10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Það liggja hér fyrir miklar brtt. á þskj. 154 frá landbn. við þetta frv. Ég ætla ekki að taka hér fyrir einstakar brtt. eða gera grein fyrir hverri einstakri þeirra, enn í þess stað hef ég hugsað mér, til þess að þreyta ekki hv. þd. um of, að gera grein fyrir meginbreyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á þessu frv. Það má vel segja, að það mætti skipta þessum brtt. í svona fimm til sex liði, og út frá því mun ég gera grein fyrir þeim.

Í fyrsta lagi liggja þessar brtt. n. í því, að n. leggur til, að efninu sé öðruvísi raðað en gert var í frv., og tekur þetta alveg sérstaklega til fyrstu þriggja kafla frv. Þeir kaflar byrja hver um sig á því að tiltaka, að þetta eða hitt skuli ekki gert. Í stað þess telur n. eðlilegast, að byrjað sé á því að tiltaka það skipulag, sem er meginuppistaða hvers kafla, en á eftir komi svo ákvæði um ráðstafanir, sem þeim aðilum er ætlað að gera, sem hafa með höndum framkvæmd þessara mála samkv. frv. eða öðrum l. Þetta telur n. nú, að fari að öllu leyti betur.

Þá er annað atriði, sem hefur líka haft í för með sér miklar brtt. N. leggur til, að hreppabúnaðarfélögum og búnaðarsamböndum sé heimilað að taka búfjárræktina beinlinís á sína arma. Samkvæmt núgildandi l. er gert ráð fyrir, að til þess að verða þess stuðnings aðnjótandi, sem lög ákveða til búfjárræktarinnar, þurfi að stofna til þess sérstakan félagsskap í hverri sveit, nautgriparæktarfélög, hrossaræktarfélög, sauðfjárræktarfélög o.s.frv. N. telur, að þetta sé óeðlilegt og í raun og veru megi segja, að þetta hafi að ýmsu leyti fremur valdið kyrrstöðu í þessum greinum. Búnaðarfélögin, sem eru í hverri einustu sveit, hafa með þessum hætti orðið fyrst og fremst eða nær eingöngu jarðræktarfélög. Nú er það svo, að þar sem í búnaðarfélögunum er nær því hver einasti bóndi, þá væri eðlilegast, að búnaðarfélögin sem slík hefðu allar greinar búnaðarins með höndum, þar á meðal búfjárrækt. N. sá sér þó ekki fært og vildi ekki leggja til, að slík gagngerð breyt. væri gerð á frv., vegna þess að það mundi koma í bága við það skipulag, sem verið hefur, og valda glundroða. En n. leggur til, að þar, sem ekki eru til þau félög, sem ég nefndi áðan, þar sé búnaðarfélögunum heimilt að setja á hjá sér slíkt samstarf um ræktun bæði nautgripa, hrossa og kúa, eftir því sem ástæður eru til. Við lítum svo á, að þessi skipun sé að því leyti líklegri til góðs árangurs, sérstaklega í smærri hreppum og hreppabúnaðarfélögum, að í einum hreppi geti verið einn eða tveir áhugamenn, og það er oft svo, að þar eru einn eða tveir áhugasamir menn um þessa hluti, en það sé kannske ekki heill hópur af mönnum, sem séu reiðubúnir til að taka að sér forgöngu í þessum efnum. En allt þetta byggist fyrst og fremst á áhuga manna. Í minni félögum eru því miklu meiri líkur til þess með þessari skipun, sem við í n. leggjum til, að hægt væri að njóta krafta áhugamanna en að öðrum kosti. Og meiri möguleikar eru á því, ef þessi skipun kemst á, fyrir búnaðarfélög fleiri saman en fyrir hvert einstakt félag að hafa mann og launa honum eitthvað fyrir starf sitt. Þetta eru höfuðástæðurnar fyrir því, að við leggjum til, að búnaðarfélögunum verði veitt heimild til að taka upp slíka starfsemi, þar sem sérstök búfjárræktarfélög eru ekki fyrir. En búfjárræktarfélögin, nautgripa-, hrossa- og sauðfjárræktarfélögin, eru í sínum fulla rétti eftir sem áður. — En af þessu leiðir þá líka talsverðar breyt., vegna þess að það er gert ráð fyrir því, að búnaðarsamböndin geti á sama hátt og var í frv. ráðið sér búfjárræktarráðunaut, sem sé leiðbeinandi. Í búnaðarfélagsskap okkar er í raun og veru komið á falsvert fast kerfi, þar sem eru fyrst búnaðarfélögin, svo búnaðarsamböndin, sem búnaðarfélögin eru í, og svo er Búnaðarfélag Íslands, sem sameinar alla þessa aðila. En viðkomandi þessu kerfi, þá standa búfjárræktarfélögin í raun og veru utan við og falla í raun og veru hvergi inn í þetta kerfi. Og reyndin hefur orðið sú, að eftirlit með þeim hefur orðið að koma frá Búnaðarfélagi Íslands. Þau falla ekki öðruvísi inn í þetta kerfi.

Þá er það þriðja, sem veldur því, að við gerum till. til breyt. á frv., — það, að með þessu frv. er gert ráð fyrir — sem ég býst við, að sé að sumu leyti óviljandi —, að niður falli ákvæði, sem n. telur, að ekki geti komið til mála, að falli niður og að megi ekki falla niður. Ég get t.d. bent á kaflann um forðagæzlu, þar sem eru felld niður alveg þau ákvæði, sem eru í gildandi l. um viðurlög og ráðstafanir gagnvart þeim mönnum, sem þrátt fyrir það, að forðagæzlumenn eða stjórnir fóðurbirgðafélags býður fóðurbæti og yfirleitt býður fram allt, sem þeir þurfa til þess að vera tryggir með að hafa nægilegt fóður fyrir skepnur sínar, samt sem áður af einhverjum ástæðum vilja ekki notfæra sér þetta og hirða ekki um, þótt skepnur þeirra jafnvel líði fyrir þær sakir. Eins og frá frv. var gengið, þá voru í því engin ákvæði til, sem heimiluðu, að gerðar væru sérstakar ráðstafanir gagnvart þessum mönnum, sem voru þó í eldri lögum. Og þess vegna hefur n. lagt til, að slík ákvæði verði tekin upp í frv. Svo er það og með nokkur fleiri ákvæði.

Þá er í fjórða lagi samkv. brtt. n. hert á nokkrum ákvæðum, sem hafa verið sett inn fyrir varúðar sakir og af öryggis ástæðum, og á ég þar sérstaklega við kaflann um blöndun útlendra kynja við íslenzk búfjárkyn. Þar þótti n. allt of lauslega á tekið, þannig að eins og frá frv. var gengið, þá hefðu í raun og veru þau ákvæði, sem þar voru um þetta sett, orðið ákaflega gagnslítil. Taldi n. því nauðsynlegt að herða á þessum ákvæðum og gera þau að öllu leyti ákveðnari. Svo var það og á fleiri stöðum.

Þá hefur n. fært niður allmargar upphæðir, sérstaklega upphæðir, sem nálega eingöngu snerta verðlaun á sýningum, og þetta stafar af því, að í frv., sem lagt var fyrir, höfðu verðlaunaupphæðirnar verið hækkaðar nokkuð, en þess ekki gætt, að jafnhliða var svo ákveðið, að vísitala skyldi greidd á þessar upphæðir. Nú var það svo, að eftir núgildandi l. hafa verið greiddar vísitöluuppbætur á allar greiðslur nema þessar verðlaunaveitingar. Og þessar upphæðir hafa yfirleitt verið látnar halda sér í frv. En n. taldi þess vegna óeðlilegt að gera hvort tveggja í senn, að hækka verðlaunin og leggja svo vísitöluuppbót þar ofan á. Hún skoðaði það hlutverk sitt að færa þetta til samræmis, eftir því sem auðið væri, og ganga þá út frá því, að greidd væri vísitöluuppbót á allar greiðslur, þannig að miða ætti grunngreiðslurnar við það. Jafnframt hefur n. reynt að samræma upphæðirnar innbyrðis þannig, að hlutföllin á milli þessara verðlaunagreiðslna, sem þarna eru áætlaðar, væru þannig, að þær væru í samræmi hver við aðra og í samræmi við verðgildi búpeningsins og annað þess háttar.

Loks hefur n. gert till. um orðabreyt., fært til betra máls, og á a.m.k. einum stað valið annað orð, sem henni þótti fallegra. Ætla ég ekki að ræða um það frekar.

Loks felldi n. niður ákvæði, sem hún taldi ekki alls kostar tímabært a.m.k. Hún felldi niður, að lagður væri sérstakur skattur á öll hross í landinn, en tók í þess stað upp framlög frá héruðum til hrossasýninga, eins og verið hefur undanfarið. Jafnframt felldi n. niður ákvæðið um tamningastöð á Hvanneyri, sem hefði samkvæmt frv. kostað eitthvað nálægt 36 þús. kr. N. varð sammála um, að eins og nú standa sakir væri ekki ástæða til þess að taka þetta upp, og leggur því til, að það ákvæði falli niður. Hún taldi, að þessi stöð mundi ekki verða að því gagni, sem þyrfti að vera.

Að endingu skal ég taka það fram, að allar þessar breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., hefur n. gert með samstarfi við þá starfsmenn Búnaðarfélags Íslands, sem hafa aðallega með framkvæmd þessara mála að gera. Og ég veit ekki annað en að þeir séu þessum breyt. samþykkir. — Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta. Ég hef gert grein fyrir því í aðalatriðum, í hverju brtt. n. eru fólgnar, en sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir hverri einstakri brtt. n., enda fáir viðstaddir til að hlýða á það, og væri það í raun og veru ekki til annars en að þreyta mig og skrifara að fara að gera slíka grg.