22.03.1948
Efri deild: 84. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

173. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér rætt í dag, var felld rökst. dagskrá, sem byggðist á því að vísa málinu frá á þeim grundvelli, að rannsaka þyrfti og endurskoða l. um prestaköll landsins. Á þessum grundvelli vildu menn ekki vísa málinu frá, og var sú dagskrá felld. Hins vegar virtist mér undir þeim umr. það koma í ljós, að menn teldu, að það þyrfti að endurskoða löggjöfina. Hins vegar töldu menn, að prestsþjónusta á Akureyri gæti ekki farið fram á viðunandi hátt, nema prestar væru þar tveir. Þess vegna hef ég leyft mér að koma hér með aðra rökst. dagskrá, sem bætir úr þessu. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin greiði úr ríkissjóði kostnað við aðstoðarprest við þjóðkirkjusöfnuðinn á Akureyri, meðan núverandi prestur er ekki fær um vegna heilsubrests að fullnægja prestsþjónustu safnaðarins, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Einhverjum kann að þykja hart að orði kveðið, að presturinn sé ekki fær um að fullnægja prestsþjónustu, en ég segi, að það hafi berlega komið fram í flutningi frv. og í umr. Til þess að láta ekki líta svo út, að málinu sé vísað frá, til þess að menn þar fái ekki næga sálusorgun, þá er gert ráð fyrir í dagskránni, að aðstoðarprestur sé þar kvaddur til hjálpar, svo að prestsþjónusta megi verða þar nægileg, en ekki ákveðið, að það skuli gilda um tíma og eilífð og hver sem er prestur á Akureyri.