28.10.1947
Efri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. er öllum hv. þdm. kunnugt. Frv. samhljóða þessu var flutt á síðasta þingi hér í d. og var afgr. hér með meginþorra atkv. og síðan vísað til Nd., og þar var því vísað til n., en þá var áliðið þings, og náði frv. ekki fram að ganga, og kom það aldrei frá landbn. í Nd.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, er frv. óbreytt frá því, sem það var í fyrra. Hins vegar má geta þess, að á stéttarþingi bænda í sumar var samþ. með shlj. atkv. — mér er sagt af fundarstjóra, að það hafi verið með öllum shlj. atkv. — áskorun til Alþ. að samþykkja þetta frv. eins og það lá fyrir í fyrra. Það hafa komið upp einstaka raddir um það, - ég hef heyrt það utan að mér, — að breyt. væri gerð á frv., kannske að hafa hlutfallið öðruvísi, kannske ekki nema 1/3 til bændasamtakanna, en ég geri ráð fyrir, að það verði athugað í n., þegar frv. kemur til hennar.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta, en legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og landbn.