08.04.1947
Efri deild: 108. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

215. mál, flugvellir

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. ráðgerir að breyta núgildandi löggjöf í þessu efni og fjallar um yfirstjórn flugmála. Í lögum frá 1945 er gert ráð fyrir, að ráðh. setji á stofn yfirstjórn flugmála og skipi flugmálastjóra, og hefur það verið gert og flugmálastjóri skipaður. Nú eru þessi mál sífellt umfangsmeiri með degi hverjum, og hefur ríkisstj. þótt rétt að leggja til, að breyting verði á stjórn flugmála, þannig að 5 manna flugráð, þar af séu 2 sérfróðir og hafi sérþekkingu á málunum, fari með stjórn flugmála undir umsjá ráðh. og í samráði við hann. Þessir tveir sérfræðingar yrðu flugmálastjóri og flugvallastjóri, en verkaskipting milli þeirra yrði þannig, að flugmálastjóri skyldi sjá um nýbyggingu flugvalla, loftferðaeftirlit, öryggisþjónustu og það annað, sem varðar flugið, en ekki snertir rekstur flugvalla, en flugvallastjóri annist rekstur og viðhald flugvallanna. Þetta er sett hér inn, því að rekstur flugvalla er orðin allmikill og á óskylt við öryggisþjónustu og aðrar almennar framkvæmdir, er flugið varða. Ef hv. Alþingi samþykkir þetta frv., þá tekur flugvallastjóri við rekstri flugvallanna, en flugráð og flugmálastjóri sjá um hin almennu flugstörf. Flugmálastjóri hefur einnig samband við einstakar þjóðir um það, er flugmál varðar, og við alþjóðastofnun flugmála. Það er ekki vafi á, að mjög nauðsynlegt er að fá fleiri menn til að stjórna flugmálunum, þar sem oft þarf að taka þýðingarmiklar ákvarðanir, og er þá heppilegra að kveðja fleiri til. Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frv., en vildi taka það fram, að sjálfsagt er að gefa n. frekari upplýsingar um málið, ef óskað er. Ég vænti svo að frv. verði vísað til samgmn. að lokinni þessari umr.