyrir um mun hærra framlag vegna þess, hve íþróttamannvirki eru víða í smíðum, en n. sá sér ekki fært að leggja til, að hærri upphæð yrði tekin upp.

Við 15. gr. Um brtt. n. nr. 33–43 vísast til nál. Þó vil ég leyfa mér að geta þess, að 40. brtt. mun verða tekin aftur til 3. umr. til frekari athugunar vegna gagna. sem fram hafa komið, síðan till. var samþ. í n.

Ég vil til áréttingar því, sem sagt er í nál. um atvinnudeild háskólans, taka það fram, að ég tel, að það megi ekki dragast að gera víðtækar endurbætur á þeirri stofnun. Sumt af því, sem þar er unnið, er svo merkilegt og nytsamt fyrir atvinnuvegina, að sjálfsagt er að hlúa vel að því eftir mætti. Hins vegar er því ekki að neita, að stofnunin í heild hefur ekki verið sett undir þá stjórn, sem virðist vera nauðsyn á til þess að fá sem beztan árangur af öllu því liði vísindamanna, sem þangað hefur safnazt.

Þá vil ég einnig benda á, að sú upphæð, sem tekin er upp í frv. til náttúrufræðifélagsins, mun ekki nægja til þess að greiða þann kostnað, sem nú verður við rekstur náttúrugripasafnsins, eftir að ríkið hefur tekið við því og fjölgað þar liði.

Hitt er svo annað mál, að fjvn. taldi, að ekkert lægi á að gera þessa breyt. nú, og hefur því ekki viljað leggja til, að upphæðin yrði hækkuð.

Við 16. gr. Um brtt. nr. 45–55 vísast einnig til nál. Þó skal gerð hér nokkru nánari grein fyrir einstökum till. N. þótti rétt að gera till. um 200 þús. kr. hækkun til Búnaðarfélags Íslands. Bæði er það, að félagið hefur tæplega haft nægilegt fé til þess að mæta rekstrarútgjöldum undanfarin ár, en einkum er þó nú aðkallandi að kosta meira fé til landmælinga vegna aukinnar ræktunar, eftir að farið er að vinna meira með vélum en áður. Um 50. brtt. b-lið er samkomulag, að tekin sé aftur til 3. umr. til frekari athugunar.

Þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um 48. brtt. Þar er lagt til, að nokkur lækkun sé gerð á framlagi til skógræktar. Leyfi ég mér að vísa til þess, sem tekið er fram í nál. um þetta atriði. En vegna þess, að ég hef orðið var við, að skógræktarstjóri hefur sótt mjög á einstaka þm. til þess að fá þá í fylgd með sér gegn þessari till. n. og beitt þeim rökum máli sínu til stuðnings, sem ekki eru rétt, m.a. þeim, að rangt sé farið með tölur í nál., vil ég leyfa mér að mótmæla slíkum ummælum, enda hefur skógræktarstjórinn viðurkennt fyrir mér eftir nánari athugun, að fullyrðingar hans um þetta atriði hafi ekki við rök að styðjast. Vilji Alþ. leggja stærri skerf til skógræktar, en n. leggur til, er ekkert við það að athuga. Hitt er svo annað mál, að það væri æskilegra, að það kæmi fram vegna samúðar og skilnings á málinu sjálfu, en fyrir þann róður, sem er á takmörkunum að vera embættismanni til sóma.

Þá þykir mér rétt að taka hér fram, að n. mun fyrir 3. umr. ræða við raforkuráð í sambandi við framkvæmdir raforkumála og jarðboranir, þar sem þess hefur verið óskað mjög af hæstv. ráðh., að þetta atriði yrði nokkru betur athuga, áður en endanlega væri gengið frá fjárl.

Við 17. gr. Um till. nr. 56–62, sem allar heyra til 17. gr., vísast til nál., og gefa þær ekki tilefni til frekari skýringa. Ég vil hins vegar geta þess, að tilmæli komu frá tryggingastofnuninni um að hækka framlag til trygginganna vegna hækkandi vísitölu. En með því að algerlega er óvíst, hver meðalverðlagsvísitala verður yfir árið, og að þetta er aðeins áætlunarupphæð, en hins vegar ákveðið í l., hvað ríkissjóði beri að greiða sem framlag á árinu að viðbættri verðlagsvísitölu, og með því enn fremur, að gert er ráð fyrir sérstakri upphæð á 19. gr. til þess að mæta hækkun vísitölunnar, þótti ekki ástæða til breyt. á þessum lið.

Við 18. gr. Hvað viðvíkur brtt. nr. 63–92, sem allar heyra til 18. gr., þá hefur verið fylgt hér sömu reglu og undanfarið. Þó eru hér fjórir nýir liðir, er ég skal fara um örfáum orðum. Björgvin Guðmundsson tónskáld er tekinn upp með 3.000 kr. Lá fyrir erindi frá menntmrn. um, að hann fengi að halda fullum launum, þótt hann hafi látið af kennslu við Menntaskólann á Akureyri. Hafði Akureyrarbær leyst hann frá kennslu við aðra skóla án launaskerðingar. N. gat ekki fallizt á þetta, en mælti hins vegar með því, að honum verði veitt fyrrnefnd upphæð. Þá leggur n. til, að Eggert Stefánssyni söngvara verði veittar 3.600 kr., og væntir þess, að það verði samþ. Enn fremur leggur n. til, að ekkju Jónasar heitins Guðlaugssonar skálds verði veittar 1.200 kr. Hún er nú 67 ára að aldri, ætti kröfu til þessarar fjárhæðar, ef hún væri búsett hér, og n. þótti betur við eigandi að hafa þennan hátt á. Að síðustu leggur n. til, að Gunnlaugi Kristmundssyni verði veittar 3.000 kr. Hann hefur nú starfað í áratugi við sandgræðslu fyrir ríkið og unnið þar merkilegt starf. Hygg ég, að eigi þurfi að mæla frekar fyrir þeirri till. Að síðustu vil ég geta þess, að aths. við 81. brtt. á að falla niður. Er hún komin inn á frv. af vangá.

N. er þeirrar skoðunar, að framvegis verði að gera ýmsar breyt. á 18. gr. Ríkir þar hið mesta ósamræmi, og eru ýmsar greiðslur þar, sem koma til með að tilheyra tryggingunum framvegis. Mun n. skrifa ráðuneytinu um þetta atriði og mælast til þess, að þetta verði undirbúið á annan hátt á næsta árs fjárl.

Við 19. gr. Ég leyfi mér að vísa til nál. um þær 35 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana, sem n. leggur til., að teknar verði upp á 19. gr. frv., brtt. nr. 93. En ég vil þó ekki skiljast svo við þessa framsögu að fara eigi nokkru nánar inn á þetta atriði.

Á hverju þingi síðan 1942 hefur mál þetta verið rætt á einn eða annan hátt. Hver ríkisstj., sem setið hefur að völdum, hefur lýst því yfir, að stöðva bæri dýrtíðina og helzt að færa þyrfti hana niður smátt og smátt. Þegar ábyrgðar var beiðzt af útgerðarmönnum á söluverði aflans í vetur, var það og krafa af þeirra hálfu, að vísitölunni yrði ekki hleypt yfir 300 stig. Lengi fram eftir vildi fólkið sjálft, þ.e.a.s. allar launastéttir landsins, ekki heyra nefnt, að vísitalan yrði færð niður. Því fannst þá, og sumum finnst það kannske enn, að því fleiri krónur sem það fengi í laun, því efnaðra væri það. Hjá sumum reyndist það rétt, öðrum ekki. Og einmitt vegna þess, að almenningur í landinu setti sig á móti niðurfærslu, hefur enn enginn raunverulegur árangur náðst.

Alþ. og ríkisstj. er vel ljós sú hætta, sem stafar af þessum málum, ef ekki er spyrnt við fótum, þegar búast má við erfiðari sölu afurða, því að það má öllum verða ljóst, að ríkissjóður megnar ekki lengi að taka á sig skelli af ábyrgð afurðaverðs, sem kynni að reynast of hátt. Það er enginn vafi, að samkomulagsleiðin milli ríkisins og þegnanna yrði heilladrýgst í þessu mikla vandamáll. Enn hefur hún ekki fengizt, og því er það, að Alþ. verður nú að taka inn á fjárlög 35 millj. kr., eða hvorki meira né minna, en fimmta partinn af öllum áætluðum tekjum ríkissjóðs þetta ár, til þess að halda niðri vísitölunni í landinu. Fáist þjóðin ekki til sameiginlegra átaka um þetta mál, vilji hún ekki sjálf semja um þau, þá verður þessi upphæð vaxandi ár frá ári, þar til málið verður leyst á annan hátt. En jafnframt vex þá í sama hlutfalli sú upphæð, sem taka verður af þjóðinni í nýjum sköttum til þess að standa straum af þessu gjaldi. Mætti þjóðin vel minnast þess.

Við 20. gr. Um brtt. nr. 94–96 leyfi ég mér að vísa til nál. Ég vil þó auk þess, sem þar er tekið fram, skýra frá því, að hæstv. menntmrh. hefur upplýst, að út muni hafa verið gefin af fyrrv. kirkjumrh. bréfleg loforð um greiðslu á þessu ári til byggingar prestseturs á Breiðabólsstað auk þeirra, sem talin eru upp í nál. Ég skal nú ekki segja um það, hversu mjög Alþ. telur sig bundið af fyrir fram gefnum ávísunum, hvort heldur það er til þessa eða hins, en það upplýsist þá væntanlega nú, hvort það hafi verið mest aðkallandi prestsetursbyggingarnar, sem fénu hefur fyrir fram verið ráðstafað til, og hvort nauðsynlegt hafi verið að gera það, áður en vitað var, hversu há upphæð kynni að verða samþ. endanlega.

Um brtt. nr. 97 við 22. gr. vísast til grg. Þó skal aðeins til frekari skýringar bent á, að Jón Leifs hefur farið fram á það í erindi sínu, að lán það, sem hann óskar eftir að fá, að upphæð 60 þús. kr. fái að standa afborgunarlaust um lengri tíma. Mun ráðh. á sínum tíma meta þá tryggingu, sem boðin er.

Samkvæmt rekstraryfirliti eru tekjurnar alls rúmar 167 millj. kr. Hef ég áður gert grein fyrir þeim, en gjöldin eru áætluð tæplega 198 millj. kr. og rekstrarhalli því tæplega 31 millj. kr. Sjóðsyfirlit er þannig, að innborganir eru tæplega 171 millj. kr., en útborganir tæpar 217 millj. kr. og óhagstæður greiðslujöfnuður því tæpar 46 millj. kr.

Því verður ekki á móti mælt, að það ríkir mikil bjartsýni og nokkur stórhugur hjá fjvn.. er hún leggur til, að fjárlagafrv. verði samþ. með þessari gjaldaupphæð, sem hvort tveggja á nokkuð rót sína að rekja til nýsköpunar atvinnulífs í landinu, hvort sem menn nú vilja viðurkenna það eða ekki, því að hvort sem n. treystir því, að tekjurnar reynist meiri, eða hinu, að atvinnuvegirnir þoli þyngri álögur, þá hlýtur þó bjartsýni að fylgja hvorri hugsuninni, sem á bak við liggur.

Fjvn. gerir það sannarlega ekki af neinu ábyrgðarleysi að leggja til, að gjöldin verði hækkuð um rúmar 50 millj. kr. Hún gerir það af því, að hún trúir því, að það sé rétt og skynsamlegt, og hún gerir það alveg sérstaklega af því, að hún treystir því, að atvinnuvegirnir séu þegar, m.a. fyrir gerðir fyrrv. ríkisstj., nægilega traustir til þess að taka á sig þessa byrði. Að vísu skal það játað, að raddir komu fram í n. um, að hér væri nokkuð djarft siglt, en fjvn. væri nú ekki heldur rétt skipuð, ef ekki fyndist þar ávallt eitthvert slíkt öruggt lífsakkeri.

Reynslan hefur jafnan sýnt oss, að því hærra sem vér höfum stefnt, því betur hefur oss vegnað, því bjartsýnni sem vér höfum verið, því léttara hefur verið að bægja erfiðleikunum burt frá landi og þjóð.

Þeir eru sjálfsagt margir nú eins og endranær, sem eru vonsviknir yfir því, að n. hefur ekki treyst sér til að uppfylla óskir þeirra, því að þrátt fyrir allt hefur orðið að hafna mörgu, sem vilji var til að láta framganga. En einna sárast var þó að geta ekki gert miklu stærra átak í sjúkrahúsa- og heilsugæzlumálunum, því að lausn þeirra er tvímælalaust mjög aðkallandi. Teldi ég vel þess vert að athuga, hvort ekki ætti að taka stórt lán til þess að leysa skjótt úr þeim vanda.

Hins vegar munu og finnast margir, sem álasa n. fyrir bjartsýni og stórhug, er þeir sjá gjaldaupphæðina. Þeim finnst mér auðveldara að mæta. því að sannast sagt vil ég ekki eiga sæti lengur sem form. fjvn. eða yfirleitt á Alþ. en svo, að stórhugur og bjartsýni eigi þar nokkru fylgi að fagna.

Fyrir öllum brtt. á þskj. 542 er meiri hl. n., en með því að einstakir nm. eru andvígir sumum þeirra, eru þeir óbundnir um þær við atkvgr.

Tveir nm. (ÁS og StgrA) hafa lýst yfir því, að þeir mundu bera fram ýmsar brtt. til frekari hækkunar útgjalda, sem meiri hl. n. hefur ekki viljað fallast á og jafnframt áskilja þeir sér rétt til að fylgja öðrum till., sem fram kynnu að koma, og skrifa því undir nál. með fyrirvara. Að öðru leyti stendur n. öll óklofin um till. í heild og væntir þess, að þær verði samþ.

Ég vil svo óska þess, að frv. verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.