24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2171)

14. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er aðeins ein breyt. gerð á gildandi l., sem sé sú, að hlutaðeigandi bæjarfélag skuli kjósa 3 fulltrúa af 5 í stjórn vinnumiðlunarskrifstofu á viðkomandi stað í stað tveggja áður, en ríkisvaldið hafi þar engan fulltrúa: Rökin, sem færð eru fyrir þessari breyt., eru þau að vinnumiðlunarskrifstofurnar séu bæjarfyrirtæki og því eigi bæjarstjórn á hverjum stað að skipa stjórnarmeirihl. skrifstofanna. Þetta fær ekki staðizt. Í l., sem nú gilda, segir svo um hlutverk vinnumiðlunarskrifstofanna, með leyfi hæstv. forseta. Í 4. lið segir, að hlutverk skrifstofanna sé „að fylgjast með atvinnuháttum, eftir því sem auðið er og safna skýrslum og gögnum í því augnamiði“og í 5. lið „að aðstoða við atvinnuleysisskráningar og láta fram fara atvinnuleysisskráningar eftir fyrirmælum bæjarstjórnar eða atvmrh.“ Og í 7. lið, svo að ég nefni hann líka, segir enn fremur, að hlutverk skrifstofanna sé „að halda uppi innbyrðis sambandi á milli vinnumiðlunar í kaupstöðum og milli kaupstaða og sveita, eftir því sem við verður komið.“ Þessar tilvitnanir í gildandi l. sanna ótvírætt. að einu rökin, sem fram eru borin fyrir þessu frv., fá ekki staðizt, og er þá í raun og veru allt sagt, sem um frv. þarf að segja. Með tilliti til þess, að löggjafinn hefur ákveðið, að ríkissjóður skuli greiða 1/3 skrifstofukostnaðarins og auk þess allan póst- og símakostnað, eða talsvert meira en 1/3 alls kostnaðar, þá held ég það enga ofrausn af hálfu löggjafans að ætla ríkisvaldinu einn fulltrúa af fimm í stjórn skrifstofanna. Ef hv. flm. vill vera sjálfum sér samkvæmur, hefði hann átt að breyta líka ákvæðinu um kostnaðinn, þannig að bærinn greiddi allan kostnaðinn. Það er bæði ranglátt og óheilbrigt, að ríkið greiði kostnað við stofnanir án þess að hafa nokkra íhlutun í stjórn þeirra.

Þó að við í minni hl. n. getum ekki fallizt á þær breyt., sem hér um ræðir, þá teljum við mikla þörf á að athuga og endurbæta löggjöfina um vinnumiðlun, sem nú mun vera orðin að minnsta kosti 10 ára. Í l. um fjárhagsráð. nr. 70 1947, 8. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhagsráði er heimilt að leggja fyrir vinnumiðlunarskrifstofur landsins að láta fara fram skrásetningu verkafólks almennt eða í einstökum starfsgreinum á þeim tíma og eftir þeim reglum, er fjárhagsráð ákveður.“ Þetta var í sjálfu sér skynsamlegt ákvæði, því að það getur verið mjög nauðsynlegt að láta gera slíka skrá, þegar skipuleggja á hina ýmsu atvinnuvegi. En það er annað, sem ekki hefur verið aðgætt við þessa lagasetningu, og það er að vinnumiðlunarskrifstofurnar geta ekki tekið þessa skráningu að sér, eins og löggjöf um þær er nú háttað. Þessu til sönnunar má benda á, að vinnumiðlunarskrifstofurnar ná ekki til allra stétta, auk þess mun þær skorta heimild til þess að krefjast nauðsynlegra gagna til slíkrar allsherjarskráningar. Þetta mál mun nú vera til athugunar í fjárhagsráðl., og eftir því sem ég hef heyrt, þá hefur þm. Ísaf. verið falið að athuga þetta mál og þá með það fyrir augum, að löggjöfinni um vinnumiðlunarskrifstofurnar verði breytt í þá átt,. að þær geti annazt umrædda skráningu: Þar sem vitað er um þessa athugun í undirbúningi, teljum við í minni hl. n. ekki ástæðu til að hrapa að þeirri breyt., er hér er ráðgerð, og leggjum til, að málið verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem nú liggur fyrir.