15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil verða við tilmælum hæsta. forseta og verða ekki margorður, enda tækifæri til að ræða það við tvær aðrar umr., ef það kemur þá nokkurn tíma úr nefnd. Ég get verið sammála lögunum sjálfum, ef hæstv. ráðh. ber þau fram sem sérstakan lagabálk. En hér horfir öðruvísi við, þar sem verið er að kippa burt lagastoð, sem fólk hafði treyst á. Ég var ekki með öllu samþykkur þessum l., enda var um helmingur þm. andvígur þeim. Ég benti á þá hættu, sem nú hefur komið fram, að rentufóturinn við stofnlánadeildina væri of lágur. Sú bjartsýni, að hægt væri að fá fólk til að leggja fram stórar upphæðir gegn 2–3% rentum með eignakönnun og fleiru hefur brugðizt. Nú er breyting gerð á fleiru. Í frv. er gert ráð fyrir, að stj. útvegi og láni mönnum fé með lágum vöxtum. Ég mun ræða það við hæstv. ráðh., ef hann vill bera fram brtt. við frv. sjálft, en ef það er borið fram sem bandormur, þá get ég ekki fylgt því.

Áföll þau, sem ríkissjóður hefur orðið fyrir í seinni tíð, stafa fyrst og fremst af því, að öll löggjöf stefnir að því að draga úr einstaklingsframtakinu og koma rekstrinum í hendur félagssamtaka og hins opinbera. Þetta hefur í för með sér minnkandi tekjur fyrir ríkissjóð, þar sem þessi félög hafa meiri skattfríðindi en einstaklingar. Ríkissjóður hefur einnig orðið að taka ýmislegt að sér, sem einstaklingar höfðu áður og ríkissjóður græddi þá hvað mest á. Ríkissjóður hefði ekki fengið jafnmikið áfall af síldveiðunum, ef Kveldúlfur hefði stundað þær, og ekki hefði orðið jafnmikið tap á áætlunarferðunum á milli Hafnarfjarðar og Rvíkur eða milli Akraness og Akureyrar, ef Steindór hefði haft þær. Ef stefna á í þessa átt, verður að spyrna við fæti. Ríkið er sífellt að fara lengra og lengra inn á svið einstaklinganna og frestar framkvæmdum á góðum og nauðsynlegum lögum, sem það á að sjá um framkvæmd á, með bandormi.

Ég vil nú verða við tilmælum hæstv. forseta og ræða þetta frv. ekki frekar í dag. Ég mun . geyma til 2. umr. að ræða við hv. þm. Str. Annars er ég honum þakklátur, því að ýmislegt af því, sem hann sagði, var það sama og ég hafði sagt.