20.02.1947
Sameinað þing: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (5124)

290. mál, samvinnubyggð

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál, vegna þess að undirbúningur þess í landinu er með þeim hætti, að það má furðu telja, að ekki skuli hafa verið hafizt handa áður í því efni, sem þessi þáltill. fjallar um. Það er nú um mjög mörg ár búið að halda því fram, bæði af talsmönnum eins stjórnmáIafl. í landinu og öðrum mönnum ýmsum, sem starfa töluvert að búnaði, að það sé ekki álitlegt að hugsa til þess, að íslenzkur búskapur verði rekinn framvegis í dreifbýlinu, heldur muni þurfa að færa byggðina saman og það til stórra muna, þannig að landbúnaðurinn verði aðallega rekinn í kringum kaupstaðina á samfelldum ræktunarlöndum, svo að þar verði hægt að koma við nýtízku tækni. Þessi skoðunarháttur hefur fengið byr undir báða vængi, þannig að það voru sett fyrir nokkrum árum l., sem gengu nokkuð í þessa átt, um hinar svo kölluðu samvinnubyggðir, þar sem leitazt var við að koma til móts við þann hugsunarhátt að skapa þéttbýli á þann hátt, sem vakir fyrir leiðtogum Sósfl. En það hefur ekkert orðið úr framkvæmdum. Ég held, að ekki hafi verið gerð hin minnsta tilraun til þess að láta sjást í verki, hvort þessi byggðamáti ætti við hér meðal íslenzku þjóðarinnar. — Og ég vil skjóta því til eins hv. þm., sem hér er á fundi, 6. þm. Reykv., sem um langt skeið hefur verið ráðamaður í Reykjavíkurbæ og hefði vafalaust allgóða aðstöðu til þess að knýja það fram, að tilraun væri gerð með byggð af þessu tagi uppi í Mosfellssveit, að hann reyndi nú að gangast fyrir þeirri tilraun, og kem ég síðar að því.

Ég vil leyfa mér að telja það sem röksemd fyrir nauðsyn þessa máls, að einn af helztu talsmönnum Sósfl., sem var á ferð í Þingeyjarsýslu á síðasta vori og kom þar í alla hreppa, hann hélt því fram þar í þessum þúsund ára gömlu byggðum, sem eru þar með þeim venjulega hætti, sem gerist hér á landi, að það væri óhugsandi, að það gæti verið mannsæmandi líf í þessum byggðum. Hann sagði í raun og veru ekkert annað en það, sem sagt hafði verið af öðrum mönnum áður. En mér fannst svo mikill sannfæringarkraftur í þessu hjá þessum unga manni, um sveitir, sem búnar eru að vera í byggð í þúsund ár og hafa meiri möguleika að ýmsu leyti en aðrar byggðir — mér fannst svo mikill sannfæringarkrafturinn hjá þessum unga manni, þegar hann kom með þessa dóma, þ.e.a.s. að ekkert væri um að ræða fyrir fólkið, sem þarna býr, annað en að leggja byggðina í eyði og flytja sig á aðra betri staði til þess að stunda atvinnu, að ég tel orð þessa unga manns vera til rökstuðnings þessu máli, sem ég flyt hér. Og þar sem nú ekki er vafi á því, að sumum mönnum sýnist þessi hátturinn álitlegastur — og kannske reynist betur en ég geri ráð fyrir — þessi háttur, sem nefndur er í þáltill., að færa byggðina saman, og þar sem þessi skoðunarháttur er farinn að hafa áhrif og útbreiðast — og mér var sagt í morgun, að einar tvær eða þrjár jarðir í allra fegurstu og blómlegustu sveit á Norðurlandi vestanverðu mundu leggjast í eyði í vor, af því að það fengjust ekki þangað bændur — þá er a.m.k. orðið athugunar vert, hvort ekki er líka nauðsynlegt fyrir þá menn, sem í raun og veru trúa á það, að hægt sé að færa byggðina saman, að styðja að því, að gerð sé ákveðin, alvarleg tilraun til þess að sjá það í verki, hvort þessar kenningar um þéttbýli í landbúnaðinum hafa við rök að styðjast.

Ég held, að það sé rétt að benda á það hér, að ein neikvæð sönnun hefur hér komið fram í sambandi við þessa stefnu. Reykjavíkurbær á stóra og ágætlega ræktaða jörð, Korpúlfsstaði, með ýmsu tilheyrandi, þar sem áður var haft blómlegt bú. Og ef það er eins álitlegt og haldið hefur verið fram af mörgum mönnum að koma upp samvinnubyggð, þá virðist mér, að Korpúlfsstaðir hefði verið upplögð jörð til þess. Og ég vil nú spyrja hv. 6. þm. Reykv., hvers vegna hann kom því ekki til leiðar, meðan hann hafði sterkari aðstöðu í bæjarstjórn Reykjavíkur en hann hefur nú, að á þessum stað væri komið upp samvinnubyggð, sem væri algerlega að rússneskum sið. Á þessum stað er mikið tún, stórt fjós, miklar hlöður og annað, sem nauðsynlegt má telja, svo að þarna hefði sennilega verið ódýrara á Korpúlfsstöðum en á nokkrum öðrum stað að koma upp stórbúi, þar sem fjöldi manns væri í einu húsi og ynni undir einni stjórn. En þetta hefur ekki verið gert.

Ég álít óheppilegt, að ekki sé reynt að fá úr þessu skorið, hvort samvinnubyggðir eftir rússneskri fyrirmynd geta ekki átt við hér á landi. Ég hef þess vegna lagt til, að í þessu efni væri beitt fyllstu sanngirni gagnvart þeim, sem beita sér fyrir þess. um nýju trúarbrögðum í landinu, þannig að þeir fái sjálfir að vinna að framkvæmd á þessari tilraun undir eftirliti nýbýlastjórnar. En ef þetta er ekki gert, ef nýbýlastjórn, skipuð eins og hún nú er, mönnum, sem eru með gömlu formunum, færi að velja stað og byggja býlin, þá hefur þessi tilraun ekki gildi. Hún hefur ekki gildi, nema talsmönnum hinna nýju trúarbragða sé gefið fullkomið vald til þess að ráða, velja staðinn og velja fólkið. Þessu verður að vera komið þannig fyrir, að þeir geti ekki komið fram á eftir og sagt, að það hafi verið brotnar á þeim reglur, og vona ég, að hv. 6. þm. Reykv. og skoðanabræður hans sjái, að ekki er illa með þá farið og að þeir fá möguleika til að sýna trú sína í verki.

Ég verð nú að segja það, að ég hef ekki mikla trú á, að þessi tilraun takist, en ég held það sé rétt, að þeir fái að gera hana, úr því að þetta er þeirra skoðun.

Ég hef svo ekki aðra ósk fram að bera en þá, að málið fái meðferð í þinginu og verði samþykkt.