21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

12. mál, fjárlög 1947

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er flm. að tveim brtt. við fjárlagafrv. það, er hér liggur fyrir. Langar mig til að mæla örfá orð fyrir annarri þeirra, þ.e.a.s. 31. staflið á brtt. 560. Þessa brtt. flyt ég ásamt 3 öðrum hv. þm., og fer hún fram á 10 þús. kr. styrk til stúdentaráðs, til stúdentaskipta, útgáfu handbókar og annarrar starfsemi í þágu stúdenta. — Stúdentaráð sendi hv. fjvn. erindi um þetta efni, en það barst n. svo seint, að henni vannst ekki tími til að taka það til meðferðar, og þess vegna er þessi brtt. fram komin frá okkur 4 flm., hverjum úr sínum þingflokki. Gert er ráð fyrir því, að stúdentaráð noti fyrst og fremst þennan styrk til stúdentaskipta. Fyrir stríð var ætluð nokkur fjárhæð af fjárl. í þessu skyni, en sá liður féll niður, meðan styrjöldin stóð, þar sem stúdentaskiptum var þá ekki við komið. Nú er hins vegar aftur í ráði að taka stúdentaskipti upp að nýju, og er því ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að ríkið styrki þessa starfsemi eins og fyrir stríð. Slík stúdentaskipti geta verið þýðingarmikil og með þeim tengjast oft bönd, sem geta orðið landi og þjóð gagnleg, því að eins og kunnugt er, hafa komið hingað erlendir menntamenn á slíkum ferðum, sem síðar hafa lagt Íslandi margt gott til. Í öðru lagi er ótvírætt gagn að því fyrir íslenzka stúdenta að eiga kost á því að dvelja um nokkurt skeið meðal erlendra þjóða, en slíkar dvalir eru miklum mun kostnaðarminni, ef um stúdentaskipti er að ræða, en venjulega námsdvöl. Þá er og gert ráð fyrir því með brtt. okkar, að þessu fé verði varið til útgáfu handbókar fyrir stúdenta. ríkið hefur áður styrkt slíka útgáfu, og virðist því ekki nema sanngjarnt, að það ljái lið sitt til þessarar starfsemi, þar sem nú er þörf á nýrri handbók.

Vona ég, að hv. þm. þyki hér ekki um háa upphæð að ræða og verði við þessari beiðni stúdentaráðs, því að óhætt er að fullyrða, að þessum peningum yrði varið á skynsamlegan hátt, ef brtt. okkar verður samþ.