15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 49, er nú ekki neitt nýtt mál hér á Alþ., því að eins og kunnugt er og frsm. meiri hl. veik að, þá er þetta mál búið að vera til umr. á allmörgum undanförnum þingum í ýmsum myndum. Það hefur af einstökum mönnum og einum flokki sérstaklega verið gert að stórpólitísku deilumáli á undanförnum árum, og kann að vera, að það þyki mjög í samræmi við ýmislegt annað, sem gerzt hefur á síðustu árum.

Saga þessa máls hefst á Alþ. 1943. Þá er hér til umr. frv. um orlofsl., sem gert var að lögum á því þingi. Samkvæmt þeim lögum er, eins og kunnugt er, ákveðið, að borga skuli 4% viðbót á allt kaupgjald og öll laun í landinu. Um þetta frv. urðu nokkrar deilur, sem ekki var mjög óeðlilegt, en í sambandi við það flutti formaður Framsfl., hv. þm. Str., og fleiri menn frv. um nokkurt framlag til kynnisferða bænda og fóru fram á, að ríkissjóður greiddi sem svaraði 10 kr. á hvern bónda í landinu, sem leggja skyldi í ferðasjóð og Búnaðarfélag Íslands ætti að skipta milli þeirra bænda, sem kynnu að vilja fara í skemmtiferðir. Þetta frv. var samþ. í hv. Ed. og kom hingað til Nd. í þessari mynd. Við, sem þá vorum í landbn. þessarar hv. d., tókum það til athugunar og þótti heldur lítilfjörlegar till., sem þarna var komið með, samanborið við þan stórkostlegu framlög, sem jafnframt voru lögfest fyrir allar launastéttir landsins. Upp úr þessu varð svo samkomulag um það í landbn. að leggja til, að lagt væri 1/2% gjald á heildsöluverð landbúnaðarafurða og af því stofnaður ferðasjóður fyrir sveitafólk og borgað úr honum til þeirra bænda, sem færu hópferðir til skemmtunar í önnur héruð, og jafnframt gefin heimild til að borga nokkurt fé úr þessum sjóði til þess að veita vinnuaðstoð fátækum einyrkjum, sem ekki gætu komizt heiman að. Í þessari mynd var þetta frv. samþ. hér í Nd. En þegar til Ed. kom, urðu um það harðar deilur og talað um, að þarna væri um nýtt mál að ræða og óhæfilegt að fara að skattleggja vörur bænda til þess að stofna handa þeim ferðasjóð í eins stórum stíl og þarna væri lagt til, enda varð sú raunin á, að í hv. Ed. var þessu frv. vísað frá með rökst. dagskrá, og síðan hafa ekki komið till. um að stofna neinn slíkan ferðasjóð fyrir sveitafólkið. Það var talið sjálfsagt af þeim, sem komu þessu fyrir kattarnef, að hafa einkarétt fyrir þá, sem taka laun hjá öðrum og hafa fjármagn til slíkra ferðalaga, sem almennt eru kallaðar skemmtiferðir. Búnaðarþing, sem kom saman næst á eftir, tók upp þessa hugmynd að leggja 1/2% gjald á afurðir landbúnaðarins, en það mátti ekki fara í ferðasjóð, eins og Nd. hafði lagt til, heldur urðu um það margvíslegar þráttanir á búnaðarþingi, hvort þetta skyldi heldur fara í það að styðja að félagslegum framkvæmdum búnaðarsambanda landsins eða það ætti að fara til þess að stofna nýtt landssamband bænda, því að það gamla var þá annaðhvort alveg dautt eða í andarslitrunum. Eftir langar þráttanir varð ofan á í búnaðarþingi, að hin síðari leið yrði tekin og fellt með öllu að láta 1/2 % af þessu fé renna til framkvæmda í búnaðarsamböndum landsins. Þannig var það svo flutt hér á Alþ. 1944 og varð að lögum, en í sambandi við þau urðu allharðar deilur um það, að sett hafði verið inn í þessi l. ákvæði um það, að á hverjum tíma skyldi landbrh. samþykkja úthlutun úr þessum sjóði. Í tilefni af þessu voru, eins og margir alþm. muna, hafnar stórdeilur á þáv. hæstv. landbrh. og alla þáv. ríkisstj., að hér væri verið að setja bændastéttina undir óeðlileg yfirráð, með því að það skyldi vera háð samþykki landbrh., hvernig skyldi úthluta þessu fé. Að þessum árásum, sem hafnar voru um allt land, stóðu allir þáverandi stjórnarandstæðingar, sem voru fyrst og fremst Framsfl. og þeir menn í Sjálfstfl., sem voru andstæðingar þeirrar ríkisstj., og átti þetta að vera ein af hennar helztu syndum að hafa samþykkt þetta tiltölulega litla og. að því er manni virtist, meinlausa ákvæði í sambandi við þessi l. Auðséð var, að þetta átti að vera eitt af helztu kosningamálum þessara manna, sem hlut áttu að máli.

Á Alþ. um haustið 1945 var svo af sömu mönnum borið fram frv. um að fella úr l. þetta ákvæði, sem deilur höfðu staðið harðastar um, en þá var komið í ljós, að mjög mikill ágreiningur var meðal bændastéttarinnar um það, hvort heppilegra væri að verja þessu fé heima í búnaðarsamböndum landsins, til nauðsynlegra framkvæmda þar, eða hitt, að nota það til sambands, sem þá var óstofnað, og að öðru leyti til hótelbyggingar hér í Rvík, sem raunar sveif í lausu lofti, vegna þess hvað þar var um stóra hugmynd og áætlun að ræða, því að vitanlega hefði slíkt hótel kostað margar milljónir króna. Út af þessu skeði svo það, að við, sem nú erum í minni hl. landbn., fluttum till. um það, að þessum I. skyldi breytt, til þess að losa þá, sem deilurnar höfðu hafið, undan því, sem þeir töldu fargan og yfirgang af hálfu stjórnarvaldanna, að landbrh. mætti hafa með höndum úthlutun á þessu fé, og lögðum til, að því yrði skipt upp til búnaðarsambandanna í þeim sömu hlutföllum og tekjur kæmu inn á hverju búnaðarsambandssvæði. Þessi breyt. náði samþykki, eins og kunnugt er, og í þeirri mynd eru lögin enn. En það hefur verið haldið uppi þrálátum árásum — í sambandi við kosningarnar 1946 og í rauninni alltaf síðan — út af því, að þarna hafi verið farið inn á einhverja óeðlilega og óhæfilega leið að skipta þessu fé, sem er nú ekki mikil upphæð, milli búnaðarsambandanna og gefa þeim tækifæri til þess að hafa fleiri framkvæmdir með höndum en áður hefur verið. Í þessu sambandi er ástæða til að minnast á það, að alla þá götu síðan búnaðarsamböndin hafa verið til í þessu landi, hafa þau verið í mjög mikilli fjárþröng. Þau hafa ekki haft neinn styrk, nema lítilfjörlegan styrk frá Búnaðarfélagi Íslands. M.a. þeirra hluta vegna eru íslenzkar sveitir aftur úr með framkvæmdir, ekki aðeins félagslegar framkvæmdir, heldur einnig heimilislegar.

Við, sem lengi höfum verið starfandi í búnaðarfélögum landsins, höfum oft fundið sárt til þess, hve illt er að hafa ekki yfir neinu fé að ráða, og við fundum allir, hversu brýn nauðsyn var á að bæta úr þessu, og þess vegna var farið inn á þá braut að taka prósentugjald af landbúnaðarafurðum. Nú er það vitað, að andstæðingar frv. vildu, að fé það, sem búnaðarmálasjóði áskotnaðist, yrði aldrei greitt til Búnaðarsambandanna, og óskuðu þeir, að það yrði ekki gert, nema til Búnaðarsambands Suðurlands, og herjaði það út 60 þús. kr., sem það þó að vísu hafði lagalegan rétt til.

Sumum þótti heppilegra, að komið væri í veg fyrir, að l. um búnaðarmálasjóð væru framkvæmd eins og þau voru sett 1946, og 1947 var reynt að breyta þeim og frv. flutt í því skyni. en það mistókst og var frv. vísað frá með rökst. dagskrá. Í vetur kom svo fram í Ed. frv. það, sem hér liggur fyrir, og fór það í gegnum Ed.

Hv. frsm. landbn. gat þess, að n. hefði leitað álits og umsagnar allra. búnaðarsambanda landsins um málið, svo að ljóst væri, hver væri vilji þeirra um afgreiðslu þess, áður en n. gengi frá till. sínum. Nú hafa n. borizt svör frá öllum búnaðarsamböndunum, 14 að tölu, og hafa þau öll lýst sig fylgjandi frv. 3 stjórnarnefndarmenn, hver í sínu sambandi, hafa þó lýst andstöðu sinni við frv. — Það er ekki svo undarlegt, þó að búnaðarsamböndin hafi snúizt þannig við þessu, þar sem þau hafa hingað til verið svikin um greiðslu á fé til sjóðsins, svo sem þeim ber samkvæmt lögum, og halda þau sýnilega, að það eigi nú að halda áfram, ef samkomulag næst ekki, og þess vegna sé þó betra að fá helming fjárins með skilum en eiga von á framhaldandi óskilum frá hálfu þess opinbera í þessum efnum.

Annars er innheimta fjárins öll í vafasömu horfi. Ég hef að vísu fengið skýrslu um hana hjá Búnaðarbankanum, og liggur hún fyrir á þskj. 505 og sýnir, hversu mikið er búið að innheimta fyrir árið 1946, en síðar munum við reyna að fá vitneskju um, hve mikið búið er að innheimta fyrir árið 1947.

Þegar litið er á skýrsluna á þskj. 505, er það auðsætt, að ekki er innheimtan eins í öllum fjórðungunum, og tekur sig sérstaklega út, hvað lítið hefur komið inn hjá sumum samböndunum. Mér er kunnugt um, að sumir hafa farið með gjald þetta eins og gjaldið í fjárpestarmálunum. Gerðar hafa verið athugasemdir við innheimtuna á sumum stöðunum, en engin leiðrétting hefur fengizt á henni.

Nú er það svo, að stéttarsamband bænda er í rauninni þannig byggt, að búnaðarsamböndin eru deildir í því, og það að ætla að láta Alþ. skipta fénu með lögum milli deildanna og heildarinnar, finnst mér allsendis óþörf ráðstöfun, því að eftir þeim undirtektum, sem mál þetta hefur fengið, þá er það vitað mál, að búnaðarsamböndin eru fús til að taka að sér innheimtu og greiðslu á því fé, sem þau telja nauðsynlegt fyrir starfsemi stéttarsambands bænda. Það er því eðlilegast, að tekjur búnaðarmálasjóðs gangi óskiptar til búnaðarsambandanna, en síðar verði svo ákveðið, hvað mikið fé skuli lagt til stéttarsambandsins.

Samkvæmt lögunum, eins og þau eru nú, er það lagt undir stjórn Búnaðarfélags Íslands að skipta fénu á milli sambandanna, eftir þeim ákveðnu og föstu reglum, að hvert samband fái það fé, sem innheimt er á svæði þess. Þetta eðlilega og rétta form ætti að vera hvatning til forráðamanna hvers sambands að koma betri skipan á innheimtuna en hingað til hefur verið. En það, sem farið er fram á með frv. og er megintilgangur þess, er, að þau búnaðarsambönd, sem meiri framleiðslu hafa, t.d. Búnaðarsamband Suðurlands og Búnaðarsamband Eyjafjarðar, borgi nokkurs konar skatt til hinna sambandanna, sem verr eru sett að þessu leyti. Þó að nokkur þörf sé á þessu fyrir smærri búnaðarsamböndin, þá finnst mér ekki sanngjarnt, að eitt eða tvö búnaðarsambönd séu skattlögð á þennan hátt til þess að styrkja hin smærri, því að sá styrkur á að koma í gegnum Búnaðarfélag Íslands eða ríkissjóð, en ekki á þennan hátt.

Það eru ýmsir, og þar á meðal margir í mínu héraði, sem vildu, að þessi l. yrðu algerlega úr gildi numin, því að það er ekki sanngjarnt að leggja slíkt gjald á afurðir bænda, því að það fer eftir því, hversu mikil framleiðslan er, en að öðru leyti ekki eftir efnahagnum. Menn ættu að vera þess minnugir, að ekki er langt síðan halli var á öllum rekstri, bæði landbúnaði og sjávarútvegi, og við getum búizt við, að þeir tímar komi enn, og þá verður þess meiri halli, sem framleiðslan verður meiri, og gjarnan hafa það verið skuldugustu mennirnir, sem í mest hafa ráðizt.

Ég skal svo ekki að sinni fara fleiri orðum um þetta, en vil ítreka það, að við í minni hl. n. leggjum áherzlu á, að dagskrá okkar verði samþ., því að okkur er það ljóst, að engin trygging er fyrir því, að nokkru réttlátari skipting fáist milli þessara félagssamtaka, sem hlut eiga að máli, með því að fara að lögbjóða það, því að eðlilegt er, að þegar um er að ræða samtök slík sem samtök bænda, þá séu þau frjáls með að ákveða tillögin, og engin ástæða er til að ætla annað en að bændur muni fúsir að leggja stéttarsamtökum bænda fé, ef þeir finna, að gagn er að þeim félagsskap. — Ég skal svo ekki fara inn á, hvernig sá félagskapur hefur verið rekinn, en legg áherzlu á, að málið verði afgreitt eins og við í minni hl. n. leggjum til, enda er það í samræmi við það, sem áður var. Ég hygg, að það sé hinn mesti óþarfi að vera að hafa þetta mál sem stórdeilumál ár eftir ár.