25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

12. mál, fjárlög 1947

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins út af þessari fyrirspurn hv. 1. þm. Eyf. um vegagerð í Eyjafirði segja það, af því að ég hef kynnt mér þetta nokkuð áður og minnzt á það í samtali, að það er rétt, sem hann segir, að ekki var unnið fyrir allar fjárveitingar, sem þar voru fyrir hendi, en að mínu viti lágu til þess gildar ástæður, eftir því sem vegamálastjóri hefur sagt mér. En ástæðan til þess, að ekki var unnið þarna í öllum vegum, er sú, að lagt var allt kapp á tvo höfuðvegi. sem til sýslunnar liggja og voru svo þurftarfrekir um áhöld, að ekki vannst tími til að nota þau einnig í þeim vegum, sem hv. 1. þm. Eyf. var að tala um. Þessir tveir höfuðvegir, sem ég nefndi áðan, eru vegurinn til Ólafsfjarðar um Lágheiði og vegurinn út Svalbarðsströnd. sem liggur að vísu ekki um Eyjafjarðarsýslu, en er í sambandi við Akureyri. Þar var mikið unnið s.l. ár. Og loks er það Öxnadalsheiðarvegurinn, sem er höfuðvegur, eins og kunnugt er, og mjög þýðingarmikill fyrir Akureyri. (BSt: Þessir vegir eru allir í öðrum sýslum.) Að nokkru leyti og nokkru leyti ekki, má segja. Það var lögð höfuðáherzla á að ljúka þessum aðalbrautum til héraðsins, og það tókst, en sérstaklega t Svalbarðsstrandarveginum, og einnig Öxnadalsheiðarveginum, voru vélarnar bundnar í sumar. Á fjárlögum 1946 var veitt til þeirra vega, sem hv. þm. á við, 50 þús. kr. til Árskógsstrandarvegar, sem ófært þótti að vinna í án ýtu, sem var verið að nota annars staðar, eins og ég sagði áðan, og til Hrísavegar voru veittar 10 þús. kr. og það var unnið fyrir alla þá upphæð, þó að hv. þm. segl. að ekkert hafi verið unnið að vegagerð í sýslunni. Í Hörgárdalsvegi var hins vegar ekki unnið, fjárveiting til hans var aðeins 10 þús. kr. Það þótti óhagstætt að vinna fyrir svo lítið. Fjárveitingar til þessa vegar hafa verið dregnar saman undanfarin ár, og nú er hægt að vinna þar fyrir 30 þús. kr., og þykir hagstæðara að vinna fyrir það mikla upphæð í einu.

Aðalástæður vegamálastjóra í þessu máli eru þá þær, eins og áður er sagt, að vegavinnuáhöldin voru í notkun í höfuðvegum til héraðsins, og talið var óheppilegt að flytja þau þaðan í litla vegi og gera þá áður, en láta aðalvegina sitja á hakanum. Á þessi rök vegamálastjóra hef ég fallizt fyrir mitt leyti.