22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (5358)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég óskaði eftir því, að þessi brtt. yrði ekki samþ., var sú, að þótt ég vildi styðja meira tónlistarstarfsemina en verið hefur, var ég búinn að ganga svo mikinn jafnvægisgang á milli manna og fá þetta samkomulag um frv., að ég áleit, að ef farið væri að koma nú með brtt. við frv., yrði það til þess að raska málinu. Það er enginn mælikvarði á það, hvort menn vilja styðja tónlistina, hvort menn greiða atkv. með till. eða ekki. Þar fyrir meina ég ekki, að hún sé flutt undir yfirskini, heldur vil benda á, að þótt till. verði felld, þarf það ekki að tákna það, að menn vilji ekki hækka styrkinn til tónlistarinnar, heldur stafar það af því, að menn vilja koma í veg fyrir, að þessu yrði skipt of smátt, í of margar deildir, til truflunar á meðferð málsins nú.