27.02.1948
Efri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

38. mál, iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forsett. Ég vil mótmæla þeim ummælum hv. frsm. minni hl., að það vaki fyrir þeim sem vilja samþykkja þetta frv., og þá fyrst og fremst flm. þess og meiri hl. iðnn., að þeir vilji grafa undan fjárhagsráði og fæ ég ekki skilið, hvaðan hv. þm. hefur ástæðu til slíkra fullyrðinga. Þetta telur hann, að sé önnur ástæðan fyrir flutningi málsins. — Hin ástæðan sagði hann að væri sú, að þessir menn mundu ekki treysta ríkisstj. til að greina í sundur og undirbúa nýtt lagafrv. um þetta efni og samræma ákvæði þess gildandi l. fyrir næsta Alþ. Ég vil sömuleiðis eindregið mótmæla þessu. Ég treysti ríkisstj. fullkomlega til þess að gera þetta, en vil benda á. að ég hef rætt þetta við iðnmrh., sem taldi að engin ástæða væri til að afgreiða málið þannig, því að hann telur málið nægilega undirbúið til þess að bera það fram í því formi, sem frv. er nú, þar sem búið sé að senda það til þeirra aðila, sem hann mundi snúa sér til, ef rökst. dagskráin yrði samþ. og þeir hafi haft það svona langan tíma til athugunar.

Ég vil svo aðeins segja það í sambandi við ræðu hv. 6. landsk. þm. (StgrA). að ég hygg að þar gæti nokkurs misskilnings hjá honum um það atriði, að það þurfi að rekast á t. d. það, sem á að framkvæma samkv. 2. tölul. 5. gr., því að tekið er fram í 8. og 9. gr. frv., hvernig samstarfið skuli vera milli þessarar stofnunar og þeirra sem fyrir eru í landinu, einmitt til þess að þær þurfi ekki að vinna sömu verkin og ekki verði árekstrar milli þeirra. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði, en er hissa á því að hv. l. þm. N-M. eða hv. 6. landsk. þm. skuli ekki hafa komið fram með ýmis af þessum atriðum í n., t. d. óskað eftir að breyta eða fella niður einhver ákvæði úr frv., en ég hefði að sjálfsögðu verið og er reiðubúinn að ræða um slíka hluti. Mér dettur ekki í hug að halda, að hv. 6. landsk. þm. hafi andúð á málinu sjálfu, en hins vegar mætti segja mér, að eitthvað slíkt lægi á bak við hjá hv. 1. þm. N-M.

Ég vil svo að lokum benda hv. 1. þm. N-M. á það, að ég er sammála honum um að ýmislegt þurfi að gera til að tryggja frekari ábyrgð á hendur embættismönnum landsins heldur en nú er, ekki aðeins fyrir mistök í verkum, heldur einnig fyrir að koma ekki nálægt verkum, sem þeim hafa verið falin og þeir taka fyrir full laun af ríkinu.