29.01.1948
Efri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

139. mál, útsvör

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það er ekki nema eðlilegt, að komi fram ýmsar raddir í d. út af þessu máli. Það hefur verið bent hér á atriði, sem frá sjónarmiði hvers þm. fyrir sig mættu betur fara heldur en er í frv. Frv. var lagt fyrir þingið, eins og mþn. gekk frá því og tók hún meira að segja fram, að félmrn. vildi gjarnan fylgjast með meðferð málsins hér í d. og að fulltrúi frá því ætti viðræður við n., sem málið fær. Það var líka búizt við því, þegar frv. kæmi fram, að það mundu koma fram ólík sjónarmið og kom það mér ekki á óvart og er ekkert við því að segja.

Út af því sem hv. þm. Barð. tók fram um það, að frv. væri seint lagt fyrir Alþ., þá vil ég segja það, að það er orðið áliðið á þing, ef að líkum lætur, en mþn., sem samdi frv., skilaði því ekki í hendur ráðuneytisins fyrr en í desembermánuði s. 1. Það var því enginn kostur á að leggja frv. fyrir þingið fyrr en nú í þessum mánuði.

Ég gæti vel trúað því, að svo gæti farið, og er í raun og veru ekkert sérstakt um það að segja, þó að ekki yrði hægt að afgreiða þessa löggjöf á því þingi, sem nú stendur yfir, a. m. k. ekki ef því væri lokið eftir svona 1 mánuð. En ég taldi rétt sjálfur að leggja frv. fyrir. jafnvel þó að liðið sé á þingtímann, svo að þm. gæfist kostur á því að athuga það strax, ef það kynni að þurfa nánari undirbúning og athugun af hálfu þingsins en þingtíminn leyfir, og meðfram af því, að málið kynni þá að vera betur undirbúið, ef það yrði ekki afgr. á þessu þingi, þegar næsta þing færi að fjalla um það. Hins vegar tel ég mikla nauðsyn á því, að framkvæmdar verði ýmsar breyt. á útsvarslöggjöfinni frá því sem nú er og því fyrr því betra að mínu áliti, og má ekki skilja orð mín á þá lund, að ég óski eftir því, að þetta frv. dagi nú uppi á þessu þingi, heldur skil ég vel, að þm. hafi margt að segja um þetta mál, og ef þingtími verður stuttur hér eftir, þá verður kannske örðugt að fá það í gegn á yfirstandandi þingi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara inn á einstök atriði, sem fram komu í ummælum þeirra þriggja þm., sem hér hafa minnzt svolítið á frv. við þessa fyrstu umr., en skal þó aðeins minnast á það, sem hv. 1. landsk. talaði um, að hafa fleiri gjalddaga á útsvarinu en gert er ráð fyrir í 24. gr. Ég er þeirrar skoðunar fyrir mitt leyti, að reynt sé að koma á fleiri gjalddögum en 4, eins og 24. gr. gerir ráð fyrir, sérstaklega á sumum stöðum eins og í bæjum og þéttbýli, þar sem fólkið er meira á flökti til og frá og þá meiri þörf á fleiri gjalddögum. Ég get því vel tekið undir þá athugasemd, að rétt sé að athuga þetta í n., sem málið fær, og að heimilað væri með reglugerð að setja ákvæði um að hafa þá fleiri og jafnvel þá mismunandi í kaupstöðum og úti á landi, eftir því sem ástæða þætti til. En í 24. gr. er gert ráð fyrir því, að gjalddagar séu 2–4. Ég tek alveg undir þá skoðun, sem fram kom hjá hv. 1. landsk. þm., að koma því skipulagi á sérstaklega hjá föstum launamönnum og jafnvel meðal launamanna yfirleitt, að greiðsla á útsvörum þeirra og opinberum gjöldum fari fram mánaðarlega, ef unnt er að koma því við. Það yrði þægilegra fyrir launtaka að inna þannig smám saman af höndum greiðslur á opinberum gjöldum, og með því fá sveitarfélögin fyrr greiðslur á opinberum gjöldum, en það hamlar mörgum sveitarfélögum, hvað útsvörin og skattar koma seint inn, svo að þau hafa orðið að leita eftir rekstrarláni um tíma af þeim ástæðum. Það yrði án efa heppilegra að koma því skipulagi á, að útsvörin kæmu sem mest mánaðarlega inn.

Hv. 1. landsk. minntist á, að ekki sé nógu vel frá því gengið í frv., að atvinnurekendur annist innheimtu á útsvörum hjá þeim mönnum, sem vinna hjá þeim. Þótt í 25. gr. séu um þetta nokkuð skýr ákvæði. þá mun ég ekki draga í efa, að það kæmi til athugunar að bæta þau eitthvað. En þó er tekið skýrt fram, að kaupgreiðendur ábyrgist, að útsvarsgreiðendur hjá þeim, sem þeir greiða kaup, standi skil á útsvari sínu. Að vísu tel ég það nauðsynlegt úti á landi, að sveitarfélögin geri kröfu til þess, að atvinnurekendur haldi eftir af kaupgjaldi hjá mönnum til þess að greiða útsvörin með, og ég tel, að atvinnurekendum sé skylt að framkvæma þetta.

Hv. þm. Barð. fannst það hart að gengið að leggja þá skyldu á atvinnurekendur að innheimta eða draga frá kaupgjaldi verkamanna hluta af útsvarinu. Það ætti ekki að verða erfitt, ef gengið er frá því með góðri samvinnu milli atvinnurekenda annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, en það yrði mikið hagræði fyrir sveitarfélögin, sem gjöldin fá, og verkamenn, sem hjá atvinnurekendum vinna. að geta greitt gjöld sín smátt og smátt, um leið og kaupgreiðsla fer fram.

Hv. þm. Barð. minntist á það, að í 13. gr. frv. væri nú gert ráð fyrir því, að l. heimiluðu að hluta af útsvarinu mætti taka með því að leggja ákveðna hundraðshluta á rekstur fyrirtækja. Það er rétt, 4. liður gerir ráð fyrir þessu, en eins og sami þm. tók fram, þá hefur tíðkazt í mörg ár, að fleiri og fleiri sveitarfélög hafa miðað útsvörin að einhverju leyti við rekstur fyrirtækja. Ég skal ekki neita því, eins og hv. þm. Barð. tók fram, að í einstökum tilfellum, þar sem reksturinn er mikill að krónutali, er ágóðinn lítill, og þá gæti það komið hart niður. Mér finnst, enda þótt eigi að vera eðlilegt svigrúm, að ekki megi leggja á fyrirtækin án tillits til rekstrarafkomu. En það er ekkert hér í frv. um þetta, enda er það algerlega lagt á vald niðurjöfnunarnefnda að ákveða, hve mikill hluti af hundraðsgjaldi yrði lagður á atvinnurekendur miðað við rekstur þeirra, ef svo býður við að horfa. En ég held, þótt það sé orðið til, sem ekki er getið í eldri l., að útsvarsálagning megi miða við reksturinn, þá eigi ekki að breyta því frá því, sem áður var, og ég hygg, að ekki sé ástæða til að halda, að 1. banni það, heldur miði að einhverju leyti að því, að útsvörin séu miðuð við rekstrarafkomu þeirra fyrirtækja, sem þau eru lögð á.

Ég vildi aðeins nefna þessi dæmi af nokkru, sem fram kom í athugasemdum hjá þessum þremur þm., sem hér hafa tekið til máls.

Ég sé ekki ástæðu fyrir mitt leyti að fara inn á höfuðbreyt. í frv., en það er skipting á útsvörum milli heimilissveitar og atvinnusveitar, og þarf það sérstakrar íhugunar við hér á Alþ. og í félmrn., því að mildar umkvartanir hafa komið fram út af þeim reglum, sem gilt hafa hingað til um skiptingu útsvars milli heimilissveitar og atvinnusveitar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar það, sem fram hefur komið í umr. til þessa, en þykir næsta eðlilegt að taka undir það, sem 1. landsk. og hv. þm. Barð. sögðu. að hér sé um málefni að ræða, sem þurfi rækilegrar íhugunar við. Hér er einnig um viðkvæmt mál að ræða, eins og skattalöggjöfin er yfirleitt og því er meiri nauðsyn á að íhuga það nákvæmlega og gaumgæfilega, heldur en að afgreiða frv. í skyndi.