18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

72. mál, dýralæknar

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. N. hefur leyft sér að flytja hér 3 brtt. við frv. Þessar brtt., eða tvær þær fyrri, miða að því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna þeirra framkvæmda, sem þarna eru ætlaðar. Í frv. er svo ráð fyrir gert, að eftirleiðis beri að vera 9 dýralæknisembætti. Nú hagar svo til hjá okkur, að það hafa ekki verið fleiri en 5 fulllærðir dýralæknar og því engin tök á að skipa í þessi embætti. N. sýndist því meira um framtíð vera að ræða og viðurkenndi fyrir sitt leyti að svo væri. Hins vegar getur n. ekki fallizt á, að gengið verði frá þessu á þann veg, sem gert er af þeirri n., sem undirbjó þetta frv., að þeir læknar, sem nú eru, geti tekið dýralæknislaun til viðbótar við sín. Það telur n. óeðlilegt og því rétt að fyrirbyggja slíkt. Þessar tvær till. eru þess vegna miðaðar við, að því sé slegið föstu, að meðan dýralæknisembætti, sem þarna fjölgar, séu ekki veitt, þá sé starfandi læknum, sem nú eru, skylt að sinna þeim nauðsynlegu störfum, eins og þeir hafa gert hingað til, þar til lærðir dýralæknar fást í umdæmin. Önnur breyt. er af sama toga spunnin. Það er gert ráð fyrir, að yfirdýralæknir sé í Reykjavík, en ekki héraðsdýralæknir. N. taldi, að meðan svo væri ástatt sem nú, að það vantaði lækna, þá væri ástæðulaust að skipta þessum embættum, og leggur því til, að yfirdýralæknirinn gegni þessu embætti fyrst um sinn, þar til læknar fengjust í önnur embætti. M.ö.o., ástandið verði óbreytt eins og verið hefur, þar til völ er á lærðum dýralæknum í öll eða flest embætti.

3. breyt. er í raun og veru ekki efnisbreyt., en meira orðabreyt. Þar er gerð nokkuð rækileg tilraun til þess að rétta hlut þeirra héraða, sem nú eru dýralæknislaus, þó að það teljist, að þau tilheyri ákveðnu dýralæknisumdæmi, með því að heimila þeim að nota nokkuð styrk frá því opinbera til þess að kosta menn, sem hafa sýnt sig sérstaklega hæfa á þessu sviði og verið almenningi að miklu liði í þeim vandræðum, sem víða eru vegna skorts á dýralæknum.

Ég vil að endingu geta þess, að hér er á einum stað prentvilla, þar sem stendur búfjáreigendum í staðinn fyrir búfé. — Það er ekki ástæða að fjölyrða um þetta frekar, því að það er svo augljóst mál, að ekki þarf frekari skýringa. Ég vona, að málið gangi greiðlega til 3. umr.