23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

76. mál, ríkisborgararéttur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því í dag. fyrr á fundinum, að hæstv. forseti hafði þau ummæli, að hann mundi láta þau mál sitja fyrir um afgreiðslu, sem hæstv. ríkisstj. legði áherzlu á, að gengju fram, þar sem svo skammt væri eftir tíma til þingslita. Þessa afstöðu hæstv. forseta skildi ég mætavel. Nú skilst mér af þeim umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, að afstaða hæstv. dómsmrh. sé yfirleitt ekki kunn um það, hvort hann óskar eftir, að málið gangi fram. (Forseti: Þetta er frv. frá honum.) Það er sama. Það liggur ekki fyrir hans afstaða um það. Þess hefur verið óskað, að hans nærvera mætti vera hér, áður en umr. um málið lýkur.

Þetta mál hefur verið athugað í allshn. þessarar hv. d. En þó að slík athugun hafi farið fram er full ástæða til, að hv. allshn. Nd. fái líka fullkominn tíma til sinnar athugunar á málinu. Nú er 3. umr. þessa máls hér, og mér skilst, að ekki verði um marga deildarfundi að ræða, áður en þingslit fara fram nú. Ég hygg því, að skynsamlegast væri af þessari hv. þd. að hvíla nú málið, þar sem komið er nálægt þinglokum. Málið er tilbúið til þess að takast upp í byrjun næsta þings. Og ég get ekki séð. hvaða skaði það gæti verið fyrir málið, þó að svo væri gert. Tel ég því rétt, að hv. þd. vísi þessu máli til ríkisstj. Og ef hæstv. forseti telur þurfa, get ég lagt þá till. fram skrifl.