23.04.1947
Sameinað þing: 45. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

12. mál, fjárlög 1947

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af almennum hugleiðingum í ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hann taldi. að ríkisstj. við framkomu þessa fjárlagafrv. og brtt., sem fyrir liggja, væri með barlóm, sem væri næsta óeðlilegur, og sagði, að væri fjarri öllu lagi, og mér skildist. að hann teldi útlitið fyrir afurðasölu erlendis ekki svo slæmt, að ástæða væri til að vera með barlóm af þeim sökum. Hins vegar vildi hann halda því fram, að þar sem ekki tækist af hálfu ríkisstj. að koma á atvinnukreppu í landinu, vegna þess að afurðir mundu samt sem áður seljast vel, þá gripi ríkisstj. til þess ráðs að skera svo mikið niður á fjárl., að af því hlytist atvinnukreppa. Hv. 2. þm. Reykv. sagði. að útlit væri fyrir, að hægt yrði að selja allar íslenzkar afurðir fyrir mun hærra verð, en á s.l. ári. Hvað sem því líður — en ég mun aðeins minnast á það á eftir —þá er vert að minnast þess — og hv. 2. þm. Reykv. veit það mæta vel —, að það hefur verið samþ. fyrir atbeina hans og annarra þm. að ábyrgjast fyrir íslenzka útgerðarmenn ákveðið verð á vissum sjávarafurðum, en það verð er miklu hærra en gert var ráð fyrir, að fengist fyrir sumar þessar vörutegundir á síðasta ári. Þegar við erum að tala um útlitið fyrir afurðasölu, verða menn að vera þess minnugir, að ríkið hefur hér tekið á sig vissar skuldbindingar í sambandi við afurðasöluna, en þær skuldbindingar geta kostað stórar fjárupphæðir.

Hvað snertir afurðasöluna erlendis, þá er víst, að sumar íslenzkar afurðir eru lítt seljanlegar fyrir sama verð og í fyrra, þó að aðrar vörur séu kannske seljanlegar fyrir mun hærra verð. Þá er og ekkert hægt um það að fullyrða, hvernig afurðasalan verður, þar sem ekki er enn gengið frá samningum. Þótt þess sé að vænta, að sumar vörutegundir séu seljanlegar sæmilega háu verði, þá eru aðrar vörutegundir, eins og t.d. saltfiskur, sem það er vitað um, að muni verða miklir örðugleikar á að selja á erlendum markaði með því verði. sem ríkið hefur ábyrgzt útvegsmönnum fyrir hann, og einnig er það ljóst, að ekki verður unnt að selja þær vörur gegn frjálsum gjaldeyri eða greiðslu í þeim vörum, sem mundu henta íslenzkum þjóðarbúskap. Það er því ekki hægt að segja, að ríkisstj. sé með ástæðulausan barlóm, en hún vill ekki strika yfir staðreyndir sem þessar, heldur vill hún láta koma fram, að horfur með sölu á íslenzkum sjávarafurðum eru ekki eins góðar og þyrfti að vera, miðað við það verð, sem útvegsmenn heimta fyrir þessar afurðir sínar og þeir telja, að þeir þurfi að fá, til þess að atvinnurekstur þeirra geti borið sig. Í raun og veru er tómt mál að tala um það, að svo geti orðið í framtíðinni um margar af þessum vörutegundum, að þær verði framleiddar með svo miklum tilkostnaði, að varla eru líkur til, að við getum keppt við aðrar þjóðir um sölu á sömu vörum á sömu mörkuðum. Framleiðslukostnaðurinn er þetta hærri hjá okkur, en öðrum þjóðum. Hér er því ekki um að ræða neinn barlóm, því að hvorki þjóð né þing er betur sett með því að slá ryki í augu þjóðarinnar um, að útlitið í afurðasölumálunum sé betra en það er í raun og veru.

Því miður kann svo að fara, að ríkið hafi af þessari áður nefndu ábyrgð nokkurn bagga, en vonandi fer þó svo, að til þess komi eigi, en of snemmt er að fullyrða nokkuð um þetta, því að enn er ekki frá samningum gengið. Hv. 2. þm. Reykv. veit mæta vel, að hér er ríkisstj. ekki með neinn barlóm, en segir aðeins satt og rétt frá.

Hitt atriðið, þar sem mér skildist, að hv. 2. þm. Reykv. meinti, að ef ríkisstj. tækist ekki að búa til fjárhagskreppu með því að selja afurðirnar við lægra verði, en hægt væri að fá fyrir þær, þá gripi hún til þess að skera niður verklegar framkvæmdir og gera þannig atvinnukreppu í landinu. Hæstv. fjmrh. og menntmrh. hafa þegar bent á það við umr., að með brtt., sem fyrir liggja frá hv. fjvn. og að verulegu leyti eru gerðar í samráði við ríkisstj., þá sé síður en svo verið að skera niður verklegar framkvæmdir á Íslandi, miðað við árið 1946, en það ár var einna drýgst undanfarinna ára í þessu tilliti. Þá sat að völdum ríkisstj., sem við studdum báðir, ég og hv. 2. þm. Reykv. Þegar athugaðar eru í heild verklegar framkvæmdir af hálfu ríkisins, þá sést við samanburð, að framlög á fjárl. til verklegra framkvæmda árið 1947 eru áætluð miklum mun hærri en árið 1946. Það er því harla undarlegt að tala um, að verið sé að skera niður framlög til verklegra framkvæmda í landinu. Gert er ráð fyrir, að framlag til vegaviðhalds verði 1 millj. kr. hærra en á síðustu fjárl., til hafna- og lendingarbóta 600 þús. kr. hærra en 1946, til barnaskóla 2 millj. og 125 þús. kr. hærra, til raforkuframkvæmda verði veitt 2 millj. og 500 þús. kr. meira en gert var ráð fyrir 1946, til byggingarsjóða verkamannabústaða og annars slíks er gert ráð fyrir, að framlagið verði 1 millj. og 150 þús. kr. hærra en 1946, til sjúkrahúsa 1 millj. og 500 þús. kr. meira. Samtals nemur hækkunin á fjárl. nú, frá því sem var í fyrra, 16 millj. kr., og svo er verið að tala um, að verið sé að skera niður framlög til verklegra framkvæmda í landinu. Þetta er fjarstæða, sem allir sjá, ef þeir á annað borð eru læsir á tölur. Ræða hv. 2. þm. Reykv. er því algerlega úr lausu lofti gripin.

Ég hef áður lýst því yfir, að endanlegar staðreyndir um sölumöguleika liggja enn ekki fyrir, svo að engu er hægt að slá föstu um afurðasöluna. Þess vegna er á engan hátt hægt að segja, að ríkisstj. sé með ástæðulausan barlóm. Hún vill aðeins, að þing og þjóð viti allan sannleika um þessi mál, en að ekki sé verið með upphrópanir og fullyrðingar um, að þetta sé allt öðruvísi en það er í raun og veru.