15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

145. mál, hvalveiðar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta mál allrækilega. Henni þótti rétt að leita um það umsagnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, af því að hér er um atvinnuréttindi til handa útlendum sjómönnum að ræða. N. hafði þó ekki borizt svar frá þessum aðila, er hún gaf út álit sitt 10. þ. m., en rétt í þessu var að berast svar frá þessari stofnun, en samkvæmt því svari virðist gengið fram hjá því atriði, sem um var spurt sérstaklega, hvort veita skuli undanþáguna til hinna erlendu skipa, og hefur sambandið snúið sér að öðru. Það er sú hætta, sem það telur, að síldveiðunum í Hvalfirði stafi af hvalveiðum þar, og vill ekki að það leyfi, sem um ræðir í frv., sé veitt, nema öruggt sé, að síldveiðarnar skaðist ekki af hvalveiðunum.

Út af þessu atriði, hvort nokkur líkindi væru til, — að úrgangsvatn, límvatn og blóðvatn og feiti kæmu til með að hafa nokkur spillandi áhrif á síldargöngurnar í Hvalfirði, sem hafa verið mikil tekjulind undanfarin tvö ár, þá þótti n. rétt að senda þetta mál til umsagnar atvinnudeildar háskólans og Landssambands íslenzkra útvegsmanna, til að fá umsögn þeirra aðila um þetta atriði sérstaklega. Að vísu fer frv. ekki inn á það, hvort hvalvinnsla skuli leyfð, heldur aðeins inn á réttindi þriggja erlendra skipa til veiðanna, en þó er það svo, að ef frv. þetta væri fellt, þá mundi það koma í veg fyrir alla hvalvinnslu. og er þetta því í beinu sambandi hvað við annað. Svör bárust frá báðum þessum aðilum, og eru öll svörin prentuð hér sem fylgiskjöl á þskj. 469. Þessi svör hníga öll að því, að á því muni engin hætta vera, að blóðvatn og límvatn hafi alvarlegar afleiðingar fyrir síldargöngur í fjörðinn, enda er hægt að hreinsa það í rotþróm, áður en það rennur í sjóinn. Hins vegar bendir atvinnudeildin svo á, að þó að límvatnið fæli síldina ekki frá beinlínis, þá geti það stuðlað að því óbeinlínis með því að auka e.t.v. plöntugróður í sjónum, og sá gróður hafi skaðleg áhrif á síldargöngur. Þó muni hér engin hætta á ferðum, þar sem um vetrarsíldarvertíð sé að ræða, en þá er svo lítill plöntugráður í hafinu, að engin hætta stafar af honum.

Eftir að n. hefur athugað þetta mál og leitað um það álits áðurgreindra stofnana, þá er hún því samþykk, að frv. verði samþ., um leið og hún leggur megináherzlu á, að gengið verði svo frá verksmiðjunni, að allt límvatn verði látið fara gegnum rotþrær eða síast í gegnum jarðveg, áður en það rennur í sjóinn, svo að engin hætta sé á, að nokkur lífræn efni séu í því, er það kemur til sjávar. Á því eru engin tæknileg vandkvæði, sbr. það, að oft er óheilbrigt vatn síað þannig, að það verður hæft til drykkjar. Og í trausti þess, að þannig verði um hnútana búið, sem ég hef lýst, leggur n. til, að frv. verði samþ. óbreytt, og er enginn ágreiningur um þetta í n.