25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

12. mál, fjárlög 1947

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi fáeinum brtt., sem á dagskrá eru.

Ég vil geta þess, að ég hef flutt ásamt þrem öðrum þm. till. um að heimila stjórninni að veita Gunnlaugi Ó. Scheving listmálara allt að 25 þús. kr. lán til byggingar vinnustofu. Það er venjulegt, að listmálurum sé veittur styrkur til að koma upp vinnustofu. Gunnlaugur Ó. Scheving er einn af okkar efnilegustu listamönnum, en hefur ekki áður farið fram á slíkan styrk, og virðist vera rétt að veita honum þennan styrk, þar sem margir aðrir hafa áður orðið aðnjótandi slíkrar styrkveitingar. Við 2. umr. bar ég fram till. um styrkveitingu til hans, en sú till. náði ekki fram að ganga. Höfum við því breytt því þannig, að þetta verði veitt sem lán, og vona ég, að hv. Alþ. sjái sér þá fremur fært að verða við þessari málaleitun.

Eftir að við létum útbýta þessari till. kom fram till. frá nokkrum öðrum þm. um að veita Sigurði Sigurðssyni listmálara 15 þús. kr. byggingarstyrk. Vildum við veita hv. þm. kost á því, ef menn vildu heldur, að veita Gunnlaugi Ó. Scheving 15 þús. kr. styrk í staðinn fyrir 25 þús. kr. lán. Ákváðum við því að bera fram brtt. um, að sami styrkur yrði veittur Gunnlaugi Ó. Scheving og Sigurði Sigurðssyni, og vonum við, að ef ekki getur náðst samkomulag um að veita lán, geti orðið samkomulag um að veita þessum listamönnum þennan styrk. Við munum því væntanlega taka lánbeiðnina aftur, ef líkur eru til að 15 þús. kr. styrktill. nái fram að ganga.

Ég flyt hér ásamt þrem öðrum þm. till. um að veita Karlakór Reykjavíkur styrk til að greiða kostnað vegna Ameríkuferðar á s.l. ári. Hv. þm. Snæf. hefur gert grein fyrir því, að aðstaða kórsins er að mörgu leyti mjög erfið. Söngförin varð mjög kostnaðarsöm, sérstaklega vegna þess, að greiða varð sumum meðlimum kórsins kaup, af því þeir gátu ekki fengið kaup hjá atvinnurekendum, og stendur kórinn í skuld, sem hann mun eiga erfitt með að rísa undir með venjulegum tekjum sínum. Bæjarsjóður hefur lofað að greiða annað eins, ef þetta framlag verður veitt. Kórinn mun telja sér hafa verið lofað 80 þús. kr. framlagi,. og hafa 40 þús. verið greiddar. Það er erfitt að vita, hvað þetta loforð hefur verið eindregið, en kórinn mun hafa treyst því, að hann ætti að fá 80 þús. kr., en ekki eingöngu þessar 40 þús., sem hann er búinn að fá, og með tilliti til þess er þessi till. flutt.

Þá flyt ég hér með þrem öðrum þm. till. um. að veita Arnóri Sigurjónssyni ritstyrk. Arnóri hefur verið veittur ritstyrkur á fjárl., en hann hefur nú verið felldur niður. Teljum við það óeðlilegt. og eru fleiri á sömu skoðun. Þetta er eina styrkveitingin, sem felld hefur verið niður. Höfum við ekki komið auga á neina sennilega ástæðu til þess og höfum því gert till. um, að þessi maður haldi styrknum áfram, og vonumst til, að þm. geti fallizt á, að það sé eðlilegt.

Fleira hef ég ekki að segja og sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra.