15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. — Þótt hv. 2. þm. S.–M. (LJós) hafi látið móðan mása í rúmlega 2 klukkustundir, er það furðu lítið í ræðu hans, sem ég sé ástæðu til að minnast á. Allur fyrri hluti ræðu hans var harmagrátur yfir því, hvað hæstv. utanrrh. (BBen) hefði verið vanþakklátur í hans garð fyrir það góða starf, sem hann innti af höndum. Ég skal ekki lá hv. Þm. S.M., þótt hann tæki sárt sú hirting, sem hann hefur fengið hjá hæstv. utanrrh. (BBen) og á sjálfsagt eftir að fá, áður en lýkur. En eitt er víst, að einkennilegri samningamann fannst meðsamningsmönnum hans þeir ekki hafa haft með að gera. Hann gerði aldrei athugasemd út af neinu, sem fram fór í samningunum, en þegar komið var að lokum og hann hafði fengið að heyra hljóð að heiman, tilkynnti hann form. n„ að hann væri á móti samningunum. Samstarfsmenn hans undraði þessi framkoma, og var það ekkert undarlegt.

Að svo miklu leyti sem þessi hv. þm. sneri sér að því frv., sem fyrir liggur, byrjaði hann á að segja, að það væri ógnarlítið, sem þetta frv. hefði inni að halda. Þetta var fyrsta staðhæfing hans. Svo hélt hann áfram. Þá var þetta frv. orðið svo fullt af skaðsemi, að hans mörgu orð fengu því ekki lýst. Fyrst er frv. ekki neitt, en svo er það fullt af skaðsamlegum hlutum, sem þörf er á að andæfa og þörf á að landslýður risi gegn og mótmæli. Þannig hagaði hann ræðu sinni, eftir að hann var búinn að lýsa því í upphafi, hvað frv. væri lítið og ómerkilegt. Þarna er málaflutningi kommúnista rétt lýst.

Þessi þm. hefur það eftir mér, að þungamiðjan í frv. stjórnarinnar sé kaflinn um vísitöluna og fleira í því sambandi. Það er rétt, að því leyti, sem það á að leysa og vera stöðvun á dýrtíðarskrúfunni og tilraun til að snúa aftur þeirri skrúfu, sem um mörg ár hefur háð öllum atvinnurekstri landsmanna. En hvað leggur þessi hv. þm. til, að vísitalan sé, í grg. frv., sem hann flutti með tveim flokksbræðrum sínum og ég skal nú lesa hér úr, með leyfi hæstv. forseta? Þar segir:

„En til þess að tryggja sem bezt öryggi í atvinnulífi þjóðarinnar, er eigi síður nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að halda vísitölunni stöðugri og láta hana ekki fara, svo nokkru nemi, yfir 300 stig, eins og nú standa sakir.“

Þetta fannst hv. flm. frv. á þskj. 130 vera þungamiðjan og lögðu á það aðaláherzluna í grg.

Það er rétt, að þetta er talsvert þýðingarmikið í dýrtíðarmálinu, en þó að þetta sé viðurkennt í grg., er ekki, eins og ég hef bent á, dregin rökrétt ályktun af þessu í frv. eða gerð nokkur tilraun til þess að tryggja það, sem talað er um í grg., að þyrfti að tryggja, en þetta er sú venjulega meðferð þessara manna á málefnum yfirleitt.

Svo hefur hv. 2. þm. S.–M líka sagt annað, en það er fyrir nokkrum tíma síðan, þegar hann var í nefnd meðal útgerðarmanna í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna ásamt þeim Finnboga í Gerðum, Elíasi í Keflavík og fleirum. Þá skrifar hann undir nál., dagsett 11. nóv. 1946, fyrir rúmu ári síðan, þar sem segir: „Enda sé þá tryggt, að ekki eigi sér stað á árinu verulegar breytingar á framleiðslukostnaði, þ.e.a.s. að grunnkaup og vísitala hækki að minnsta kosti ekki.“ Að minnsta kosti ekki. Takið eftir. Það er látið skína í það hjá þessum hv. þm. fyrir ári síðan, að það gæti verið ástæða til að lækka. (LJós: Ég hef aldrei verið í þessari n. og aldrei skrifað undir neitt.) Það er alveg rétt eftir þessum hv. þm. að neita þessu, en ég hef ekki neina ástæðu til að ætla, að ég hafi neitt falsplagg í höndunum frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. (LJós: Ég skal upplýsa þetta.) Það veitir ekki af að upplýsa, þar sem það er allt annar Lúðvík Jósefsson, sem kemur fram hjá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna en á Alþingi Íslendinga. Það er ekkert óvenjulegt um hann og hans félaga.

Sömuleiðis var þessi hv. þm. að lýsa vanþóknun sinni á 22. gr. frv. stjórnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að binda sölu útflutningsvara. En í þessu sama skjali stendur, með leyfi forseta: „Sölu afurðanna sé hagað þannig, að þær framleiðsluvörur vorar, sem eru mest eftirsóttar, svo sem síldarlýsið, þorskalýsið og saltsíldin, verði að mestu leyti seldar til þeirra þjóða, sem einnig kaupa þær afurðir, sem minna eru eftirsóttar.“ Þar er þessi hv. þm. einnig á þeirri skoðun, að það beri að binda alla sölu á slíkum eftirsóttum vörum á erlendum markaði, en þegar á að gefa heimild til þess fyrir stjórnina, þá er risið upp á þingi og mótmælt því, sem þessi hv. þm. fyrir ári síðan mælti með á öðrum vettvangi. Þetta er táknrænt dæmi um afstöðu þessara manna, ósamræmi, sem hvað eftir annað kemur fram hjá honum og hans félögum, að fara eftir því, að tímarnir kunna að breytast, eftir því, hvort þeir eru í stjórnarandstöðu eða þeir styðja stjórnina. Það markar alveg skýrt afstöðu þeirra til málanna.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um ræðu þessa hv. þm. Þetta er, eins og ég sagði áðan, nokkuð táknrænt um afstöðu hans til málanna, og má nokkuð af því marka, hversu alvarlega þurfi að taka slíkan mann, sem nú segir allt annað en hann sagði fyrir ári síðan, þegar hann ræddi við íslenzka útvegsmenn.

Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) lék í dag sína alþekktu lýðskrumsplötu, sem hann sífellt leikur hér á þingi. Fyrr í dag, áður en þetta mál kom hér til umr., hafði þessi þm. talað í klukkutíma um nákvæmlega það sama, sem hann talaði um í tvo klukkutíma í þessu máli. Þetta er mjög algengt fyrirbæri með þennan þm., að tala ýmist um ekki neitt eða þess á milli að tala fyrir þeim áróðri, sem íslenzkir kommúnistar reka nú: Það eru engin vandræði með íslenzkan atvinnurekstur. Framleiðslan getur gengið ágætlega, það er hægt að selja allar íslenzkar afurðir ágætu verði. Það er bara verið að búa til kreppu. Það þarf engar ráðstafanir að gera nema selja Rússum. En þegar þetta hafði gengið um nokkurt skeið, var breytt um, eftir að fulltrúar utan af landi komu hingað á þing kommúnista og höfðu þær sögur að segja, að fólkið úti á landinu liti svo á, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir, til þess að atvinnureksturinn stöðvaðist ekki fyrir verðbólguna. Þá var setzt á rökstólana. Þá var snúið við blaðinu og náði snúningur þeirra hámarki sínu í frv. því, sem kommúnistar hafa borið hér fram. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem þeir snúa við blaðinu, því að það er enginn flokkur, sem snýst jafnmikið frá sinni stefnu eins og kommúnistar. Jafntækifærissinnaðir menn og þeir eru ekki til. Það má segja, að þeir dansi Óla skans og það af svo mikilli leikni, að það þýðir ekki fyrir mig eða aðra að keppa við þá í þeirri list. Oft þegar þeir hafa verið að taka kollstökk sín hér á þinginu hefur mér dottið í hug, hve snilldarlega þetta væri sagt um þá.

Svo þegar búið var að bera fram frv., þá þurfti að finna það út, hvernig ætti að snúast á móti stjórninni. Það þurfti að vera tilbúið í allt. Skyldi það verða gengislækkun? Eða lækkun vísitölunnar? Við skulum vera til í allt. Við skulum skrifa á móti verðhjöðnun, ef þeim gæti nú dottið í hug að hafa verðhjöðnun. Það var skrifað á móti því. Þá gæti stjórninni dottið í hug gjaldeyrisskattur. Það varð að skrifa á móti því. Það er skrifað í Þjóðviljann eftir því, hvað hugmyndaflugið er mikið á hverjum tíma, til þess að rifja upp fyrir sér allar þær leiðir, sem hugsanlegt sé, að stjórnin kunni að fara, til þess að geta verið tilbúnir að vera á móti. Svo kom bara eitt lítið andvarp frá einu kommúnistablaði norðan úr landi, en þar segir: „Auðvitað er sá möguleiki enn fyrir hendi, að stjórnin láti undan vilja almennings og beri fram góðar till. eða máske þolanlegar.“ Þá var það líka hugsanlegt, og þá um að gera, ef till. yrðu þolanlegar, að gera þær tortryggilegar, áður en þær kæmu fram. Já, þeir eru fyrirhyggjumenn, íslenzkir kommúnistar. Þeir láta ekki standa upp á sig. Oft mistekst fyrir þeim, en það er virðingarvert, hvað þeir geta látið sér detta í hug.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að ég hefði lítið fengizt við verkalýðsmál og að ég mundi lítið þekkja til þeirra á móts við hann sjálfan. Ég skal viðurkenna, að ég hef ekki í mörg ár unnið þannig vinnu, að ég hafi verið í sérstöku fagfélagi, en það held ég, að hv. 2. þm. Reykv. hafi heldur ekki gert. En ég hef þó setið í 16 ár í stjórn Alþýðusambands Íslands, einmitt þegar baráttan var hvað hörðust og erfiðust fyrir það, hve verklýðssamtökin voru ung. Ég hef því sannarlega kynnzt baráttu íslenzkra alþýðusamtaka með 16 ára setu í stjórn þeirra. En ég efast um, að hv. 2. þm. Reykv. hafi kynnzt þessu sjálfur eða margir af hans félögum.

Ég man t. d. eftir því, að hv. 4. landsk. þm. (BrB) var eitt sinn í verkalýðsfélagi. Hann var einn af æðstu mönnum og áhrifaríkustu í verkalýðsfélagi í Reykjavík — og var rekinn þaðan fyrir óspektir á fundum í verkalýðsfélaginu Dagsbrún. Þannig var hans verkalýðsmálasaga. Það er von, að þeir félagar séu stoltir af sinni baráttu. Og ég verð líka að segja, að í raun og veru verður maður að tala um það með hryggð, að samtök íslenzka verkalýðsins hafa nú, vegna bolabragða kommúnista og þrátt fyrir það að þeir séu þar alls ekki í hreinum meiri hluta komizt undir stjórn þeirra. Þeir fengu að vísu í upphafi hlutlausan mann sem forseta Alþýðusambands Íslands, sem þá hafði undirbúið sig undir það starf að vera æðsti maður íslenzkra verkalýðssamtaka með því að ferðast út um landið og með því að stofna þar klofningssamtök gegn Alþýðusambandi Íslands. Það þótti góð og örugg reynsla til þess að gera hann að formanni Alþýðusambandsins. En það er áreiðanlegt, að íslenzku verkalýðssamtökin munu ekki lengi líða eða þola það, að fámenn klíka kommúnista beiti þau ofurvaldi, eins og verið hefur nú um tíma. Í sambandi við þær pólitísku vinnudeilur í sumar, sem hafnar voru fyrir atbeina og að fyrirskipun íslenzku kommúnistanna, má geta þess, að forsprakkar þeirra lýstu því yfir hér á Alþ., hvor í sinni deild, hv. 2. þm. Reykv. í Nd. og hv. 4. landsk. þm. í Ed., strax þegar tollafrv. komu fram á þinginu, að það mundu verða hafin verkföll gegn tollahækkuninni. Þeir reyndu svo að standa við þetta, og þeir gátu fengið einstök félög út í vinnudeilur þeim og þjóðfélaginu til lítillar ánægju. Það gekk þann veg, að stærsta verkalýðsfélagið á Siglufirði var pínt út í ólöglegt verkfall og beitt kúgunaraðferðum til þess að hindra, að félagsmenn segðu til um það, hvort þeir vildu ganga að ákveðnu sáttatilboði, sem umboðsmenn þeirra höfðu í raun og veru áður verið búnir að samþykkja, en þeir sviku að bera undir félagið. Og svo gekk það í þeirri vinnudeilu, að það varð af kommúnistum að semja af sérstökum félagsdómi. Og það þótti svo augsýnilegt, hvernig niðurstaðan mundi verða í þessari deilu, ef atkvgr. hefði farið fram, að eitt höfuðatriðið í skilyrðum kommúnista fyrir því, að félagsdómur skyldi ákveða um málið, var, að það gengi ekki um þetta atkvgr. — Og svo er járniðnaðarmannadeilan í ljósi frv. kommúnista og þeirra staðreynda, sem menn vita um. Í 7. gr. frv. þeirra kommúnistanna stendur m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. skal hlutast til um, að fyrir 1. janúar 1948 verði settar nýjar verðlagsreglur um alla vinnu vélsmiðja, báta- og skipasmiðastöðva og annarra, sem kunna að hafa með höndum viðgerðar- og viðhaldsstörf í þjónustu útgerðarinnar.“ Jú, jú, þetta átti svo sem að framkvæma, fyrst í lagaformi og væntanlega seinna á annan hátt. — Einn af æðstu trúnaðarmönnum kommúnistanna einmitt innan verkalýðssamtakana, fulltrúi Alþýðusambands Íslands í félagsdómi, málflutningsmaður Alþýðusambands Íslands og trúnaðarmaður í þeim efnum, hann var fenginn til þess að athuga álagningarreglur vélsmiðanna. Hver var niðurstaða þessa trúnaðarmanns Alþýðusambandsins? Hún var sú, að vélsmiðirnir þyrftu að fá að leggja meira og hærra á. Og á vottorði og álitsgerð þessa hæstaréttarlögmanns og löggilta endurskoðanda mun að verulegu leyti hafa verið byggð ákvörðun í þessu efni. — Það er þægilegt að koma fram á Alþ. með frv. um, að lækka skuli þessa álagningu, og láta svo einn af trúnaðarmönnum sama flokks, sem frv. flytur um þetta, gera álitsskjal um, að þessa álagningu þurfi að hækka. En þetta er einn þátturinn í starfi þessa flokks og mynd af starfsháttum hans.

Mig undrar, að hv. 2. þm. Reykv. skyldi hafa brjóstheilindi til þess að minnast á almannatrygging;arnar í sambandi við myndun ríkisstj. Ólafs Thors á sínum tíma og almannatryggingarnar yfirleitt. Á fyrri árum og fram til 1939–'40 var andúð íslenzkra kommúnista gegn alþýðutryggingunum, sem Alþfl. barðist fyrir, og í sambandi við myndun ríkisstj. Ólafs Thors mun ekki eitt einasta orð hafa komið frá íslenzkum kommúnistum út af samningu almannatryggingalagunna. En það var Alþfl., sem setti það að skilyrði fyrir stjórnarmyndun, að þau mál væru tekin föstum tökum og samin löggjöf um almannatryggingar. Og þegar að því var gengið og það fullkomlega haldið af fyrrv. hæstv. forsrh., Ólafi Thors, að semja þessa löggjöf, þá var það sannarlega ekki fyrir atbeina kommúnista eða áhuga þeirra í þeim málum. Og einmitt í sambandi við myndun ríkisstj. Ólafs Thors, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist nú á, eins og hann hefur oft gert í sambandi við mig, sagði hann, að ég hefði ekki verið þess sérlega fýsandi, að sú stjórn var mynduð. Og það var rétt. Ég bar í brjósti nokkurn geig í sambandi við þá stjórnarmyndun, og einmitt ekki hvað sízt af því, að þar átti í fyrsta sinn að gera það íslenzka ævintýri að hleypa kommúnistum inn í ríkisstj. Ég þóttist sjá það, að það gæti orðið dýrt ævintýri. Og það varð dýrt. En þó að það væri dýrt, þá hefur það að því leyti borgað sig, að ég hygg, að meginhluti þjóðarinnar verði þess ekki fýsandi hér eftir, að kommúnistar verði teknir inn í ríkisstjórnir, heldur fari það hér hjá okkur eins og þróunin hefur verið í Vestur-Evrópu, því að þar sem kommúnistar hafa verið í ríkisstj., bæði í Danmörku, Belgíu, Hollandi, Frakklandi og Ítalíu, þá eru þeir í öllum þessum löndum horfnir úr ríkisstj. aftur. Þjóðirnar, sem byggja þessi lönd, óska ekki eftir að hafa þá lengur í stjórn. Ætli reynslan hér á landi verði ekki lík eins og annars staðar í Vestur-Evrópu, að það verði ekki óskað eftir þeirra brautargengi við myndun ríkisstjórna á Íslandi? Ég fyrir mitt leyti vona, að svo verði, vegna heiðurs og heilla þjóðarinnar.

Þá endaði hv. 2. þm. Reykv. sína ræðu með sínum venjulega lýðskrumshætti um árásir á launastéttirnar, og í því sambandi fékk Alþfl., eins og gjarnan oft áður, orð í eyra. En ég fyrir mitt leyti er alveg óhræddur um þann dóm sögunnar, þegar borið verður saman, annars vegar afstaða og aðgerðir Alþfl. og hins vegar kommúnistanna gagnvart launastéttunum á Íslandi. Ég óttast ekki þann dóm, af því að ég þekki kommúnistana alveg prýðilega og þekki stefnu þeirra eða stefnuleysi — og ég þekki þeirra hugmyndakerfi talsvert mikið, og af því að mér er það alveg 3jóst, að það er í sjálfu sér algert aukaatriði frá sjónarmiði kommúnistanna, hvort launastéttirnar á þessu tímabili eða hinu bera meira eða minna úr býtum, það er aukaatriði í þeirra baráttu. Aðalatriðið í þeirra baráttu er það að vekja upp byltingarhug og andstöðu gegn ríkjandi þjóðskipulagi í hugum launastéttanna, til þess að meðlimir þeirra geti seinna orðið virkir þátttakendur í því að skapa það nýja ríki og taka að sér hlutverk hins volduga minni hluta til þess að skapa kommúnistaríki. Þannig hefur það verið og þannig er það í dag um kommúnistaflokka allra landa. Og jafnvel þeirra mestu og beztu fræðimenn hafa ekki farið dult með þessa kenningu. Þeir hafa sagt frá henni fyrr á tímum alveg hispurslaust og óhikað. Hins vegar þykir betur henta á vissum tímum að breiða yfir þessa kenningu og hafa hana ekki mikið í frammi. En kenning þessi er samgróin hugmyndakerfi kommúnismans, og hún hvarflar ekki frá honum, þó að hún stundum liggi í þagnargildi.

Alþfl. hefur hins vegar oft orðið að hafa það hlutverk með höndum að benda launastéttunum, alþýðustéttunum, á það, að það væri ekki fyrst og fremst þeirra hagur að hafa sem hæsta krónutölu í kaup, hvað sem öðru liði, heldur að þeirra aðalhagsmunamál lægi í því, að svo væri búið að atvinnuháttum í löndunum, að þeir, sem laun taka, mættu örugglega vænta þess að geta haft góða og örugga atvinnu, og að þeirra hagsmunir lægju í því enn fremur, að þjóðfélagsmálin væru ekki látin fara út á háskalegar brautir vegna dýrtíðar og verðbólgu. Þar í löndum, sem verkalýðsfélögin eru þroskuðust, er því þráfaldlega yfir lýst af þeirra hálfu, að þau hafi svo mikla þjóðfélagslega ábyrgð og þjóðfélagslegan skilning, að þau vilji fyrir sitt leyti ekki stuðla að því, að allt fari úr skorðum í þjóðfélagsmálunum vegna dýrtíðar og verðbólgu, og vilji þess vegna heldur halda kaupinu í lægri krónutölu en fara út í tvísýn ævintýri í sambandi við kaupgjaldshækkanir. ég veit líka, að verulegur hluti íslenzka verkalýðsins er svo þroskaður þrátt fyrir það ofurfarg, sem hvílir á Alþýðusambandi Íslands frá einum stjórnmálafl., að hann skilur það, að það er hans rétta hlutverk að vinna að því að öryggja atvinnureksturinn í landinu og að það sé bezt, einmitt vegna verkalýðsins sjálfs, að ekki verði farið út í hamslaust dýrtíðar- og verðbólguævintýri. — Þess vegna vil ég vænta þess, að dæmt verði um það með glöggum skilningi verulegs hluta verkalýðssamtakanna, hvað hér er á ferð. Það má að vísu vel svo fara, að kommúnistar geti æst upp verkalýðinn um stundarsakir út af þeim ráðstöfunum, sem hér á að gera. En ég trúi svo á dómgreind íslenzks verkalýðs, að ekki takist að villa honum svo sýn, að hinir einstöku menn innan verkalýðsins gerist böðlar sinnar eigin hamingju. Þess vegna vil ég mega vænta þess, að verkalýðssamtökin og verkalýðsstéttirnar hér á landi meti og skilji þær aðgerðir, sem hér er stefnt að til þess að reyna að tryggja atvinnureksturinn í landinu og sporna gegn atvinnuleysi, og að hróp kommúnista sitt á hvað gegn þessum aðgerðum verði að lokum að langmestu leyti töluð fyrir daufum eyrum.