15.12.1947
Neðri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

111. mál, bráðabirgðafjárgreiðslu 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú gefið nokkrar skýringar frá hans sjónarmiði á þeim drætti, sem orðið hefur á fjárlögunum, og hæstv. ráðh. virðist ekki taka þetta mjög nærri sér. Hann talaði um, að til væru ótal fordæmi fyrir þessari beiðni um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði. Jú, til eru nokkur fordæmi, en engin undir slíkum kringumstæðum sem nú ríkja, svo að þetta frv. hér er í raun og veru einsdæmi. Nýsköpunarstjórnin hafði stuttan tíma til þess að setja fjárlög fyrir næsta ár. og hún gerði það á 2 mánuðum, þó að þau fjárlög væru umfangsmikil í mesta máta. Þá sagði hæstv. fjmrh., að það væri mikil afsökun á drætti fjárl., að gengið hefði langur tími í að athuga dýrtíðarmálin, mikið hefði verið unnið að þessu og fundarhöld löng og ströng. Jú, jú, enginn efast víst um það, að nóg hefur verið um fundarhöldin. Kölluð var saman stéttaráðstefna, og átti hún að koma saman í vor. Framsfl. lagði sérstaka áherzlu á, að hún kæmi saman í vor. En hún var bara ekki kölluð saman fyrr en í haust. ríkisstj. hefur þá líklega loksins orðið ljóst, að stéttaráðstefna hefði átt að hjálpa til við að leysa dýrtíðarmálin. Hvernig hefur nú ríkisstj. undirbúið í hendur stéttaráðstefnunnar? Þegar hún kemur saman í haust, upplýsir Tíminn, að ekkert er til hjá ríkisstj., sem til átti að vera, til þess að stéttaráðstefnan gæti starfað að gagni. Þarna sést verklagið. Hæstv. fjmrh. upplýsir, að ekki sé hægt að koma fjárlögum neitt á veg, fyrr en tekizt hafi að vinna bug á verðbólgunni í landinu. Hvers konar skollaleikur er þetta? Hefði ekki verið eðlilegt, að stjórnin hefði nú haft til einhver úrræði til að leysa þennan vanda, eftir að hún er búin að sitja 10 mánuði? Hæstv. fjmrh. segir, að mikill tími hafi farið til fundarhalda og ráðagerða. Hvar er árangurinn? Ekkert er tilbúið frá hendi stj., sem til þyrfti að vera.

Það er nú augljóst, að ráðherrarnir voru ekki, þegar þeir settust í ráðherrastólana, færir um að vinna það, sem þeim var ætlað. Svo segir hæstv. fjmrh., að áætlunarbúskapur sé bara hálfgerð vitleysa og þýði ekkert að vera að eiga við þessar áætlanir og þær komi ekkert við afgreiðslu fjárlaga. Mér heyrist meira að segja á hæstv. fjmrh., að hann hafi ekkert samband haft við fjárhagsráð varðandi þetta. Má ég spyrja: Er ríkisstj. í mörgum pörtum? Róa ráðherrarnir til skiptis í stafninum og skutnum? Og hæstv. fjmrh. ætlast til, að þingið samþykki fyrir hann fjárlög, sem geta hvergi staðizt fjárhagsáætlunina. Hvaða vit er í slíku? Ríkisstj. sker niður fjárframlög til allra verklegra framkvæmda í landinu annars vegar, en ætlar svo fjárhagsráði sama verkefni hins vegar. Fjárhagsráð hefur skorið svo niður allar framkvæmdir í landinu, að það hefur þegar skapað atvinnuleysi á Íslandi, og niðurskurðurinn til verklegra framkvæmda á fjárlögum þýðir stórkostlega hættu fyrir þjóðarbúskap Íslendinga og skapar atvinnuleysi. Ef þetta er afgreitt sitt í hvoru lagi, þá skapar það aðeins öngþveiti. Í þriðja lagi, ef Alþingi ákveður fjárlög án þess að vita, hvað það vill gera, og án þess að hafa skapað sér neina ákveðna stefnu að fara eftir, þá verkar slíkt þannig, að fjárhagsráð, sem er langvoldugasta stofnun í landinu, rífur niður samþykktir Alþingis, með öðrum orðum, Alþ. er þá orðið eins konar undirnefnd, sem gerir ekki bindandi samþykktir, en stórráðið tekur völdin af alþm. Yfirlýsingar hæstv. fjmrh. bera þess glöggan vott, að hæstv. ríkisstj. gerir sér ekki ljóst, hvaða stefnu hún fylgir. Þetta kom einnig berlega fram í yfirlýsingum þeim, er gefnar voru hér á Alþ., er l. um fjárhagsráð voru rædd, sællar minningar. Þau l. voru nú runnin undan rifjum hæstv. ríkisstj., og ráðh. Sjálfstfl. gerðu ekki ráð fyrir því, að farið yrði út í áætlunarbúskap, en hæstv. forsrh. fullyrti, að hafinn yrði áætlunarbúskapur. Þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. stríddi á móti yfirlýsingu hæstv. fjmrh., sem sagðist vera á móti planökónómí. En vegna þess, að hæstv. forsrh. er höfuð ríkisstj., þá hélt ég, að hann hefði meiri völd, og trúði því yfirlýsingu hans, hélt, að hún mundi gilda. Þetta var nú þegar hæstv. ríkisstj. var ung, en málið ekki „settlað“. Og nú virðist hæstv. fjmrh. ekkert tillit ætla að taka til samþykkta Alþingis. Hvers konar stjórn er hér, og hvers konar forysta er þetta? Hvaða ráðh. í ríkisstj. er að marka? Hvaða yfirlýsingar gilda? Eða á togstreita að gilda um allar framkvæmdir næstu mánuðina? Þetta ástand getur ekki staðizt. Ef það er rétt, sem hæstv. fjmrh. meinar, eru lögin um fjárhagsráð til einskis nýt og úr gildi fallin. Ég vil leyfa mér að drepa hér á eitt ákvæði, sem stendur í þeim l., ég hef l. að vísu ekki hér við höndina, en ég held, að ég muni það rétt. Þar stendur, að það sé hlutverk fjárhagsráðs að gera áætlun um allar atvinnuframkvæmdir í íslenzku þjóðlífi. Í þessu liggur hlutverk fjárhagsráðs. En ef stöðva á atvinnuframkvæmdir landsmanna, þá er ekki lengur þörf fyrir stofnun sem fjárhagsráð. Fjárhagsráði hefur verið ætlað annað hlutverk en byggja upp, því hefur verið ætlað að skera niður, og sú krafa mun hafa verið borin sérstaklega fram af sjálfstæðismönnum. En ef áætlunarbúskapur er eintóm vitleysa, eins og hæstv. fjmrh. sagði, og ekkert tillit er tekið til hans, þá ætti samkvæmt þessu að leggja fjárhagsráð niður. Það væri gott að fá yfirlýsingu um þetta frá hæstv. ráðh.

Hæstv. fjmrh. sagði, að verðbólgan í landinu hefði orsakað það, að fjárl. væru ekki enn komin. Hvers var þá að marka stefnuna? Hver tók að sér landsstjórnina í fyrra? Er það ekki hlutverk núverandi hæstv. ríkisstj. að afgreiða fjárlög og marka stefnuna í atvinnulífi Íslendinga? Manni virðist sem svo, að ríkisstj. hafi notað allan þann tíma, frá því að hún tók við völdum, til að reyna að finna stefnu, sem hún hefur þó ekki enn, eftir 10 mánaða völd, komið sér niður á. Nei, afsökun hæstv. fjmrh. bitnar á ríkisstj. sjálfri og sýnir glöggt, hve ófær hún er til að sinna sínu hlutverki.

Hæstv. menntmrh. talaði hér nokkur orð og sagði, að hér á landi ríkti vandræðaástand. Þetta er ekki nýr söngur. Þessi maður talar alltaf svo. Hann sér og hefur aldrei séð annað en vandræði. En ef það væri nú vandræðaástand á Íslandi, — hver hefur þá skapað það ástand? Er þá komið svo eftir 10 mánaða veru Framsfl. í ríkisstj. með gömlum vinum? Og á hverju hefur núverandi ríkisstj. fleytt sér? Hún hefur fleytt sér á arfinum frá nýsköpunarstjórninni, á þeim arfi, sem hæstv. menntmrh. bölsótaðist sem mest yfir. En sá mikli arfur eru hinir nýju togarar, sem streyma inn í landið, og arðurinn af hinum mörgu stórvirku tækjum, sem fráfarandi ríkisstj. lét festa kaup á, og þeim nytsömu fyrirtækjum, sem hún styrkti til að koma upp. Á þessum arfi hefur hæstv. ríkisstj. flotið. Hún hefur flotið einmitt vegna hinna stórkostlegu framkvæma fyrrv. ríkisstj., vegna baráttu hennar til að innleiða nýtízku tækni við framleiðsluna og útveganir á stórvirkari og betri tækjum en nokkru sinni höfðu áður þekkzt. Vegna þessa hefur verið framleitt eins geysimikið á þessu ári af verðmætum og raun ber vitni. Ef hæstv. menntmrh. hefði ráðið stefnunni 1944, hefðu 30 nýtízku togarar ekki verið keyptir til landsins. Hæstv. ríkisstj. hefur skrimt á arfinum frá fyrrv. ríkisstj. og mun gera það svo lengi sem hún tollir í ráðherrastólunum. Meiri hl. af þeim skipum og tækjum, sem nýsköpunarstjórnin festi kaup á, er enn ókominn til landsins, svo sem togarar og flutningaskip. Árin 1947 og 1948 er þjóðin að uppskera arf frá nýbyggingarárum Íslendinga. Hæstv. menntmrh. ætti því að gæta sín að tala sem allra minnst um arf. En hann ætti heldur að hugsa til þeirrar baráttu, er bæta þurfti laun kennara, og baráttunnar fyrir fjáröflun til nýrra skólabygginga, sem fyrrv. ríkisstj. kom í gegn. Hann ætti heldur að reyna að halda í það, sem áunnizt hefur, og ekki stöðva skólabyggingarnar, heldur halda því umbótastarfi áfram. Hæstv. menntmrh. sagði, að ríkisstj. hefði unnið eftir beztu getu og vitund. Já, hún hefur unnið eftir fremsta megni að því að stöðva framkvæmdir í landinn, og hún hefur bannað mönnum að vinna. Byggingarverkamenn ganga atvinnulausir, og þeim er bannað að byggja yfir sig hús, bannað að koma þaki yfir höfuð sér. Það er aumleg iðja að eyðileggja innlenda atvinnuvegi, en iðnaðurinn er nú nær stöðvaður vegna þess, að honum er neitað um nauðsynleg hráefni. Eftir því sem ég bezt veit, þá er nú að skapast stórkostlegt atvinnuleysi í iðnaðinum sökum þessa. Hæstv. menntmrh. ætti því að tala varlega. Hann er með sinni þátttöku í ríkisstj. þeirri, sem nú situr, að vinna sinn þátt í því, að atvinnuleysi skelli yfir þjóðina. Ég veit, að hæstv. menntmrh. kærir sig ekki um miklar umr. um þetta nú, því að það voru ekki lítið stór orð, sem hann lét falla hér á Alþ., áður en hann fór í ríkisstj.

Hv. þm. Ísaf. talaði hér nokkur orð um fjárhagsráð og starfsemi þess og viðurkenndi, að margt væri áfátt í starfsemi þess. Það er nú vist ekki margt að segja um það út af fyrir sig, því að svo er um flest mannanna verk. Lakara er hitt, að fjárhagsráð virðist gegna annarri iðju en ætlazt er til af þeirri stofnun. Í fyrsta lagi er sú stofnun notuð til að blekkja þjóðina og telja úr henni kjarkinn, en kjarkurinn er það bezta, sem íslenzka þjóðin hefur átt um allar þær aldir, sem hún hefur barizt fyrir tilveru sinni. Í öðru lagi er þessi stofnun notuð til þess að gera ráðstafanir til að svipta Íslendinga atvinnu og gera þá fátækari. Þetta er hart, og þetta er skörulega gert af stofnun, sem hefur ekki starfað nema í hálft ár. Það er fyrir þetta, sem ég álasa fjárhagsráði. Að þessu hefur fjárhagsráð unnið vel. Nei, það var hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að segja þjóðinni sannleikann og ráðstafa fé því, sem til er, og lofa þjóðinni að halda áfram að vinna og lofa byggingarverkamönnum að koma upp þaki yfir höfuð sér. Það er hart að sjá forðabúrin full, t.d. af timbri, en banna mönnum svo að byggja. Hv. þm. Ísaf. afsakaði drátt fjárhagsráðs á að gera heildaráætlun um framkvæmdir í landinu. Hann afsakaði fjárhagsráð með því, að það hefði ekki getað látið vinna að þessu sökum þess, að nauðsynlegar hagskýrslur hefðu ekki borizt stofnuninni. Þetta er rétt hjá hv. þm., að það er erfitt að ákveða áætlunarbúskap án slíkra gagna. Það er nokkur vandi að vinna að framkvæmdum án þeirra. En með þeim upplýsingum, sem þegar eru fáanlegar, og þeim, sem berast mundu svo eftir hendinni, hefði lítill annmarki verið á því að bæta úr vöntun hagskýrslna, ef vald fjárhagsráðs hefði ekki verið notað til þess eins að neita og neita. Ég veit, að þær breytingar hafa átt sér stað á fjárhagsráði frá þeim tíma, er þessi stofnun hét nýbyggingarráð, að í stað þess er t.d. útvegsmaður kom í nýbyggingarráð til að biðja um aðstoð, þá var honum oft tekið svo, að maður var sendur með honum út í Landsbanka til að koma honum þar í gegnum nálaraugað og útvega honum nauðsynleg leyfi. Núna í fjárhagsráði eru erindisbréfin látin bíða, og fyrst er leitað álits Landsbankans. Fjárhagsráð skoðar sig sem eins konar undirnefnd landsbankavaldsins og Jóns Árnasonar. Við í nýbyggingarráði vissum, hverja baráttu það kostaði að fá lækkaða útlánsvexti til útvegsins. Það varð ekki gert nema með miklu harðfylgi. En fjárhagsráð er nú alveg máttlaust verkfæri Landsbankans og er eins og litli fingur á hinni dauðu hönd, sem vill leggja allt athafnalíf Íslendinga í rústir. Þess vegna er ekkert gert þjóðinni til geðs. Og alleinkennileg er sú afsökun hv. þm. Ísaf., að fjárhagsráð hafi ekki haft nægan tíma til að vinna. Sú afsökun er mér kunn, síðan l. um fjárhagsráð voru til umr. í þinginu í vor, sem leið. Við það tækifæri sagði ég, að ef öllum undirbúningi undir áætlunarbúskap yrði lokið fyrir 1948, þá væri það vel gert. En að hægt hefði verið að gera slíka heildaráætlun á þessu ári, var og er eintóm vitleysa. Þrátt fyrir það að við sósíalistar aðvöruðum ríkisstj. um þetta, að það væri ógerlegt að ljúka slíkri áætlun á svo skömmum tíma, þá var því ekki sinnt, og l. voru samþ. eins og þau eru nú. Og svo átti að reikna fyrir fram út allan þann kostnað, sem yrði við hvert fyrirtæki í landinn, — en hefur það verið gert? Ónei, en nú kemur upp úr kafinu, að tíminn hafi verið helzt til skammur til þess arna. Nei, menn skyldu ekki ætla, að það væri hægt að þjóta í gegnum þingið með 1., sem eru með slíkri bölvaðri vitleysu.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að nýbyggingarráð hefði verið lengi að útbúa allar áætlanir sínar. Það má til sanns vegar færa. En er þau l. voru framkvæmd, þá voru felld inn í reglugerðina þau ákvæði, jafnóðum og þau voru ákveðin, sem nauðsynlegust voru. Þótt þannig væri unnið, var unnið eftir ákveðinni áætlun, sem skapaðist smám saman. Yfirleitt vissu menn, að ekki var hægt að fullgera neina fyrirframáætlun, nema á mörgum árum. Það var öllum ljóst, að það væri margra ára verk að fara í gegnum hagskýrslurnar, svo að gagni kæmi, og þess vegna var gengið út frá þeirri aðferð í reglugerð, að áætlunin yrði til, eftir því sem vinnast mundi úr hagskýrslunum. Þetta var gert vegna þess, að nýbyggingarráð vildi ekki láta tefja framkvæmdir í landinu sökum erfiðs og seinvirks verks við samningu áætlunar um atvinnuframkvæmdir á Íslandi. En hvað gerist í fjárhagsráði? Þeir eru ekki lengi þar að gera áætlanir sínar. — Ónei, þeir ætla sér að reikna kostnaðinn við bókstaflega allt og athuga nákvæmlega allar fjár- og eignahreyfingar og vita glöggt, hvaðan fé er tekið til hvers og eins. Það er sannarlega margt óraunhæft, sem þessi stofnun hefst að, og því hefst hún slíkt að, að henni hefur aldrei verið ætlað að gera neitt til gagns. Hins vegar er það mjög ánægjulegt að bera framkvæmdir nýbyggingarráðs saman við störf fjárhagsráðs. Er 10 mánuðir voru liðnir frá því að nýsköpunarstjórnin tók við völdum, þá hafði hún keypt 30 nýja togara. keypt stórvirk nýtízku vinnutæki til landsins og stuðlað að stofnun fjölda stórra, þjóðnýtra fyrirtækja. Tíu mánuðum eftir að núverandi ríkisstj. tekur við völdum hefur henni tekizt að skapa atvinnuleysi á Íslandi. Ekkert dæmi er betra til að kynnast samanburðinum á verkum og athöfnum nýbyggingarráðs og fjárhagsráðs. Nýbyggingarráð efldi allt atvinnu- og athafnalíf landsmanna og byggði sterkan atvinnugrundvöll fyrir alla landsmenn í framtíðinni. Fjárhagsráð virðist til þess eins að reyna að stöðva þessa þróun.

Ég mundi hafa ánægju af því að ræða við hv. þm. Ísaf. frekar um þetta mál. Það gefst kannske tækifæri til þess seinna, et hæstv. ríkisstj. leggur fram áætlun fjárhagsráðs. En það virðist ekki horfa vænlega um það, þegar partur af ríkisstj. segir, að þessar áætlanir þurfi ekki að vera til, og annar partur af ríkisstj. segir, að það sé óhjákvæmilega grundvöllurinn fyrir því, að hún geti stjórnað landinn. Slík ríkisstj. hlýtur að vera á hraðri ferð með að skapa glundroða í landinu. þegar svo þar við bætist, að það kemur í ljós, að það, sem hún getur sameinazt um, er alþýðunni ekki sem heppilegast.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. og aðrir, sem hafa viljað fá þetta mál fram, muni ekki treysta sér til mikilla andsvara eða varna fyrir því atferli að gefast upp við að gefa út fjárl. í tæka tíð og haga sér eins og ríkisstj., sem nýtur ekki stuðnings Alþ., og slík aðferð á sér ekkert fordæmi í sögu lýðveldisins.

Ég mun athuga við 2. umr., hvort bornar verða fram brtt. við frv. En að hinu vil ég spyrja, hvers vegna hér er ekki sett neitt tímatakmark. Er það kannske tákn þess, hve vonlaus hæstv. ríkisstj. er um það að sjá nokkuð fram úr þessum vandamálum eða hvernig henni muni takast að rækja þau einföldustu embættisverk, sem stjórn ríkisins eru lögð á herðar?