26.01.1948
Efri deild: 48. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er óþarfi að vera að teygja lopann lengi um þetta mál. Ég held, að hv. þdm. skilji, hvernig það atriði liggur fyrir, sem hér er verið að deila um.

Hv. þm. N-M. (PZ) sagði, að það væri minni röskun að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, heldur en að breyta erfðatilsk. sjálfri. Ég játa, að það er rétt, því að það er engin röskun á erfðum í sjálfu sér. Hitt er það, að það er gengið á rétt þeirra manna, sem löggjafinn hefur veitt þennan erfðarétt. Og meðan þeir hafa hann, er það skylda löggjafans að sjá um, að ekki sé gengið á hann. En hitt er það, að ekki er ástæða til að halda erfðaréttinum óbreyttum. Það horfir allt öðruvísi við, og ef farið yrði að breyta erfðatilskipuninni á annað borð, yrðu afnumdir þeir liðir, sem brtt. á þskj. 196 á við. En ef farið er að koma þessu ákvæði hér inn, verður það meira til málaferla en gagns. Það má vera, að það sé eðlilegt, að forkaupsréttarhafar geti fengið að kaupa undir þessum kringumstæðum, en til þessa árekstrar kemur ekki, ef breytt er erfðatilsk. Ég held því fram, að það sé miklu réttara og eðlilegra að breyta henni, og ég álít, að ef þetta ákvæði verður sett hér inn, verði það gert að nauðsynjalausu, og get ég ekki fellt mig við að greiða því atkvæði, eins og sakir standa. Ég bendi þess í stað á þá leið til að ráða fram úr þessu, sem er eðlileg og sjálfsögð og í fyllsta máta heppileg.