03.11.1947
Efri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar ég hreyfði hér umr. um þetta mál, tók ég fram, að það væri ekki af því, að ég vildi sýna málinu andúð. heldur af því, að ég óskaði ýmissa upplýsinga, sem ekki lágu þá fyrir. Nú hefur málið að ýmsu leyti skýrzt, því bæði hefur hæstv. ráðh. og hv. frsm. fjhn. skýrt það mikið við umr. Ég mun fylgja frv. eins og það liggur fyrir, með þeirri breyt., sem fyrir liggur, sem mér finnst í alla staði sanngjörn.

En ég vil leyfa mér að taka fram, að upplýsingar frá flugvallastjóranum eru sumar ekki eins ábyggilegar og æskilegt hefði verið. Ég segi það aðeins til þess að leggja áherzlu á, að það þurfa að koma frá slíkum embættismanni upplýsingar, sem treysta megi á. Hann segir hér t.d., að það sé ekki venja í öðrum löndum að láfa flugvélar borga sömu gjöld og sömu tolla og aðra af benzíni. Þetta er ekkert svar. Þungatollur á benzíni er ekki í öðrum löndum. ekki heldur því benzíni, sem bifreiðar nota. Ég er ekki að tala um þetta til þess að tefja málið, heldur til þess að benda á, að þetta er ekkert svar.

Í öðru lagi segir flugvallastjóri, að hagur flugfélaganna sé slæmur. Það er hægt að fá að vita um það, þegar rekstrarreikningarnir koma, hvort þessi embættismaður fer þarna rétt með. Í fyrra var hagur þeirra góður. Að vísu hefur Flugfélag Íslands fengið mikinn skell. Hins vegar hefur flugfélagið Loftleiðir fengið miklar tekjur og aflað landinu ekki aðeins tekna, heldur og mikils gjaldeyris. Hef ég það frá aðilum, sem vita ekki síður vel um það en flugvallastjóri. — En hvort sem hagur flugfélaganna er slæmur eða góður, mun ég, sem sagt, greiða atkv. með þessu máli ásamt brtt. n., því að mér þykir gott, að hagur flugfélaganna verði betri en hann er, hvað sem öðru líður.

Þá þóttu mér undarlegar síðustu upplýsingarnar, og ég skil þær ekki. Hv. frsm. sagði, að með þessari breyt. ætti að létta útgjöldum af flugvélunum, en fullyrðir, að ríkissjóður græði á þessu. (BSt: Vegna fleiri lendinga). Nú velur hver útlend flugvél um það, hvort hún vill lenda hér og kaupa benzín eða hins vegar taka benzínforða til allrar ferðarinnar yfir Atlantshafið með sér í byrjun ferðarinnar. En það breytir lítið málinu, þó að benzínið sé lækkað í verði, ef önnur gjöld í sambandi við lendingar flugvélanna eru hækkuð. Og nú skilst mér, að flugmálastjóri ætli sér að láta hækka lendingar- og stæðisgjöld á Keflavíkurflugvellinum, til þess að ríkissjóður græði eins mikið eða meira á viðkomu flugvélanna, eftir að aukatollurinn af benzíninu er afnuminn. Þetta rekur sig hvað á annars horn. Þessar upplýsingar eru ekki sæmandi frá manni í slíkri stöðu sem flugmálastjóra, sem ætlast verður til, að sé tekinn alvarlega. Segi ég þetta ekki til þess að mæla á móti frv. — Ég ætla ekki að ræða þetta mál meira. Ég fylgi málinu með tilliti til þess, að okkur er lífsnauðsyn að auka flugferðir hjá okkur innanlands og á milli landa. Það er framtíðin. Og það er sú minnsta samúð, sem skylt er að sýna þeim mönnum, sem berjast fyrir því að halda uppi flugsamgöngum hjá okkur, að samþykkja þetta frumvarp.