13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Hannibal Valdimarsson:

Það orkar naumast tvímælis, að oft hafa verið gerð óhagkvæm innkaup fyrir ríkisstofnanir, og innkaup þeirra munu víst nema milljónum króna á ári hverju. Á þennan hátt fara til spillis upphæðir, svo að milljónum króna skiptir, og rekstur ríkisstofnananna hefur orðið mun fjárfrekari en ástæða hefði verið til, ef ríkisstofnunum hefðu verið útvegaðar nauðsynjar sínar með eins hagkvæmu innkaupsverði og unnt hefði verið milliliðalaust. Það virðist þess vegna eðlilegt, að hjá því verði reynt að komast, að þessu haldi svo áfram, með því að ríkið sjálft komi á fót stofnun, sem annast innkaup fyrir allar ríkisstofnanir, og virðist eðlilegt, að þar væru sem fæstar undantekningar gerðar. Einkasölurnar flestar eða allar falla undir verksvið þessarar stofnunar. Mér virðist verksvið þessarar innkaupastofnunar vera mjög lauslega formað samkv. 2. gr. og óviðkunnanlegt, að þar skuli vera ætlazt til, að verksviðið skuli ákveðið með reglugerð, þegar það er lauslega gert í l., sem reglugerðin byggist á. Ég er að sjálfsögðu á þeirri skoðun, að slík stofnun sem þessi hafi eiginlega nauðsynlegu hlutverki að gegna og sé í alla staði sjálfsögð, en hefði óskað, að verkefni hennar hefði verið ákveðið viðtækara, en gefið er í skyn í 1. gr. frv., en út fyrir það verður varla hægt að teygja verksviðið, þó að reglugerð verði sett samkv. 2. gr. Þess vegna tel ég, að æskilegra hefði verið, að verksviðið hefði verið víðtækara, fyrst og fremst af þessum ástæðum: Þarna kemur áreiðanlega til þess að þurfa að útvega fjöldamargar vörutegundir fyrir hinar ýmsu stofnanir ríkisins, og verður þá um tiltölulega litið vörumagn að ræða af sumum þessum vörum, en þegar gera verður innkaup á litlu magni, er sjaldnast hægt að gera hagkvæm innkaup, nema því aðeins, að verkefnið sé víðtækara en hér er gert ráð fyrir. Hv. 4. landsk. miðar nú við það að færa út verksvið stofnunarinnar, en mér finnst orðalagið á þeirri till. nokkuð óákveðið, þar sem stendur: „Enn fremur skal hún annast innkaup á vörum fyrir aðra aðila, ef þeir óska þess.“ Nú gat hann þess, að með þessu meinti hann fyrst og fremst bæjar- og sveitarfélög og þær stofnanir, sem væru á vegum þeirra aðila, en sagði einnig, að hann teldi eðlilegt, að allir ættu þess kost að njóta sömu hlunninda. Ég hefði nú helzt óskað, að í þessari brtt. væri tekið fram, að auk þess sem innkaupastofnun ríkisins væri ætlað að kaupa inn vörur fyrir ríkisstofnanir, væri henni og heimilt að annast innkaup fyrir fyrirtæki og stofnanir, bæjar- og sveitarfélög, ef þess væri óskað. Ég vildi, að þetta væri alveg ákveðið bundið við opinbera aðila og annað ekki á þessu stigi málsins, og býst ég við, að ég mundi greiða till. atkv. mitt, ef hún væri í þessu ákveðna formi, að fyrirtækjum og stofnunum, bæjar- og sveitarfélögum væri heimilt að eiga viðskipti við innkaupastofnun ríkisins. Þeim verður varla heimilað þetta, þó að verksviðið yrði nánar ákveðið með reglugerð, nema einhverjar aðrar breyt. yrðu gerðar á 1. gr. frv., og finnst mér því, að beint vanti ákvæði um það í frv.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég verð með þessu frv., þó að mér þyki rammi þess of þröngur, en mundi vilja taka þátt í að freista þess að færa rammann út á þann veg, að það næði einnig til bæjar- og sveitarfélaga og þeirra fyrirtækja, sem rekin eru á vegum þeirra.