22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. — Ég kannast ekki við, að þessi hv. þm. hafi verið að þvo bletti af frv., hann var einmitt alltaf að bæta blettum við það, þótt þeir væru að vísu ekki mikið til skemmda, nema þessi eini, sem við neituðum hér í d.

Ég þekki nú ekki hv. 1. þm. N-M. nema að frómheitum einum, en það mætti halda af síðustu ræðu hans, að hann hefði komizt í kast við dómara, svo æstur sem hann var í sinni síðustu ræðu út í dómara, en því er nú hins vegar þannig varið, að hafi nokkur maður fengizt við að virða lágt, þá er það einmitt þessi hv. þm., sem hefur verið í fasteignamatsn. ríkisins.

Með þessu ákvæði hv. þm., ef að l. verður, er tekin upp allt önnur stefna heldur en gilt hefur. Áður mátti seljandinn bjóða út jarðir og sæta hæsta boði, sem hann fékk, en samkv. þessu ákvæði yrði farið eftir því, hvað lagt yrði út til arfs, sem í mörgum tilfellum gæti verið allt og lágt metið. Og eins og hv. þm. veit, framkvæma hreppstjórar þessar virðingar og hafa þar með sér votta og verða síðan að vera reiðubúnir að vinna eið að þessum málum.