25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

12. mál, fjárlög 1947

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hlýddi á það hér þegar hv. þm. N-Ísf. gerði grein fyrir brtt. þeim, sem við flytjum við fjárl. Mér fannst hann mæla mjög hógværlega fyrir þeim og bjóst því ekki við, að hv. frsm. fjvn. teldi sig þurfa að víkja mikið að honum eða mér og honum út af þeirri ræðu. En það var svo, að þrátt fyrir það að hv. þm. N-Ísf. væri fjarstaddur, þegar form. fjvn. tók til máls, þá varði hann mjög löngum kafla ræðu sinnar til þess að skattyrðast við þennan flokksbróður sinn, og fannst mér tónninn næsta lítið flokksbróðurlegur, því að mér fannst það vera hrokaskammir. Þetta var aðallega út af því, að hv. þm. N-Ísf. hafði látið það í ljós, að hann teldi, að ekki gætti hins fyllsta samræmis eða réttlætis í fjárveitingum til opinberra framkvæmda milli ýmissa kjördæma, og taldi, að nokkurs ósamræmis gætti nú í þetta sinn um slíkar fjárveitingar, jafnvel til héraða innbyrðis á Vestfjörðum. Það er ekki mitt að taka upp þykkjuna fyrir félaga minn. hv. þm. N-Ísf., en við eigum dálítið sameiginlegt á vissu sviði og út af því er það, sem ég get tekið upp þykkjuna ásamt honum út af því, sem hv. form. fjvn. lét falla um fjárveitingar til Norður Ísafjarðarsýslu. Ég hefði vænzt þess jafnframt, þar sem hv. form. fjvn. hefur beztu aðstöðu til þess að afla fjár til framkvæmda í sitt kjördæmi, sem mikil þörf er á, því að þetta kjördæmi hefur lengst af verið íhaldskjördæmi, að hann stæði að því að afla fjár í kjördæmi á Vestfjörðum, sem hafa sömu sorgarsögu að segja um vanrækslu að því er snertir alla opinbera aðstoð undanfarna áratugi.

Hv. form. fjvn. taldi það, að þeir, sem tekið hefðu þátt í umr., hefðu farið rangt með, m.a. fullyrti hann, að hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. hefðu farið rangt með tölur, reiknað skakkt og gefið mönnum villandi upplýsingar, því að þeir komust að annarri niðurstöðu í sínum ræðum heldur en hv. form. fjvn. Ég get því búizt við því, að það sé þannig um hv. þm. Barð.. að hann reikni einhvern veginn öðruvísi, en ýmsir aðrir menn gera og þá vist öðruvísi, en ráðh. leyfa sér að reikna, og eru það þá líklega úreltar aðferðir, sem þeir nota, og niðurstöðurnar því á annan veg, en hjá hv. þm. Barð., sem sjálfsagt viðhefur nýjustu aðferðir. En þegar hann segir, að fjárveitingin til Norður-Ísafjarðarsýslu hafi hækkað um hátt á annað hundrað þúsund krónur, síðan fjárl. voru til 2. umr., þá undrast ég ekki slíka niðurstöðu, ef reiknað er eftir sérstökum óþekktum aðferðum. En þetta kemur þannig út eftir gömlu reikningsaðferðinni, að við Norður-Ísfirðingar fengum eftir mikla eftirgangsmuni því um þokað, að fjárveitingin til kjördæmisins var hækkuð um 150 þús. kr. alls, en svo kom niðurskurðurinn og leiddi til þess, að þær fjárveitingar, sem við 2. umr. höfðu verið samþ. til Norður-Ísafjarðarsýslu, lækkuðu um 110 þús. kr., svo að það er auðséð, að upphæðin verður ekki á annað hundrað þús. kr., heldur um 40 þús. kr. Hins vegar verður því ekki neitað, að það er nokkuð á annað hundrað þús. kr., sem fjárveitingin hækkaði til þessa kjördæmis síðan við 2. umr.

Ég tek það fram, að það er siður en svo, að ég sé að telja það eftir, þó að Barðastrandarsýsla fái rífleg fjárframlög til vega, brúa og hafnarmannvirkja. En útkoman er sú, að til vega hefur hv. þm. Barð. séð um, að hans kjördæmi fengi 568.300 kr., 134.600 kr. til brúa og 310.300 kr. til lendingarbóta og hafnarmannvirkja, eða 1.013.200 kr. til kjördæmisins í þessar þrenns konar framkvæmdir. Það er áreiðanlega ekkert kjördæmi, sem kemst í námunda við þetta með fjárveitingar. Ég hef áður upplýst, að ástandið í Norður-Ísafjarðarsýslu er þannig, að í 5 af 9 hreppum sýslunnar er ekki til akvegarspotti, það er aðeins í 4 hreppum, sem til er akvegarspotti. Slíkt ástand getur hv, þm. Barð. jafnvel ekki bent á í sinni sýslu, vegna þess að hann hefur þar um bætt hin síðari ár, þó að langt sé frá því, að þar sé til hlítar ráðin bót á. Ég játa það að, að þessu sinni hefur okkur þm. N-Ísf. ekki verið sýnt neitt ranglæti í fjárveitingum til Norður-Ísafjarðarsýslu, þó að það komist ekki nálægt því til jafns við Barðastrandarsýslu, en þessar sýslur hefðu átt að njóta nokkurn veginn sömu fjárveitinga, ef rétt hefði verið. En ég tók eftir því, að þó að hv. þm. Barð. spinni þennan langa þráð út af ræðu hv. þm. N-Ísf., sem sagði, að Norður-Ísafjarðarsýsla hefði ekki notið fulls jafnréttis á við önnur héruð á Vestfjörðum, að þá forðaðist hv. frsm. fjvn. að gera samanburð á Norður-Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu. Hann hefur sjálfsagt vitað, að það væri ekki hollt fyrir hann að fara út í þann samanburð. Til vegamála hefur Norður-Ísafjarðarsýsla fengið 335 þús. kr., en Barðastrandarsýsla 568 þús., og þannig er mismunurinn á flestum liðunum. En aðrar sýslur á Vestfj. eru sjálfsagt mun lægri, en þessar sýslur báðar, en ég geri samanburð við Barðastrandarsýslu, af því að hv. form. fjvn. vildi berja það fram fyrir þinginu, að Norður Ísafjarðarsýsla njóti fulls jafnréttis á við önnur héruð á Vestfjörðum, en það er ekki. Hækkunin er síðan við 2. umr. 40 þús. kr., en ekki hátt á annað hundrað þús. kr., eins og hv. form. vildi vera láta.

Ég vil þá víkja með örfáum orðum að till., sem við hv. þm. N-Ísf. berum fram saman. Fyrsta till. er um það að byggja björgunar- og eftirlitsskip fyrir Vestfirði. Eftir að þessi till. var borin fram, talaði hæstv. fjmrh. og svaraði fyrirspurn, sem hv. þm. Ísaf. bar hér fram. Ég held, að svar hæstv. ráðh. hafi verið ákveðið á þann veg, að því væri lofað af hæstv. ráðh., að staðið skyldi við gerða samninga við Vestfirði í björgunarskútumálinu og því fé, sem nú væri til, andvirði seldra hraðbáta, skyldi verða varið til þess að byggja björgunarskip fyrir Vestfirði, og væri ætlazt til, að strandgæzla og björgunarstarfsemi væru þar saman um eitt skip. Ég get því fallizt á, að fengnu þessu svari ráðh., að okkar till. sé lítil þörf, og vænti því, ef okkur flm. kemur saman um það, að við getum gengið inn á að taka okkar till. aftur.

Aðra till. berum við fram saman, það er að taka inn á fjárl. 25 þús. kr. styrk til handa þeim. sem urðu fyrir skakkaföllum og misstu íbúðarhús sitt ofan af sér í snjóflóðinu á Ísafirði í vetur. Ef fram koma yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um það, að fólk, sem hefur orðið fyrir þungum búsifjum af náttúrunnar völdum, á svipaðan hátt eins og orðið hefur á öskufallssvæðinu, njóti einhverra fjárhagslegra bóta frá ríkinu, þá mundi ég geta fellt mig við að taka þessa till. einnig aftur við afgreiðslu fjárl. Þriðja till. er einnig smá till. um það að veita bónda við Skutulsfjörð 12 þús. kr. skaðabætur vegna tjóns, er hann beið af því, að heimili hans var í sóttkví. Hann þurfti að breyta sínum kúabúskap í sauðfjárbúskap og aftur seinna, þegar hann lét af sauðfjárbúskap, að breyta honum í kúabúskap, og þetta var honum tilfinnanlegt. Það er að vísu langt um liðið, síðan þetta var, en þó að bæturnar komi seint og séu litlar. þá má segja um það, að betra er seint, en aldrei.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég vildi með þessum orðum gera tvennt: Leiðrétta það, sem form. fjvn. hefur rangt sagt um hækkun fjárveitingar til Norður-Ísafjarðarsýslu, síðan fjárl. voru til 2. umr., og enn fremur gera grein fyrir þeim brtt.. sem ég er meðflm. að með hv. þm. N Ísf. Ég vona, að þessar tvær till., sem eftir standa, fái góðar undirtektir og verði samþ. við afgreiðslu fjárlaga.