22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (5357)

12. mál, fjárlög 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki blanda mér í þær almennu umr., sem hér hafa farið fram um horfur í fjármálunum, en vildi aðeins víkja að nokkrum atriðum.

Í till. fjvn. er gert ráð fyrir að hækka verulega fjárveitinguna á frv. til byggingar barnaskóla, til stofnunar héraðsskóla og byggingar húsmæðraskóla. Ég get verið fjvn. þakklátur fyrir þann skilning, sem hún hefur sýnt í þessum efnum, og þykir mér rétt að taka það fram, sem hér er áður bent á, að þótt þessar fjárveitingar séu talsvert ríflegar og ríflegri, en áður hefur þekkzt, miklu hærri, en á síðustu fjárl., þá eru þær langt frá því að vera fullnægjandi. En samt sem áður, þegar litið er til þeirra erfiðleika, sem n. hefur átt við að etja við afgreiðslu fjárl., get ég þakkað henni fyrir þann skilning, sem kemur fram í því að leggja til þessar hækkanir. Það er rétt, að þm. viti, að þótt þetta séu háar fjárveitingar, verður erfitt að fullnægja eftirspurn eftir fjármunum í þessar skólabyggingar og nokkur dráttur getur orðið á greiðslum í sambandi við skólabyggingar, sem eru komnar á stað, því að óhugsandi er að stöðva það, að einhverjar nýjar byggingar fari á stað, en það gæti orðið til þess að draga lengur en æskilegt væri greiðslur til skóla, sem eru í byggingu. — Þessi orð vildi ég láta falla um þessa liði og get skilið, að ekki sé unnt að hafa þessar fjárveitingar hærri, þó að þær hefðu þurft að vera það.

Síðan vil ég minnast á tvær eða þrjár af till. fjvn. og þá fyrst á till. um, að sérstakur styrkur til vísindamanna og fræðimanna falli niður. Fjvn. hefur ekki minnzt á þetta atriði við mig, og vildi ég má fara fram á það við fjvn., að þessi till. yrði tekin til baka til 3. umr. til nánari athugunar. — Þá er það till. nr. 59, kostnaður við barnaverndarráð. Ég hef kynnt mér þetta nokkru nánar, síðan ég sá þessa till., og vildi óska eftir, að fjvn. sæi sér fært að taka þetta til nánari athugunar fyrir 3. umr. Skal ég svo ekki ræða meira um það atriði.

Þá eru það brtt. á þskj. 545, frá þeim hv. 8. og 6. landsk. þm. 3. brtt. er um að hækka framlagið til sundmála úr 120.000 í 240.000, en þetta eru greiðslur vegna sundnámsskyldu í skólum. Vildi ég fara fram á, að hv. flm. till. tækju hana til baka til 3. umr., svo að mér gæti gefizt tóm til að ræða þetta mál nánar við fjvn. fyrir þá umr.

Þá er till. á þskj. 560 frá hv. 4. landsk., um að hækka framlag til Menntaskólans í Reykjavík. Þetta mál hefur verið til umr. milli mín og fjvn., og hefur það verið til nokkurrar athugunar í ríkisstj., hvað gera mætti í sambandi við menntaskólabyggingu í Reykjavík og á Akureyri. Vil ég því mælast til, að hv. flm., ef honum er það ekki móti skapi, dragi þessa till. til baka til 3. umr.

Þá er næsta till. á undan, till. hv. 2. þm. S–M. um 100 þús. kr. til flugskýlis og dráttarbrautar á Eskifirði. Undanfarna daga hef ég rætt ýtarlega við flugmálastjórann um, hverjar framkvæmdir í flugmálum væru mest aðkallandi. Eftir að hafa rætt málið við hann, hef ég fallizt á þá skoðun hans, að tvennt væri mest aðkallandi: Annars vegar að koma upp radarstefnuvita á Skaga, og hins vegar bygging flugskýlis á Austurlandi. Viðvíkjandi þessu sendi flugmálastjórn og ráðuneyti sameiginlega erindi til fjvn. og til athugunar fyrir ríkisstj., hvort ekki sé hægt að gera eitthvað í þessu máli í sambandi við fjárlagafrv. Ég vil fara fram á það við hv. 2. þm. S-M., að hann taki þessa till. aftur til 3. umr. (AJ: Ég er búinn að því.) Ég biðst afsökunar á því, að ég var þá ekki viðstaddur hér. Annars var ég búinn að tala um það við hv. þm.. því að þá sést, hvort nokkuð nýtt kemur fram um flugskýlisbyggingana á Eskifirði.