09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

45. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. hefur nú orðið ber að því að viðurkenna. að hann hafi farið með rangt mál. Hann sagði í fyrri ræðu sinni, að hámarkskennslustundafjöldi kennara væri 22 stundir. Nú hefur hann orðið að viðurkenna, að þetta er ekki rétt, heldur að þær hafi verið 24. Þýðir ekkert fyrir hv. þm. Barð. að þræta fyrir þetta með því að segja, að kennslustundafjöldi yfirkennara sé 22 stundir. Það er enn fremur rangt hjá hv. þm. Barð., að með samþ. þessara l. hafi kennslustundin verið stytt niður í 45 mínútur, því að um margra ára skeið hefur kennslustund verið miðuð við 45 mínútur og er enn við menntaskólana. Hv. þm. Barð. reyndi enn fremur að afsaka þessa missögn með því að segja, að þessi breyting muni hafa verið gerð í minni ráðherratíð. Þetta er einnig rangt hjá hv. þm. Hv. þm. Barð. hefur með öðrum orðum orðið ber að því í svo að segja öllum atriðum ræðu sinnar að hafa farið rangt með staðreyndir. Veit ég því, að hv. þm. munu virða mér það til vorkunnar, þótt ég gleypi ekki hráar upplýsingar hv. þm. Barð., og mun ég ekki deila frekar um þetta mál við hann, fyrr en þær upplýsingar liggja fyrir, er hann talaði um. Hitt er annað mál, að undantekningar verða ekki teknar gildar sem regla, en ef væri farið að rannsaka undantekningar hjá ýmsum stéttum, væri hætt við, að ýmislegt kæmi upp úr kafinu. Það, sem hér skiptir máli, eru launakjör kennara við menntaskólana yfirleitt.

Hirði ég ekki að fara mörgum orðum um þau ummæli hv. þm. Barð., að það væri ekki nema gott, ef ég hætti að gegna starfi mínu, en þar er því til að svara, að undir eins og tilkynning berst frá hans flokki um stjórnarstarf, mun ég leggja niður embætti mitt hér.