22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. S-M. hefur nú gert aths. við frv, um bráðabirgðabreyt. nokkurra l. Ég skal taka aths. hans í þeirri röð, sem hann mælti þær fram, og veita þau svör, sem ég ætla, að hann geti eftir atvikum látið sér nægja. — Hann talaði fyrst um það, að með þessu frv. væri gert ráð fyrir, að skipaskoðunin stæði undir sér sjálf, eða það, sem ég orða svo, þ.e., að ríkissjóður væri ekki látinn hafa halla af þessari löggjöf. Það er nú svo, að þegar þessi lög voru sett, þá var mikið um það deilt, hvað sá kostnaður yrði mikill, er í sambandi við þau yrði. Og því var haldið fram m.a. af fulltrúum sjávarútvegsins, a.m.k. í Ed., að þetta þyrfti að standa undir sér sjálft. Hv. 2. þm. S–M. fylgdi þeirri löggjöf. þegar hún var sett. Þetta mikla eftirlit skal ég ekki lasta, ef það gerir sitt gagn. En sé það eins nauðsynlegt og hv. 2. þm. S-M. hélt fram á sínum tíma, þá er það þess virði fyrir fiskiskipin, að verkið sé framkvæmt. En það eru ekki nema um 150 þús. kr., sem hér er um að ræða, sem undanfarið hefur verið dembt á ríkissjóð að greiða, en ég hér legg til, að fiskiskipaflotinn sé sjálfur látinn bera. Hv. þm. veit, að bifreiðaeftirlit ríkisins stendur undir sér sjálft. Eftirlit með skipulagi bæja stendur undir sér sjálft. Sömuleiðis eftirlit með vélum og fleira eftirlit. Svo að það má segja, að það sé regla í félögum, að kalla má, að slík eftirlitsstarfsemi sé ekki látin íþyngja rekstrarútgjöldum ríkisins, enda tel ég það hreinan óþarfa fyrir sjávarútveginn að fá þessum 150 þús. kr. útgjöldum komið á ríkissjóðinn. Ég hygg, að sjávarútveginn muni þetta ekki stórt. Og þessi hv. þm. verður að kannast við, að þegar sett er og á að fylgja fram kostnaðarsamri löggjöf, þá kemur að skuldadögunum, þó að þessari góðu reglu hv. 2. þm. S-M. væri fylgt, að vilja velta öllu yfir á ríkissjóðinn eða ríkið. En ef velt er útgjöldum yfir á ríkið, þá þarf að sama skapi því meiri tekjur til þess að mæta útgjöldunum. — Hv. 2. þm. S-M. talaði um. að vextir hefðu hækkað o. fl., sem íþyngdi sjávarútveginum. En það er hvorki Alþ. ríkisstj., sem hefur hækkað vexti af útlánuðu fé bankanna. Bankarnir eru einráðir um vexti af lánum, svo lengi sem Alþ. ekki bannar þeim það. Hitt hefur þessi ríkisstj. gert, sem engin önnur ríkisstj. hefur gert, að skipa bönkunum að lækka vexti fyrir útveginn. Það hefur aldrei verið gert fyrr og kann að sæta misjöfnum dómum. En því verður ekki neitað, að það spor hefur hér verið stigið. og það til ágóða fyrir atvinnuvegina. — Hv. 2. þm. S-M. sagði, að það væri þröngt hjá útveginum. Það er rétt, og það er ekki neitt nýtt fyrirbrigði í dag. En við getum, held ég, allir orðið sammála um það, að þjóðarbúið leggur á sig meira nú til þess að bæta úr þrengingum útvegsins en þó áður hefur verið gert. Þar á ég við þá ábyrgð, sem tekin hefur verið á fiskverði, sem getur verið vafasamt, hversu rétt er, og í öðru lagi, hversu lengi hægt er að halda því fyrirkomulagi áfram.

Þá minntist hv. 2. þm. S-M. á 6. lið þessa frv., um heimild fyrir stjórn Síldarverksmiðja ríkisins til að leggja fram þarna hlutafé í þetta skip. Og hv. þm. hneykslaðist á því, að þeir einstaklingar, sem legðu fram fé í fyrirtæki þetta, skyldu skoðast nokkru rétthærri en aðrir til þess að hafa af því gagn. Þetta er náttúrlega sá hreinræktaðasti ríkisrekstrarhugsunarháttur, sem getur átt sér stað. Í raun og veru er kenningin í innsta eðli sínu sú, að þessi hv. þm. vill helzt ekki vita af neinum einstaklingsrekstri. Ég get frætt þennan hv. þm. á því, að ég hef ekki verið með í að setja upp þetta hlutafélag og hef engan persónulegan þátt átt í því. Það eru hins vegar útgerðarmenn og Reykjavíkurbær og Óskar Halldórsson og svo stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, þessir aðilar hafa orðið ásáttir um að standa að þessu fyrirtæki og hafa gert um það sínar samþykktir á þann hátt, sem þeim hefur sýnzt. Og stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur farið fram á það við sjútvmrh., að hann leyfði Síldarverksmiðjum ríkisins að verða að einum fjórða hluta þátttakandi í þessum félagsskap. Og það leyfi hef ég veitt, að áskildu samþykki Alþ. En ef Alþ. tekur upp þá afstöðu að leggja stein í götu þessarar þátttöku, á einum eða öðrum grundvelli. þá get ég ekki reist rönd við því. — En við skulum bara athuga, hvernig þessi mál standa og hvað það er, sem hv. 2. þm. S-M. er að fjargviðrast út af. Þegar Hvalfjarðarsíldin kom, sú hin mikla veiði og sú mikla þátttaka, sem varð í þeirri veiði, stóðu menn uppi svo að segja handalausir til að byrja með. Og það er meira en lítið viðfangsefni, þegar um miðjan vetur í verstu veðrum og á hættulegum siglingatíma það kemur allt í einu upp, að flytja þarf hundruð þúsunda síldarmála yfir erfiðasta hluta ársins alla leið frá Suðurlandi til Norðurlands. Allir vissu, að þær verksmiðjur, sem voru hér syðra, þó að þær legðu sig fram. eins og þær gerðu, með miklum myndarskap, þær mundu ekki anna — eins og kom á daginn — nema litlum hluta af þessari veiði. Menn fóru þá út í það að leigja skip, dýr og stór hafskip, til þess að flytja þessa síld á þá staði, þar sem hægt var að vinna úr henni. Nú hefur það komið í ljós, og á eftir að koma enn betur í ljós, að þetta er svo kostnaðarsamt verk og borgar sig ekki, ef þeir fiskimenn, sem veiðina stunda, eiga að búa við nokkurn veginn sómasamleg verðlagskjör á sinni veiði. Og búi þeir ekki við nokkurn veginn sómasamleg verðlagskjör í þessu efni, þá geta þeir ekki stundað veiðina, m.ö.o. þá hagnýtist ekki veiðin. Þetta er það spursmál, sem fyrir lá og fyrir liggur nú. Um þetta leyti, er þessi veiði stóð yfir, vöknuðu menn til ýmiss konar umhugsunar um framtíðarúrræði í þessum efnum. Og reyndar ekki fyrst þá, því að það voru komnar hér fram á Alþ. till. frá ýmsum, þar á meðal einhverjum flokksbróður hv. 2. þm. S-M. og sömuleiðis frá hv. 4. þm. Reykv. um síldarbræðsluskip. Það var eðlilegur hlutur, í þeirri aðstöðu, sem var á þessum tíma, að reynt væri að gefa þessum málum þann alveg sérstaka gaum sem gert var. Ég fékk þá menn, sem ég þekkti færasta hér, til þess að gera áætlanir um, hvort nokkur tök væru á því að koma hér upp síldarbræðsluskipi án þess að kaupa til þess útlent skip. Það voru gerðar athuganir á þessum stóra dalli, sem liggur hér inni í Elliðaárvogi, og það var ekki álitið, að hann mundi vera til þess hæfur að flytja hann milli landshluta, því að sú athugun, sem á þessu var gerð, byggðist á því að geta leyst tvö verkefni með einu skipi, það að hirða Faxaflóasíldina og hins vegar að geta hjálpað til við hagnýtingu Austfjarðasíldarinnar og Langanessíldarinnar í sumar. Ólafur Sigurðsson, skipaverkfræðingur, og Sveinn forstjóri í Héðni voru með útreikninga og teikningar þessu að lútandi og komust að lokum að þeirri niðurstöðu, að hægt mundi að nota Lagarfoss til þessara hluta. Ég hef ekki vit á að dæma um þessi efni, hvað rétt er. En þeir álitu, að hægt væri að byggja inn í Lagarfoss síldarvinnsluvélar, sem afköstuðu að bræða 10 þús. mál á sólarhring. Lagarfoss mundi vera ódýr til þessa hlutar. En þá hafði hann ekkert rúm til að geyma lýsið, heldur aðeins rúm fyrir vélarnar. Ég áleit samt sem áður rétt að setja þessa hugmynd fram opinberlega. og með nokkrum öðrum hv. þm. flutti ég frv. um þetta í hv. Ed., til þess að það, eins og aðrar till., sem fram voru komnar, fengi athugun þar til hæfra manna og athugun í nefndum. Um þetta leyti kom frá Ameríku Jón Gunnarsson, og hann og forráðamenn Reykjavíkurbæjar, sem Óskar Halldórsson leiddu þar saman hesta sína, svo og útgerðarmenn hér. Og það eru þessir aðilar, sem fengu það út, að hentast sé að fá stærra skip til þessara hluta, sem geti geymt mjölið og lýsið. Og enn fremur er það látið falla saman, að Óskar Halldórsson, sem átti hér vélar til bræðslunnar og á þær enn, yrði þátttakandi í þessu og að hans vélar yrðu notaðar í þessu skipi. En áður var hv. þm. Borgf. búinn að flytja frv. um síldarverksmiðju í Akranesi, og hafði hann hugsað sér þann möguleika, að þessar vélar mundu geta komið þar til nota, eins og eðlilegt var. Nú, þessir menn báru saman bækur sínar, stofnuðu félagsskap og gerðu samþykktir, stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, bæjarfélagið hér í Rvík, útgerðarmenn, hve margir veit ég ekki, og Óskar Halldórsson. Og þetta er þannig lagt fyrir mig, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins biður um heimild til þess að vera þarna með. Þá heimild hef ég veitt, að áskildu samþykki Alþ.

En við skulum bara líta á málið þannig: Hvað hefði orðið okkar hlutskipti í þessum málum, ef þetta fyrirtæki hefði ekki átt sér stað? Það er vitað, að hinar nýju verksmiðjur í Hafnarfirði, Keflavík og á Akranesi stefna að því að bæta við sig vinnslugetu, ég held um 15 eða 16 þús. mála vinnslu. Jafnvel þó að það væri gert, þá mundi afli eins og t.d. var á síðasta og þessu ári í Hvalfirði samt sem áður verða þeim ofvaxinn til að vinna úr honum, svo að það þyrfti til einhverra ráða að taka til viðbótar. Yrði þá sennilega að taka það sama ráð og áður, ef ekki væri annað að gert, að flytja síldina norður. En ég hygg, að það komi fullkomlega í ljós, að ef síldin er flutt norður og ef Síldarverksmiðjur ríkisins eiga að vinna úr henni með tapi, þá verði of mjög að skera við neglur sér það verð, sem gefið er fyrir síldina. Og hvaða möguleika hefðum við haft, ef ríkið hefði átt að byggja verksmiðju á eigin reikning? Ég setti fram í hv. Ed. þá hugmynd og áleit rétt að fá heimild í því efni. En ég sé ekki með vissu fyrir, hvernig við hefðum getað fengið lán, þar sem vitað er, að Síldarverksmiðjur ríkisins skulda 16 millj. kr. samningsbundið, fyrir utan sín samningsbundnu byggingarlán, og þar sem enn fremur er vitað, að Síldarverksmiðjur ríkisins standa í óbættum sökum við ríkissjóð um margar millj. kr., sem hefur orðið að snara út fyrir þær, af því að þær hafa ekki haft fé. Ofan á þetta hefði þá orðið að biðja um lán, ef Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu átt að framkvæma útvegun síldarbræðsluskips. Lagarfoss, ef hann hefði komið til greina í þessu efni, var hugsað um sem ríkisfyrirtæki. Þar var talað um 14 millj. kr. stofnkostnað. Og ég býst við, að sá kostnaður hefði orðið ekki minni, eins og vant er, þegar gizkað er á um kostnað hluta hér á landi. — Mér þótti því mjög gott, þegar ég heyrði, að útgerðarmenn og Reykjavíkurbær vildu standa að þessu að þremur fjórðu hlutum og að ríkið þyrfti þarna ekki að standa undir að kosta til nema að einum fjórða hluta. Ég áleit, að með þessu móti mundi fyrirtækið verða framkvæmanlegt og viðráðanlegt, og má segja, að nokkuð örugg vissa sé fyrir. að þetta geti komizt í framkvæmd. Og það er það, sem mér hefur þótt aðgengilegt við þetta, og þess vegna hreyfði ég því ekki í Ed., eftir að þessi hreyfing var komin á þetta mál, að hampa því frv. um þetta efni, sem ég er við riðinn, af því að ég áleit þetta betri lausn á þessu máli. Því að það að bræða síld kemur alveg eins að notum fyrir ríkisheildina, hvort sem ríkið á þetta skip að öllu leyti, sem notað er til síldarbræðslu, eða aðrir aðilar eiga það að þremur fjórðu hlutum. — Hitt, sem hv. 2. þm. S-M. hneykslaðist á, og kann að vera, að fleiri geri, að þessir menn, sem eiga hlut í þessu skipi. vilja hafa aðgang að því um afsetningu síldar frá skipum sínum. það get ég ekki séð, að sé óeðlilegt. Ég veit ekki til, að sveitungar mínir eigi neinn hlut þarna að. En ég hef hugsað mér þann möguleika, að um leið og slíkt bræðsluskip væri komið. og þó að nokkrir útgerðarmenn og Reykjavíkurbær hefðu þarna forgang um afnot skipsins til þess að það tæki á móti síld frá þeim, þá rýmkaðist óbeinlínis til fyrir hinn hluta flotans, þannig að hinir aðrir síldveiðendur kæmust því enn frekar að í öðrum verksmiðjum við það, að þetta skip væri komið, þannig að þetta skip væri alltaf starfandi að þeirri framleiðslu, sem þarna ætti sér stað. líka fyrir þá, sem ekki væru beinir hluthafar og hefðu svo kallaðan forgangsrétt.

Varðandi Norðurlandssíldveiðarnar og þetta skip, þá var það eitt af þeim skilyrðum, sem ég setti stjórn síldarverksmiðjanna, ef samningar tækjust um þetta, að Síldarverksmiðjur ríkisins hefðu rétt til þess að nota þetta skip á sumrin og að þá hefðu allir jafnan aðgang að afnotum skipsins. en þar væri enginn forgangsréttur.

Þá hef ég skýrt þetta mál, eins og það lítur út frá mínum bæjardyrum séð. Og ef ekki á að leggja forboð við því, að menn leggi fram í fyrirtæki fé úr eigin vasa og síðan fái að njóta forgangs um afnot þess fyrirtækis fyrir það, þá sé ég ekkert hneykslanlegt við þessa hluti, sem gerzt hafa í sambandi við undirbúning þess að fá þetta síldarbræðsluskip. — Það væri sjálfsagt gott fyrir hv. 2. þm. S-M. að segja við sjómenn og útgerðarmenn: Þið eigið ekkert að vera að þessu, að leggja á ykkur neitt í þessu efni, því að ríkið á að byggja verksmiðjurnar og allir eiga að hafa jafnan rétt til afnota af þeim. — Þetta gæti verið gott og blessað, ef það bara næði nógu langt. En það eru bara takmörk fyrir því, hvað ríkið getur fullnægt miklu af óskum og þörfum manna í þessu efni. Og ef um það er að ræða að velja á milli þess annars vegar að fá svona fyrirtæki upp með öruggri vissu, þó að það sé byggt upp með svona félagsskap, eða hins vegar að hafa fyrirtækið alls ekki starfandi, þá álít ég miklu betra, að svona fyrirtæki sé starfandi, þó að það sé byggt með þeim félagsreglum, að þeir eigi hér forgangsrétt, sem eiga í skipinu. Og ef þetta fyrirtæki væri drepið, þannig að sett væru af Alþ. þau skilyrði, sem þessir aðilar, sem að þessu fyrirhugaða fyrirtæki ætla að standa. sætta sig ekki við, og málið drægist úr hömlu, svo að ekkert yrði úr kaupum á skipi í þessu augnamiði svo tímanlega, að til nota kæmi á næsta hausti, eins og stefnt er að, þá sæi ég ekki, að annað væri með því gert en óleikur gagnvart sjávarútveginum í heild.

Þá minntist hv. 2. þm. S-M. á þessa einu milljón, sem átti að leggja í landnámssjóð og hefur verið færð aftur á bak um nokkur ár. Ástæðan fyrir því, að þetta er hugsað að gera, er sú, að hægara er fyrir ríkissjóð að standa undir því að láta 4 millj. kr. á þessu ári í þessa sjóði, ræktunarsjóð og landnámssjóð, heldur en að láta 5 millj. eins og goldnar voru á síðasta ári. Og það hefur orðið samkomulag við þá aðila, sem að þessum lögum eiga að búa, um að þetta sé gert á þennan hátt. Það á ekki að svíkja mennina um eina milljón kr. Það á aðeins að slá á frest greiðslu hennar um það árabil, sem um er að ræða. Hins vegar hefur verið innt af höndum af hálfu ríkisstj. sú skylda, sem samkvæmt hvorum tveggja þessum l. lá á okkur, að leggja til þessum sjóðum í eitt skipti fyrir öll ló millj. kr. samanlagt.

Þá minntist hv. þm. loks á frestun þeirrar skyldu, sem hvílir á sveitarsjóðum og ríkissjóði, og taldi þar rofið heit. Ég vil benda á, að það, sem hér er farið fram á, er ekki annað en það, að slík skylda hvíli því aðeins á ríki og bæjarfélögum, að fjárveitingavaldið leggi hana á í hvert sinn. Ég tel heppilegt, að það sé hverju sinni lagt undir réttdæmi þeirra hæfustu manna, sem fara með fjárveitingavaldið, þ.e.a.s. undir fjvn. og Alþingi sjálft, svo að Alþ. kveði á um það hverju sinni, hvenær þessi skylda skuli gilda og hvenær ekki. Geta ríkissjóðs er ákaflega misjöfn og bæjarfélaganna sömuleiðis. Það er því hyggilegt, að fjárveitingavaldið hafi hönd í bagga með ekki aðeins framkvæmd þessara l., heldur allra l., sem sett eru út í bláinn og skylda ríkissjóð til að gera þetta og hitt, hvort sem getan leyfir eða ekki.

Ég hef þá komið inn á öll þau atriði, sem hv. þm. minntist á, og sýnt fram á, að hvað landnámssjóð áhrærir og byggingar í kaupstöðum þá er þar ekki um neina brigðmælgi að ræða, heldur er aðeins verið að fresta að leggja fram fé í þessu skyni, og hvað skipaeftirlitið snertir þá hefur þeirri reglu verið fylgt í fjárl., að eftirlitsstarfsemi skuli standa undir sér.

Það eru enn fremur glögg rök, að ef ekki hefði notið við aðstoðar einstaklinga í Rvík, sem hafa boðið fram fé til að auka afkastagetu síldarverksmiðjanna, þá er borin von, að það fyrirtæki hefði komizt upp eða annað hliðstætt á þessu tímabili. Ég held, að óhætt sé að segja, að þar sem enginn undirbúningur var af hálfu ríkisins að byggja síldarverksmiðju við Faxaflóa, þá mundi hún ekki vera komin í tæka tíð, þó að fé væri fyrir hendi.

Ég hef ekki hingað til heyrt eina einustu rödd, ekki einu sinni í Þjóðviljanum, að nein hætta hafi verið á ferðum, þegar útgerðarmenn við Faxaflóa og bæjarfélagið tóku sig saman að stuðla að því að bæta möguleikana til hagnýtingar síldar á næsta ári, fyrr en nú, að sósíalistaþm. finnst það eitthvað bagalegt fyrir útgerðarmenn. Ég játa fúslega, að það væri mjög æskilegt, að allir hefðu aðgang að þessum hlutum, en ég sé ekki vel, hvernig hægt er að koma því við. Ekki mundu 174 skip geta fengið afgreiðslu við þessa verksmiðju, þannig að enginn þyrfti að bíða, en það voru eitthvað 174 skip, sem voru við veiðar, þegar mest var. En það gefur auga leið, að með því að auka vinnslumöguleikana, þá er greitt úr þessu að nokkru leyti. Ef um það væri að ræða, að samningar gætu tekizt við þetta félag á öðrum grundvelli en þeim, sem þeir hafa gert samninga um, þá skal ég ekki leggja stein í götu þess á neinn veg, en mér þykir líklegt, að þegar menn hafa stofnað svona félagsskap, þá sé erfitt um slíka samninga. Við skulum segja, að ríkið væri ekki með í þessu, það er hugsanleg leið. en ég tel hana ekki heppilega.