15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

179. mál, kjötmat o.fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna það strax, að ég hef enn ekki lesið frv. þetta vel yfir. En það var út af ákvæðum 5. gr. frv., sem ég kvaddi mér hljóðs. Þar stendur:

„Læknisskoðun skal fara fram á öllum sláturfénaði, sem um getur í l. þessum, áður en slátrun fer fram, og mega ekki líða meira en 12 klst. frá þeirri skoðun og til slátrunar. Enn fremur skal heilbrigðisskoðun á öllu kjöti og innyflum af þeim sláturfénaði, sem um getur í l. þessum. fara fram áður en afurðirnar eru boðnar til sölu nýjar á opinberum markaði og enn fremur áður en kæling, frysting, söltun eða önnur verkun fer fram.“

Í þessu sambandi vil ég benda á, hvort það muni ekki reynast erfitt í framkvæmdinni að hafa dýralækni eða héraðslækni við höndina til athugunar á fénu, áður en slátrun fer fram. Ég held, að það muni reynast erfitt að hafa kjötmat bæði undan og eftir slátrun. Hins vegar er ég ekki svo fróður, að ég geti neitt fullyrt um það, hversu nauðsynlegt slíkt sé. Hingað til hefur verið látið nægja að stimpla skrokkana, og það er ekki fyrr en nú, að krafa kemur fram um það, að féð sé skoðað áður en því er slátrað. — Frv. fer nú til hv. landbn., og ég vildi benda á þetta atriði. Það þarf að athuga ákvæði 5. gr. nánar. Ef nauðsynlegt er að skoða féð fyrir og eftir slátrun, þá mun slíkt að mínum dómi hafa mikil óþægindi í för með sér, og finnst mér álitamál, hvort ekki eigi að láta nægja læknisskoðun eftir slátrun.

Það má vera, að ýmislegt fleira sé við frv. að athuga. Hv. landbn. mun fá málið til meðferðar, og ég mun kynna mér betur efni þess á milli umr. En ég rak augun í ákvæði 5. gr. frv., og ég vildi vekja athygli hv. þdm. á þessu nú.