20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Í fyrra, raunar örlitlu áður en hv. 4. þm. Reykv. flutti till. þá, sem hann gat um að hann hefði flutt, flutti ég ásamt hv. þm. Siglf. till. um athugun á því að koma upp síldarbræðsluskipi. Sú till. fór einnig til n. og var athuguð hjá þeirri sömu n. sem hv. 4. þm. Reykv. hefur getíð um. Sú till. var ekki flutt af okkur aftur nú á þessu þingi, af því að hv. 4. þm. Reykv. kom fram með hana. Ég get um þetta vegna þess, að þetta hefur verið rætt í sambandi við frv., sem lagt var fram í hv. Ed. um kaup á skipi til síldarbræðslu. — Ég segi sem mína skoðun, að ég er þakklátur þeim mönnum, sem standa að því að flytja þetta mál fram á þingi nú í frv.-formi og hafa athugað það svo vel sem raun ber vitni. Mér finnst þar gengið í rétta átt, án þess að ég slái föstu, að það sé það bezta, sem komið geti til greina, sem þar er talað um. Mér skilst það vera sameiginleg skoðun allra hv. þm., að ástandið hér í sambandi við vinnslu síldar, sem veiðist við Faxaflóa, sé langt frá að vera gott. Ég er engin undantekning frá þeirri skoðun. Með hliðsjón af því vil ég leyfa mér að þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir þá rögg, sem hann hefur tekið á sig með því að leggja fram frv. um þetta mál eins og hér hefur verið gert í hv. Ed.