28.11.1946
Neðri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

45. mál, menntaskólar

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Ég vildi aðeins minnast á eitt atriði í málinu. Hv. 5. þm. Reykv. talaði um, að með þessari breyt. á l. væri farið fram á að fækka skyldukennslustundum menntaskólakennaranna. Það er rétt og ekki rétt. Það er rétt að því leyti til, að farið er fram á lækkun skyldukennslustundafjöldans miðað við það, sem hin nýja löggjöf frá síðasta vori gerir ráð fyrir. En hér er ekki farið fram á annað en að vinnutími menntaskólakennaranna verði styttur þannig, að hann verði eins og hann var, áður en sú löggjöf var sett.

Það er n áttúrlega nokkuð til í því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði um aukakennsluna. Þó vil ég benda á það, að aukakennsla við skólana verður að skoðast sem nokkurs konar yfirvinna. Kennurum er gert, bæði við menntaskóla og aðra skóla, að kenna ákveðinn kennslustundafjölda fyrir sín föstu laun, og það er þeirra vinnudagur. og ef þeir telja sér fært og hafa tíma til þess og vinnuþrek að gegna meiri kennslu, þá eru þeir að sjálfsögðu sjálfráðir um, hvort þeir gera það eða ekki. Ef þeir gera það, verða þau störf að sjálfsögðu að skoðast sem nokkurs konar yfirvinna. Þetta held ég, að sé kjarni málsins í sambandi við þetta mál. Það er ákveðin vinnuskylda á kennara í l. Það, sem þeir kenna fram yfir þann lögákveðna tíma, verða þeir að fá greitt sérstaklega sem aukavinnu eða yfirvinnu.

Hitt er annað mál, sem ég skal ekki ræða í sambandi við þetta mál, hvort þær launabætur, sem menntaskólakennarar og aðrir kennarar fengu með hinum nýju launal., hafi ekki verið það riflegar, að krefjast mætti vegna þeirra nokkru meira starfs af þeim, eftir að þeir fengu þær. En það mál liggur að verulegu leyti fyrir utan þetta mál, sem hér liggur nú fyrir. En ég legg áherzlu á það, sem ég minntist á í frumræðu minni. að í hæstv. ríkisstj. var algert samkomulag um það milli allra hæstv. ráðh., að þessa leið, sem í frv. greinir, yrði að fara til þess að leysa þau vandkvæði. sem skólastjórar menntaskólanna beggja stóðu frammi fyrir í haust, þegar kennsla skyldi hefjast.

Ég vænti þess, að hv. þd. og hæstv. Alþ. standi við þetta samkomulag, sem varð innan ríkisstj. til þess að leysa þetta mál, ef til vill þannig, að allir fái ekki vel við unað og einhverjum finnist, að það hefði mátt leysa á annan hátt. En ég hygg, að frá þessu máli verði ekki gengið á miklu heppilegri hátt heldur en hæstv. ríkisstj. hefur orðið sammála um og menntmn. þessarar hv. d. hefur fallizt á.