06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (5059)

283. mál, áfengisútsalan í Vestmannaeyjum

Pétur Ottesen:

Ég tel ekkert álitamál að verða við óskum hv. þm. Vestm., enda er með þeim gengið inn á þá braut að reyna að stemma stigu fyrir ofdrykkjunni í landinu. Ég vil aðeins benda á það, að fyrir liggja till. um þetta mál, og hafa þær þegar verið samþ., sem sagt till. um héraðabönn, og þótt þessi till. yrði samþ., þá yrði hún í sjálfu sér alveg óþörf, eftir að l. um héraðabönn yrðu framkvæmd. En úr því að svona sterkur vilji Vestmannaeyinga er fyrir hendi um lokun áfengisútsölunnar, þá er auðvitað ekki nema sjálfsagt að verða við þeirri ósk þeirra, enda vafalaust brýn þörf þar fyrir lokun. En þörfin á því er ef til vill enn þá brýnni annars staðar, og því ekki nema eðlilegt, að íbúum þeirra staða væru fengnar í hendur ráðstafanir svipaðar þessum til þess að afstýra áfengisbölinu. Ég vil nota tækifærið til þess að bera fram þá ósk, að hv. allshn. láti sem allra fyrst til skarar skríða með að afgreiða mál þetta, til þess að hægt sé að sjá, hvort raunverulegur vilji er fyrir hendi hér á Alþ. um framkvæmd þessa.