16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. — Hv. 6. þm. Reykv. var að reyna að gera sér mat úr því, að alþýðuflokksmenn væru nú ekki sammála um alla hluti, og taldi þetta flokknum til ávirðingar. En hann var svo óheppinn, að hv. þm. Siglf. talaði rétt á eftir honum og gaf lýsingu á þeirra flokki. Sú lýsing var þannig, að í honum væru fyrst og fremst kommúnistar, t.d. hann og hv. 2. þm. Reykv. (EOI) og fyrrv. menntmrh. (BrB). En svo væru líka öðruvísi menn í flokknum, sem ekki væru kommúnistar, t.d. eins og hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). Með öðrum orðum: Í flokknum væru tvenns konar menn, sumir kommúnistar, en aðrir ekki. Ég veit ekki, hverjar stjórnmálaskoðanir þessi eða hinn krafa, en svo virðist sem skoðanamunur geti verið í fleiri flokkum en Alþfl. Og að því er snertir hv. 6. þm. Reykv., þá er mér kunnugt um það, að hann hefur ekki alltaf verið ánægður með þær ráðstafanir, sem flokkur hans hefur gert. T.d. er mér óhætt að segja, að hann var ekki ánægður, þegar flokkur hans tók þátt í ríkisstj. með Ólafi Thors. En hann reis aldrei upp til gagnrýni á þá stjórn. þó að hann væri ekki ánægður með hana eins og hún var. Af hverju ekki? Fékk hann það ekki?

Ég get nefnt annað dæmi af handahófi, frv., sem mikið var deilt um, veltuskattinn. Hv. 6. þm. Reykv. talaði á móti frv. sem kaupfélagsmaður og taldi það vera ranglátt að lögleiða slíkt. En hvernig greiddi hann atkvæði? Með skattinum.

Hann fékk ekki að greiða atkv. á móti honum. Og þessi þm. telur sig þess um kominn að tala eins og hann talaði áðan. Ég held, að bezt hefði verið fyrir hann, að sá kafli ræðu hans, sem fjallaði um þetta, hefði ekki verið fluttur. Ég sé ekki, hvers vegna hann talaði eins og hann talaði. Ég tel sjálfsagt, að menn greiði aldrei atkv. gegn sannfæringu sinni, og flokkur minn ætlast ekki til þess. Þessi hv. þm. aftur á móti hefur greitt atkv. gegn sannfæringu sinni, líklega vegna þess, að flokkur hans ætlaðist til þess, og ætla ég, að það sé honum ekki til góðs.