15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst láta ánægju mína í ljós yfir því, að hæstv. aðalforseti hefur gert eitt af þeim fáu góðverkum, sem honum hefur auðnazt að gera, að hverfa af fundi, svo að hæfari maður geti setzt í forsetastól. Það er sérstök ánægja fyrir þá, sem vilja, að málið sé rætt alvarlega, að hér er staddur einn af þeim, er framarlega stóðu að þessu ranglæti, þar sem það er svo með hæstv. landbrh., sem mikið hefur haft með málið að gera, og hv. 2. þm. Skagf., að annar er farinn í rúmið, en hinn er geymdur í herbergi skammt hér frá. Það er ávinningur, að hér er einn greinagóður maður í forsetastóli, sem getur borið þeim óminn af umr.

Hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. A-Húnv. eru að vísu sammála í þessu máli. Báðir hafa, sem von er, ekki mikla aðdáun á meðferð búnaðarfélagsmanna á þessu máli. En það er bezt, að rétt sé rétt. Það er ekki hægt að gera neinn mun á Sjálfstfl. og Framsfl. í þessu máli. Synd þeirra er jafnmikil. Þó að hv. 2. þm. Rang. hafi tilfært dæmi um ábyrgð hv. þm. Str. í sambandi við 10 kr. frv., þá hygg ég, að hv. þm. Str. hafi flutt það upp á eigin ábyrgð og ekki haft flokkssamþykkt bak við sig. Ég met þetta því sem einstaklingssynd og hygg, að það finnist hliðstæðar misfellur hjá Sjálfstfl., ef leitað er. Ef þessi hv. þm. vill athuga upptök þessa máls 1944, þá mun hann sjá, að flokkarnir voru svo hliðsettir, að ekki má upp á milli þeirra gera. Á búnaðarþingi var líka bezta samkomulag. Ef nokkuð hefur hallað á Framsfl., þá var það það, að hann léði tvær stofur til þessara aðgerða, hv. þm. N-M. heima hjá sér, en hæstv. núverandi forseti skaut skjólhúsi yfir leiðtoga Sjálfstfl. í búnaðarfélagshúsinu. Þetta er eina syndin. Ef til eru málsbætur, koma þær væntanlega fram.

Leiðtogar Sjálfstfl. unnu sigur við stjórnarmyndunina árið 1944, en bændur í báðum flokkum gáfu eftir fyrir sitt leyti. Það er rétt að þakka það kommúnistum og sniðugheitum þeirra, að þannig var leikið á bændafulltrúana, því að það, sem þeir vildu, var að komast í stj., án þess að til þess þyrfti að færa fórnir til bænda í sveitum landsins. Því meiri sorg er það fyrir búnaðarmálastjóra, að málið skyldi eyðileggjast síðar á þennan hátt. En við það varð að sitja. Og þegar þetta var fram gengið, þá brá þeim í brún bændunum, sem verið höfðu á búnaðarþingi og vonuðu, að dýrtíðin lækkaði, en hún þvert á móti hækkaði þeim til skapraunar.

Þetta óhapp bændastéttarinnar, að vera þannig blekkt, var byrjun að óheppilegri aðstöðu. Herforingi, sem beðið hefur ósigur, fær ótrú á sjálfum sér. Það var litið svo á, að 6 manna álitið væri sigur fyrir bændastéttina og ekki á neinum svikum eða undirferli byggt. Eins og kunnugt er, sögðu Morgunblaðið og Tíminn, að nú hefðu bændur á föstu að byggja, búið væri að gera löglegan samning og vörurnar mundu hækka af sjálfu sér. Þessi aðstaða glataðist með eftirgjöfinni, og hefur ekki lagazt síðan. Alltaf síðan hefur verið leikíð á bændur og þeir beðið hvern ósigurinn af öðrum.

Þegar stj. var mynduð árið 1944 og kommúnistar komnir í stólana, gerði ég ráð fyrir því, að formaður Framsfl. bæri fram vantraust á stj. Það var sérstök ástæða til þess að ætla það, því að hann hafði sagt, að hv. þm. G–K. væri óheppilegur maður, þm. og ráðh. Það er venja að prófa, hvort stj. nýtur trausts, og hér var nauðsyn að gera það, bæði fyrir formann Framsfl. og flokkinn allan. Ég beið til þess að sjá, hver alvara væri bak við hin stóru orð, en þegar engin vantrauststill. kom, þótti mér rétt að prófa sjálfur, hvernig aðstaða stj. væri. Það var sérstök ástæða til þess, þar sem kommúnistar höfðu komizt inn í stj. með klíkustarfsemi og bragðvísi. Þegar ég bar fram vantraustið, byggði ég það líka á því, að kommúnistar væru ekki á sömu línu og annað fólk, og hvað sem væri um hina ráðh., væri því ekki annað hægt en að lýsa vantrausti á stj. Nú skyldi maður halda það, að hv. þm. Str. fagnaði þessu, þótt hann kannske væri eitthvað feiminn út af fyrri vináttusamböndum sínum við kommúnista, en allur Framsfl. sat hjá við atkvgr. þrátt fyrir óvildina á hv. þm. G-K. og sýndi þannig kommúnistum traust.

Nú fer Framsfl. háðulegum orðum um kommúnista í blaði sínu, en þeir eru ekkert verri nú en þeir voru þá, því að þeir hafa ekkert breytzt. Hitt réð mestu, að leiðtogar Framsfl. höfðu ekki þrek og kjark til þess að beita sér á móti þeim, enda vonuðust þeir eftir því að hafa af þeim fagnað síðar. Fimm þm. úr Sjálfstfl. sátu hjá, og það var meiri dyggð af þeirra hálfu. En þessi hjáseta var eina lífsmarkið, sem kom fram um það, hvernig leikið hafði verið á bændastéttina. Þótt endasleppt yrði um suma af þessum mönnum, var þetta þó spor í áttina.

Í kvöld kemur það fram, að þetta allt er að bera ávöxt. Þeir menn, sem áður deildu harkalegast, eru að verða fóstbræður út af ósigrinum. Þetta er merkileg saga, ekki vegna þessara 8%, eða 8 millj. kr., sem töpuðust í sambandi við gerðardóminn, heldur hvað viðvíkur kommúnistum, sem eiga skilið viðurkenningu fyrir bragðvísi sína, er þeir léku á foringjana báðum megin. Umr. um búnaðarmálasjóð hafa verið sönnun þess, hvernig þeir léku á báða aðila, og það þarf því enginn að verða hissa yfir því, þó að þessir aðilar flýi umr. í kvöld. Þá langar ekki til að rifja upp sameiginlega sekt.

Þegar svona var leikið á búnaðarþingsmenn, reis partur hænda upp og neitaði því, að búnaðarþing hefði rétt til þess að gefa eftir á þennan hátt. Fundir voru haldnir á Suðurlandi, sem náðu til beggja flokka, og þessi Selfosshreyfing er eini ljósi punkturinn í sögu bændastéttarinnar, þótt hún brotnaði. Eins ber hreyfing skagfirzkra og húnvetnskra bænda, sem var tilraun til þess að hrista af sér okið, vott um það, sem koma skal. Það var það sama og þegar sunnlenzkir bændur lýstu yfir því, að þeir vildu hafa sinn eigin félagsskap og sína eigin trúnaðarmenn.

Hv. 8. þm. Reykv., sem bæði er gamall bóndi og verkamaður, lýsti því hér einfaldlega, hvernig þessu er hagað í verkalýðssamtökunum, sem eru frjáls félagsskapur. Engum verkalýðsforingja hefur dottið það í hug, að verkalýðsfélögin séu ríkislaunuð, eins og félag útvegsmanna er og ætlunin er með félagsskap bænda. Stéttarsamband bænda er „humbug“ og skrípamynd af stéttarfélagi. Félag útvegsmanna er þyngsti ómaginn á Íslandi. Fyrir þessa menn, sem lögðu sitt fjárhagslega líf á höggstokkinn í fyrravetur, hafa verið borgaðar 23 millj. kr., enda er það mála sannast, að stéttarsamtök bænda eru ekkert annað en „humbug“ og stéttarsamtök útvegsmanna sömuleiðis; hvort tveggja skrípaleikur af réttri mynd stéttarsamtaka.

Það, sem bændur á Suðurlandi fóru fram á, var að vera frjálsir menn og hafa sín frjálsu stéttarsamtök. Þá gerðist það, að leiðtogar búnaðarsambandanna sendu menn á laun út um land til þess að brjóta þá á bak aftur og segja þeim ósannindi. Mér er kunnugt um það, að bændur fyrir norðan ætluðu að gera það, sem rétt var, en þá komu kommúnistar og hálf,. kommúnistar og fóru eins og sníkjudýr um sveitirnar, og með þessu móti tókst að fá 2 menn kosna, sem voru á móti því, sem fólkið vildi. Þannig var farið að alls staðar á landinu. Það var farið að með ósvinnu og rangindum, og þar af leiðandi þarf engan að undra útkomuna á þessu.

Þá vil ég minnast nokkrum orðum á hinn sögulega fund, sem haldinn var austur á Laugarvatni. Var það eins og í kosningum, að Búnaðarfélagið vissi upp á hár, hvaða menn það hafði þar á sinu bandi, og raðaði mönnum upp á lista, hvernig þessu skyldi hagað. Hafði félagið meira að segja gert lög um það, að bændur skyldu þarna gera dóm hjá sér, sem væri stéttarfélag bænda. Er bezt að segja það eins og er, að bændur á Suðurlandi, sem vildu vera frjálsir og hafa óháð stéttarfélag, biðu ósigur, sem eðlilegt var, því að þeir reyndu ekki að nota nein óleyfileg meðul, og því ekki að furða að hinir, sem það gerðu og höfðu stjórn Búnaðarfélags Íslands, ráðunauta þess og stuðningsmenn úti um land allt í sinni þjónustu, fengju meiri hluta. Og nú vil ég biðja hv. þm., sem eru vanir formum í þessum efnum, að hugleiða, hvað gerist þarna, þegar verið er að stofna þessi félagssamtök bænda. Búnaðarfélagið kemur þangað austur með tilbúna samþykkt handa þessu sambandi og segir: „Hér er dálítill skápur, og setjizt inn í hann, kæru bræður.“ Af þessu sést, að forráðamenn Búnaðarfélagsins líta á bændur sem fé, sem þeir geta farið með eftir geðþótta og boðið upp á hvað sem er, og það hefur aldrei verið reynt af nokkrum félagsskap. síðan hér var afnumin kúgun annarrar þjóðar, að sýna aðra eins lítilsvirðingu og bændum var þarna sýnd, þegar komið er færandi hendi með stjskr., sem þeir eiga að innlima í félagssamtök sín. Hæstv. núv. landbrh., sem ekki óskar að vera viðstaddur þessar umr. af vissum ástæðum, kom og á þennan fund uppdubbaður til þess að vera þar nokkurs konar „stórmúft“. Hann rekur Guðmund Þorbjörnsson úr hásæti, sezt þar sjálfur og segir: „Ég er keisari hér“. Svo var hann keisari þar. En þrátt fyrir allan þann ofsa, sem hann beitti til þess að brjóta vilja bænda á bak aftur, fór þó svo, að þessi minni hluti bænda veitti mótspyrnu. Var þarna gerð ályktun um, að það skyldi borið undir bændastéttina, hvort bændasamtökin ættu að vera frjáls eða ófrjáls, og var það fyrsti ósigur kúgaranna að ganga inn á þetta. En Búnaðarfélagið hélt, að það gæti leikið á bændastéttina eins og áður og ætlaði að beita öllum áhrifaöflum sínum í málinu, þ.e. Frey, hinu pólitíska blaði Búnaðarfélagsins, búnaðarþingi og ráðunautum félagsins. Síðan líður veturinn, og ekkert gerist af hálfu frjálsra bænda, enda höfðu þeir hvorki aðstöðu né fjármagn til að hafa áhrif á gang málsins á móts við Búnaðarfélagið. Urðu úrslit þau, er atkvgr. fór loks fram, að þó að það væri minni hl. bænda að vísu, sem kaus að vera frjálsir, urðu forkólfar Búnaðarfélagsins að láta undan að vissu leyti. Og nú varð að reyna enn meir til þess að innlima stéttarsamtök bænda í félagið. Var boðað til fundar á Hvanneyri um þessi mál, en þar urðu fulltrúar Búnaðarfélagsins að éta allt ofan í sig, sem gerzt hafði á Laugarvatni, og voru samtök bænda gefin frjáls, a.m.k. formlega. Þetta gaf forsprökkum Búnaðarfélagsins bendingu um, á hverju þeir gætu átt von hjá bændum, og því afréðu þeir að leika á þá í stað þess að beita þá ofbeldi, svo sem þeir höfðu reynt í fyrstu, og í stað þess að innlima stéttarfélög bænda í Búnaðarfélagið er búinn til hrærigrautur úr öllu saman, eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang. Stéttarsamtök bænda eru því í raun og veru aðeins deild úr Búnaðarfélaginu, sem sjálfir forkólfar Búnaðarfélagsins ráða lögum og lofum í, þótt þeir séu að reyna að blekkja bændur með, að þetta séu frjáls samtök, því að þau eru ekki frjáls á neinum grundvelli. Þess vegna er það, að þegar verið er að tala um að útvega peninga handa stéttarsamtökum bænda, þá er það ekkert annað en „propaganda“, eins og réttilega var fram tekið af hv. 8. þm. Reykv. Stéttarsamtök bænda eru ekkert annað en froða, gervifélag, sem hefur sprottið upp úr ósigrum búnaðarfélagsleiðtoganna, og það er ekki hægt að hugsa sér ógiftusamlegri þróun en orðið hefur hjá stéttarsamtökum bænda. Byrjunin er sú, að bændur bera fram kröfu um slík stéttarsamtök, sem þeir eru sviknir um að verða við. Þá kemur Búnaðarfélagið og segist ekki vilja slík samtök bænda, því að það sé ríkið. Síðan vill það innlima þau í félagið, beitir bændur svo ofbeldi, verður undir í bili og ætla.r að gera sér leik á borði, og þá er þetta gervifélag myndað, sem hér er nú verið að tala um í kvöld.

Eins og hv. þm. A-Húnv. talaði um, má segja, að þetta gervifélag hafi fengizt við 2 mál og þau bæði hin herfilegustu. Annað er það, að þegar samningar stóðu yfir um stjórnarmyndun fyrir ári síðan, — en þá hefðu stéttarsamtök bænda að sjálfsögðu getað beitt áhrifum sínum sér í hag, ef rétt hefði verið haldið á málum þeirra, — þá tókst bæjarflokkunum auðvitað að snúa á Framsfl., sem aðallega nýtur fylgis bænda, þannig að myndaður var gerðardómur, þar sem tveir bæjarmenn eru á móti einum utanbæjarmanni, og Guðmundur Jónsson á Hvanneyri hefur reiknað út, að með þessum gerðardómi eykst ósigur bændanna frá 1944 um helming. Aftur á móti hefur Dagsbrún og önnur verkalýðsfélög, sem eru rétt mynduð, sigrað í sinum hagsmunamálum, þó að það hafi að vísu verið of oft, af því að atvinnurekendur eru eins miklir viðvaningar í þessum málum og bændur. Og nú er svo komið, að bændur og atvinnurekendur liggja gersigraðir og varnarlausir á þessu sviði, og er nú verið að tryggja enn betur, að bændur geti ekki rétt sig á legg úr þessu varnarleysi.

Og nú kem ég að því, hvers vegna leiðtogar Búnaðarfélagsins hafa dregizt út í þetta og vilja ekki gagnleg samtök bændastéttarinnar. Þeir hafa einu sinni gert rangt, þeir hafa látið leika á sig. Þeir vissu, að þeir höfðu eyðilagt 6 manna samkomulagið, en í stað þess, að þeir hefðu átt að rísa upp á móti þeim, sem höfðu leikið á þá, bæði Framsfl. og Sjálfstfl., hafa þeir tekið það ráð að fela ósigur sinn með því að leika áfram á bændastéttina. Ef bændastéttin hefði hins vegar fengið að vera í friði fyrir forkólfum Búnaðarfélagsins, sem nú hafa eyðilagt þessi hagsmunasamtök þeirra og fengið að skipuleggja sjálfir þessi mál, hefðu þeir bændur, sem vildu taka þátt í þessum samtökum, skipað sér í deildir úti um land allt á takmörkuðum svæðum og gert héraðabandalög. En þetta hefur farið á annan veg, svo sem ég hef hér lýst, og nú er svo komið, að engin félagssamtök í landinu eru eins kúguð og þetta svo kallaða stéttarsamband bænda, sem er ekkert nema froða og til þess gert að leika á bændur. Og það hefur enginn félagsskapur í landinu nokkurn tíma gert annan eins samning og þann að fá andstæðingum sínum diktatorsvald í hendur. Þegar bæjarfulltrúarnir fjórir semja á móti hinum tveimur, þá liggur málið svo fyrir, að bæjarmennirnir geta sagt við framsóknarmennina: Nú viljum við semja um kjötið og mjólkina. — Og bændur hafa ekkert að bera fyrir sig og standa algerlega máttvana. Þessir umboðslausu valdamenn bænda gátu sagt, að þeir hefðu valdið, því að enginn mótmælti þeim; það var búið að afvopna bændur. Aðstaða bænda var algerlega sambærileg við aðstöðu Þjóðverja á hernámssvæði Bandamanna í Vestur-Þýzkalandi. Þeir voru hersetnir af forráðamönnum Búnaðarfélags Íslands. Og eins og herforingjar Vesturveldanna hafa verið mildir og mannúðlegir, þá eru forráðamenn Búnaðarfélags Íslands viðkunnanlegir í umgengni. En hverju ræður þýzka þjóðin nú? Hún er algerlega háð drengskap Engilsaxa. Og þannig eru bændur alveg á valdi þessara svo kölluðu leiðtoga sinna.

Það er dálítið hastarlegt, að bændur skuli nú vera þannig settir, sem haldið hafa uppi menningu þjóðarinnar um þúsund ár, og að það skuli vera fyrir misverknað þeirra manna, sem bændur hafa trúað, að þeir eru komnir í það réttleysi, sem sambærilegt er við þá mestu undirokun, sem nokkur vestræn þjóð hefur orðið að þola síðan í 30 ára stríðinu. Þetta hefur þróazt svona stig af stigi — eins konar „infernal line of evolution“ eða helvízk þróun, eins og dr. Helgi Péturss orðar það. Þeir hafa verið framseldir í stjórnarsamvinnu, settur á þá gerðardómur og orðið að lokum eins settir og hin hernumda þýzka þjóð.

Það er dálítið athugavert fyrir bændur, er þeir hugsa til þess, hvað þeir láta bjóða sér, að bera það saman við viðbrögð verkalýðsins undir svipuðum kringumstæðum, t.d. þegar ráðherrar Framsfl. og Sjálfstfl. gerðu þær ráðstafanir gegn dýrtíðinni að setja gerðardóm í kaupgjaldsmálum um áramótin 1941–´42. Þá sameinuðust kommúnistar og kratar um eitt allsherjar óp til mótmæla og töldu þetta þrældómslög og sögðust ekki vilja þrældóm. Sú skoðun er reyndar nokkuð vafasöm, og kann svo að fara, að síðar verði horfið að því, að úr slíkum málum verði einmitt skorið af réttlátum dómstólum, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Verkalýðsforingjarnir neituðu að afhenda verkfallsvaldið og sögðust trúa þeim vopnum betur, sem þeir hefðu reynslu af. Og þeir unnu sigra, sem þeir áttu vopnum sínum að þakka. Og þótt þeir sigrar væru e.t.v. ekki heppilegir fyrir þjóðina, þá voru það samt sigrar.

Eftir að verkamenn höfðu sagt: Við hlítum engum gerðardómi og rjúfum heldur þjóðfélagið, — þá var ekki nema eitt ráð fyrir bændur, aðeins eitt svar: Við viljum engan gerðardóm yfir okkur heldur. — En þetta ráð tóku þeir ekki. Það var búið að afvopna bændastéttina. Þjóðverjar biðu ósigur, og vopn þeirra voru tekin af þeim og þeir supu þannig seyðið af óheppilegri stefnu forustumanna sinna. Og eins var það með bændur, að þeir misstu vopn sín fyrir óheppilega forustu. Þess vegna saka ég forkólfa búnaðarmálanna um það að hafa hvað eftir annað brugðizt bændum. Hvar sem litið er á feril þeirra, er skemmdarstarfið augljóst. Þetta byrjaði með frv. um 10 kr. gjaldið, — leiðinlegu fræi, sem hv. þm. Str. sáði í jörðina og leiddi til þess, að farið var að skattleggja bændur. Og fénu átti svo sem ekki að verja í neinn óþarfa. „Við byggjum hótel í Rvík“, sögðu bændaforkólfarnir. „Við verjum skattinum til þess að senda ráðunauta út um landið, byggja yfir búnaðarfélagið o.s.frv.“ Og þetta var allt vegna þess, að verkamenn fengu orlof. Þess vegna áttu nú bændur að fá að skattleggja sjálfa sig. En það kom nú í ljós, að bæjarflokkarnir vildu nú hafa hönd í bagga með ráðstöfun þessara skattpeninga og kröfðust þess, að það yrði lagt í vald ráðh., hvernig þar yrði varið hverjum eyri. Þetta var það, sem við mátti búast, og kom nú að því, að bændaforkólfarnir vildu ekkert hafa með ráðh., og féllust þá bæjarflokkarnir á að láta bændurna fá féð til gagnlegra framkvæmda. En það lá grunur á, að það ætti að leika sér með féð á viðvaningslegan og bjánalegan hátt, og það kom fram, að núverandi leiðtogum bændanna var ekki trúandi til að fara vel með málið. Þá var sett inn í l., sem gengu í gildi fyrir tveimur árum, að bændur skyldu fá féð til jarðræktarframkvæmda heima í sínum eigin héruðum á vegum búnaðarsambandanna. Og loks endaði þetta fálm á því, að farið var fram á, að Stéttarsamband bænda, sem er froðufélag, fái helming fjárins, en búnaðarsamböndin fái að halda helmingnum.

Mér er kunnugt um, að einmitt um þetta leyti voru t.d. ýmis búnaðarsambönd á Suðurlandi að afla sér nýrra tækja, en voru bláfátæk, og þess vegna glöddust hinir óháðu leiðtogar yfir því að eiga nú von á að fá nokkurt fé í hendurnar. Átakanlegu dæmi kynntist ég um þetta í Suður-Þingeyjarsýslu við seinustu kosningar. Fulltrúar Búnaðarfélagsins voru þar á þönum útblásnir eins og tilberar af snakki um það, sem þyrfti að framkvæma. En þar var búnaðarsamband að halda fund um sama leyti, og það hafði þá enga peninga handa á milli til framkvæmda, og það varð helzt að ráði, að einstakir bændur tækju víxla. Það var því beinlínis ósvífni af búnaðarfélagsleiðtogunum að vera á móti því, að samböndin fengju einhverja peninga til framkvæmda. En þegar þetta var nú samþykkt hér á Alþ., hefði mátt ætla, að bændur hefðu nú fjárins loksins full not. En hvað gerist? Það er upplýst í dag af hv. frsm. landbn., að maðurinn, sem kallar sig hæstv. landbrh. og er hversdagslega mildur við okkur bæjarmenn, hann er ekki alveg eins mildur við bændur. Hann hefur beitt fullkomnu ofbeldi gagnvart þeim, þverbrotið lögin og neitað að greiða fé úr sjóðnum og sagt, að það væri ekki til. Það væri alveg eins hægt fyrir hæstv. dómsmrh. að upphefja lögin um refsingar fyrir þjófnað og manndráp. — Og af hverju gerir hæstv. landbrh. þetta? Af því að hann veit, að bændur eru varnarlausir. Og þannig er níðzt á bændum, af því að það er engin hætta á, að þeir geti borið hönd fyrir höfuð sér. Það notar hæstv. landbrh. sér. Og það er ekki afskaplega skemmtileg hvöt, sem liggur þarna að baki. Það á að hræða bændur til þess að sleppa aftur því, sem þeir hafa á unnið, og taka féð í hótelið og aðra slíka gamanleiki. Peningunum er haldið fyrir bændum, þótt það séu hrein lögbrot, til þess að reyna að svelta þá til undirgefni. Nú er sagt, að stjórnir búnaðarsambandanna hafi gefizt upp. Stundum gefast valdamiklar stjórnir upp, eins og t.d. í Þýzkalandi, og eins hefur farið um bændur og búnaðarsamböndin. En ef einhverjum af þeim hræddu mönnum, sem ekki þora að vera hér í kvöld, kynnu að berast orð mín til eyrna, þá vildi ég segja við þá: Þið skuluð ekki halda, drengir góðir, að þið sleppið alltaf jafnvel og hingað til, því að reynslan hefur sannað það, sem skáldið segir, að

„allt það, sem er illt og rangt,

einhvern tíma hefnir sín“,

og það bæri þá eitthvað nýrra við, ef svo færi ekki nú.

Ég hef nú útskýrt, í hverju ranglætið er fólgið. Allar stéttir hafa með sér sterk félagssamtök og ráða þannig sinum málum og vinna sína sigra, og fyrr en bændur hafa fengið slík félagssamtök geta þeir engu af sér hrundið. Það er til einskis, þótt Alþ. verndi bændur með lögum, því að þau hafa verið „sabotéruð“ af búnaðarfélagsforkólfunum, samtök þeirra drepin og líkið innlimað í búnaðarfélagsskipulagið.

Hv. þm. Str. fór hörðum orðum hér um vin sinn, hæstv. landbrh., fyrir, að hann hefði ekki útvegað bændum þær 15 millj. kr., sem lög stóðu til. Synd landbrh. í þessu efni er þó lítil í samanburði við það, sem hér hefur verið rætt. Hann skilaði að vísu ekki peningum, sem bændur áttu að fá til ræktunar og húsabóta, en hann hafði þá atsökun, að þeir væru ekki til. Þessi afsökun kemur hér hins vegar ekki til greina, því að það er ekki annað en ofbeldi og ranglæti við bændur, sem kemur til, að brotin hafa verið lög á þeim og þurft að beita heljartökum, slíkum sem hv. þm. Rang. hefur upplýst hér á þingi, að hann hafi þurft að beita til þess að fá hæstv. landbrh. til að skila 60 þús. kr. úr búnaðarmálasjóði. Og enda þótt ég hafi enga yfirdrífandi trú á hæstv. landbrh., þá hefði ég ekki haldið, að hann bryti svo af sér og héldi peningum fyrir bændum, sem liggja ónotaðir í skúffunni. Hér er slík brennandi sekt yfir hans höfði, að hann mun ekki undan komast, og mun verða því þyngri, sem lengra líður frá.

Nú segja búnaðarfélagsmennirnir: „Við höfum snúizt.“ Og rétt er það. Það byrjaði með 10 króna gjaldinu, sem átti að samsvara orlofslögum launastéttanna. Síðan kom skattlagning á bændur. Hún var sett undir eftirlit, og þeir reyndu þá að fá féð til frjálsrar ráðstöfunar, en því fékkst ekki framgengt fyrr en stungið var upp á því, að búnaðar sambönd bændanna fengin það til framkvæmda sinna. Og nú koma piltar og segja: „Við höfum verið háðulega leiknir, og nú viljum við aðeins fá helminginn af fénu.“ Og þeir eru búnir að þreyta búnaðarsamböndin svo, að þau vilja vinna það til að fá eitthvað heldur en ekki neitt, og svo ætla þeir að leika sér með það, sem eftir er. Það, sem þeir gera, mun verða í áframhaldi af því, sem á undan er gengið, og ekki ástæða til að gera sér neinar glæsivonir. En það má minna á það, að verkamannafélagið Dagsbrún t.d. átti líka sína eymdardaga. Og þegar ég var í því félagi fyrir 30 árum, þá þurftum við aðallega að berjast við menn, sem voru innan félagsins til þess að eyðileggja það og voru hjálparkokkar hjá andstæðingunum, og það tók langan tíma að hreinsa þar til. Ég vil ekki spá miklu, en ég geri ráð fyrir, að þegar búnaðarfélagsforkólfarnir hafa misboðið bændum nógu lengi með blekkingum og svikum, þá muni fara eins og í verkamannasamtökunum, að meðal bænda komi fram nýir menn, sem standa ærlega á rétti þeirra og vinna að málum þeirra, en líklega ekki fyrr en það koma erfiðir tímar og neyðin kennir þeim að passa sig sjálfir.

Ég hef oft undrazt það, hve það er hættulegt upp á gáfnafarið, ef menn fara að gera rangt. Hér í Sþ. kom nýlega fyrir mál, sem sýnir þetta. Þeir menn, sem mest hafa staðið að óhöppum bænda, töluðu þar um lítið mál, og þetta litla mál varð eitt mesta hitamál fjárlaganna. Það var um akveginn milli Egilsstaða og Rvíkur um Akureyri, sem nú er mjög að styttast með hinni nýju brú á Jökulsá á Fjöllum. En eins og stendur eru á þeirri leið tvær hindranir, báðar í mínu kjördæmi. Það eru tvö fjöll, Fljótsheiði og Vaðlaheiði. Nú hafði ég og fleiri þm. viljað reyna að bæta úr þessu og lagt til, að lítil fjárupphæð, sem veitt hafði verið til minni háttar vegar, sem er ófær mestallan veturinn, væri tekin út og færð yfir á aðalveginn eða aðallínuna, en sá vegur er bæði nauðsynlegur fyrir héraðið í heild og þó sérstaklega Austfirði, vegasamband þeirra við Akureyri. Þegar þessi lína er búin, ætlum við, sem viljum þessum málum vel, að fá lagðan veg utan við Vaðlaheiði, austan við ána. En hvað gerist, þegar við ætlum að fá þessa óverulegu fjárhæð, sem ég nefndi áðan, færða á milli vega, í aðalveginn? Það gerist, að hæstv. varaforseti þessarar d., sem sjálfur er ættaður úr Þingeyjarsýslu, hann er orðinn svo undarlegur, að hann veit ekki um tvö fjöll í sinni eigin sýslu og snýst algerlega á móti þessari litlu tilfærslu. Fimmtán þúsund krónur segja að vísu ekki mikið, en þetta atvík er ágætt dæmi upp á það, sem ég hef sagt og vil segja, og það er, að þegar gert er vísvitandi rangt, hefur það áhrif á vitsmunina og dregur menn niður, og það er þetta, sem verður þeim mönnum til almennrar skammar, þó að greindir séu fyrir, að leggjast á bændastéttina og líta á hana eins og hjörð. Það einkennilega loðir við þá, að svikin hafa áhrif á vitsmuni þeirra.

Ég býst við, að ég geti að svo stöddu látið þetta mál niður falla. Ég hef áður, fyrir tveimur árum, talað um það í hv. Ed., hvílík svívirða það er að ætla sér að fjötra bændur sem rétta og slétta niðursetninga. líta á þá sem aumingja, sem innheimta verði stéttargjöldin af með opinberum sköttum. Upphaflega átti að leggja á bændur fulla fjötra, en nú hafa búnaðarfélagsmenn hörfað úr því vígi og ætla að reyna að koma á hálfum þrælalögum. En kraftur bændastéttarinnar er óbilandi. Hálfir hlekkir eru líka hlekkir og hálf þrælalög líka þrælalög, og bændur munu hrista af sér alla hlekki. Þýzka þjóðin, þessi gamla menningarþjóð, er nú illa komin og verður að þola mikið fyrir foringja sína. En hún mun rísa upp aftur. Bændastéttin hér hefur líka orðið að þola margt og mikið fyrir sína foringja, en ofan á allt lýsa þeir yfir því, að bændastéttin, elzta menningarstétt landsins, sé ekki fær um að hafa með höndum félagsmál sín. Þetta er yfirlýsing búnaðarfélagsmanna, en þeir mega vita, að aldrei lánast þeim slík þrælatök. Þegar þeir Björn Kristjánsson og Tryggvi Gunnarsson stóðu í hvelfingu Landsbankans og Tryggvi hafði talið sjóðinn, sem reyndist réttur, þá sagði Tryggvi: „Njóttu eins og þú hefur aflað“, og fleygði um leið lyklunum að fótum Björns. Hið sama vil ég segja við búnaðarfélagsmenn, ef þeir koma hálfum hlekkjum á bændur.