08.03.1948
Neðri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Pétur Ottesen:

Ég vildi benda á það út af brtt. á þskj. 433, að mér skilst, að hún sé í ósamræmi við ákvæði þessa frv. að öðru leyti, því að þar er gert ráð fyrir því, að þegar jarðir ganga kaupum og sölum, þá fái ábúandi jarðarinnar rétt til kaupa á jörðinni, ef hann hefur, samkvæmt frv. eins og það er nú, búið 4 ár á henni, en eftir brtt. n., ef hann hefur búið í 3 ár. Nú getur farið svo, að jörð, sem fellur til margra eigenda við erfðir, sé í leiguábúð, og samkvæmt frv. að öðru leyti ætti ábúandi að hafa forkaupsrétt að jörðinni, ef um sölu er að ræða, ef hann hefur búið 3–4 ár á henni, en samkvæmt þessari brtt. er hann útilokaður frá þeim rétti, því að það segir í till., að þá skuli, þegar svo stendur á, að skipti með erfðum eru samkvæmt 6., 7. og 8. kafla erfðal., hreppsnefnd eiga rétt á að fá jörðina keypta á því verði, sem hún er lögð erfingjum til arfs. Þetta finnst mér full ástæða til að athuga í sambandi við afgreiðslu þessa máls og fara ekki þannig að gera upp á milli, þó að svona standi á. Vil ég þess vegna vekja athygli á þessu.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel mjög vafasamt, að rétt sé að fara nú á þessu stigi málsins að gera slíka breyt. á erfðal. eins og felst í þessari breyt., því að þannig hefur verið litið á, að sú eign, sem fellur einhverjum manni til við erfðir, sé til óskoraðra umráða viðkomandi manns og það án tillits til þess, hvort um fleiri en einn erfingja er að ræða, og líka án tillits til, í hvaða röð erfingjarnir eru. Þess vegna er hér verið að gera grundvallarbreyt. á viðurkenndum eignarrétti með þessari breyt. Það getur vel skeð, að breyt. hafi orðið á hugsunarhætti þjóðarinnar og löggjafans, síðan löggjöf um þetta var sett 1850, svo að ástæða þyki til að gera slíka breyt., en þá ætti sú breyt. að koma fram á löggjöfinni í heild, en ekki að smeygja slíku inn í önnur óskyld frv.

Fyrir þessar sakir, sem ég hef lýst, mun ég ekki greiða þessari breyt. atkv.