20.11.1947
Neðri deild: 21. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2374)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hv. frsm. þessa máls, sá 1. og 2.. hafa sýnt mér þann sérstaka heiður að snúa máli sínu nær einvörðungu að minni ræðu, er þeir hafa verið að verja frv. sitt. Mér er því skylt að svara þeim að nokkru, og mun ég fyrst svara þeim, er fyrr talaði og þeim, sem merkari maðurinn er um alla málsmeðferð og annað. sem sé hv. 2. flm., 1. þm. Skagf. (StgrSt).

Þessi hv. þm. hóf mál sitt á því að láta í ljós mikla og ákveðna undrun yfir því, hversu lítil rök andmælendur þessa frv. hefðu fram að bera. Það er að sjálfsögðu hans einkamál, hvað eru rök og hvað eru ekki rök hjá okkur, sem andmælt höfum frv. En á það þykir mér nú rétt að benda, að það er þó í fyrsta lagi skylda þeirra, sem mál flytja hér á þingi, að færa einhver jákvæð rök fyrir gildi þeirra. Og ég held nú þegar rækilega eru raktar ræður hv. flm., og þá einnig ræðan sú hin merkari, sem hv. 2. flm. frv. flutti, þá muni nú mörgum virðast að tiltölulega snautt sé af jákvæðum rökum í þeim ræðum fyrir þessu frv. og að mjög lauslega hafi verið sannað, svo að ekki sé óvægar sagt, að einhverja nauðsyn hafi borið til að flytja frv. um að lögfesta það, sem hér er lagt til, að lögfest verði.

Næst minntist hv. 2. flm. á það, að hann vildi fyrir hvern mun nota heilbrigða skynsemi, og þess vegna væri hann nú með þessu máli, en að það að vera gegn því væri ofstæki, vanþekking og ekkert annað. Ég ætla nú ekki mikið að ræða við þennan hv. þm. um það, hvort rétt sé að láta heilbrigða skynsemi ráða í þessu máli eða öðrum. Ég hygg, að það verði aldrei neitt deilumál. að heilbrigð skynsemi er það, sem á að ráða í öllum málum. En hins vegar er það ekki beint vottur um neitt sérstakt lítillæti hjá hv. 2. flm., þegar hann slær sínum eignarrétti óskorað á hina heilbrigðu skynsemi, sem sé að allt sem hans skoðun er á málinu, sé hin heilbrigða skynsemi, en dómar allra annarra séu byggðir á ofstæki, vanþekkingu og algerðri andstöðu við heilbrigða skynsemi. Ég læt hv. 2. flm. alveg um þann skoðunarmáta, sem lýsir sér í þessum málflutningi. Við erum í raun og veru sammála um það, hv. 2. flm. og ég, að í hverju máli eigi heilbrigð skynsemi að ráða. En því er skoðanamunur á málum, að ekki kemur öllum saman um, hvað sé hið rétta og hvað sé hið heilbrigða. En flestir eru svo gerðir, og ég vil ætla það fyrirfram um þennan hv. þm., að þeir vilja ekki slá eignarhaldi á allt það, sem er skynsemi. Ég get ekki betur séð með minni takmörkuðu skynsemi. Og skynsemi þessa hv. þm. er líka takmörkuð. Og svo verðum við að hlíta þeim úrslitum, sem verða gerð af hálfu meiri hlutans, eftir skoðun hans á málinu. En það er ekki samboðið sæmilega greindum mönnum að slá föstu, að þeir einir ráði yfir því, sem heilbrigt er og rétt hvað skynsemi snertir, en andstæðingurinn ekki yfir neinu. — Þetta var smáathugasemd út frá sjónarmiði hv. 2. flm. frv., að hann einn réði yfir heilbrigðri skynsemi. Ég sem sagt vefengi eignarrétt hans á henni og tel, að fleiri hafi rétt á að halda fram skoðunum sínum og að fara eftir því, sem þeirra takmarkaða skynsemi segir rétt vera.

Næst kom hv. 2. flm. að því, að bindindismenn, sem hann vildi nú segja margt gott um, væru í raun og veru bezta fólk, en hefðu stigið herfileg víxlspor. Ég get ekki látið hjá líða að benda á einkennilegan tvísöng í ræðum hv. þm. varðandi bindindismenn. Annars vegar var hv. 2. flm. að tala um, að bindindismenn væru margir sérstakir ágætismenn. En hins vegar tók hann fram oftar en einu sinni, að skoðanir þeirra væru byggðar á ofstæki og vanþekkingu og till. þeirra bindindismanna hefðu orðið til óþurftar. Þetta er einkennilegur tvísöngur, annars vegar að segja: Þetta er gott fólk, sem hefur látið margt gott af sér leiða. En hins vegar: Þeirra skoðanir eru ofstæki, heimska og þeir hafa stigið herfileg víxlspor, sem hafa verið til óþurftar fyrir þjóðina. Ég hef stundum veit því fyrir mér, hvernig gæti staðið á þessum tvísöng. Ég hef heyrt hann hjá mörgum öðrum mætum mönnum, eins og þessi hv. þm. er. Og ég hef einnig heyrt hann hjá hv. 1. flm. þessa frv. (SB). sem ég tala alls ekki um í sömu andránni og hv. 2. flm. Hvernig ætli standi á þessum tvísöng. Ég held, að við hefðum gott af að gera okkur grein fyrir, hvað það er, sem í raun og veru skilur okkur bindindismenn og formælendur hófdrykkjunnar og formælendur hinnar frjálsu verzlunar með áfengi. Ég held, að það sé mjög gott að gera sér grein fyrir því. Og því fremur hygg ég, að það sé gott þar sem fram komu ein mjög athyglisverð ummæli hjá hv. 2. flm. frv. Hann sagði: „Bindindismenn líta yfirleitt á okkur hófdrykkjumennina sem þá skaðlegustu menn í þjóðfélaginu, skaðlegri en ofdrykkjumenn.“ Hann tók sig þó á og sagði: „Reyndar sagði hv. 6. þm. Reykv. ekki þetta, en ég held að hann hafi meint það. Mér fannst skína í það.“ Hvers vegna var hv. 2. flm. að hafa þessi ummæli, þegar hann tók fram, að ég hefði ekki sagt þetta? Það má kannske fá skýringu á því með því að athuga, hvað skilur okkur bindindismenn og bannmenn annars vegar og hófdrykkjumenn og andbanninga hins vegar. Ég skal lýsa því með nokkrum orðum, hvað ég tel rök bindindismanna og um leið bannmanna. Rökin eru ekki þau, að hv. 2. flm. þessa frv. fái sér við og við í staupinu á mjög hóflegan hátt. eins og hann ætíð gerir, að ég hygg. A. m k. hef ég aldrei séð hann neyta áfengis í þeim mæli að hann þess vegna afræki störf sín eða valdi neinum misfellum. Sem sagt, ég tel hann hófdrykkjumann í fyllsta máta. Og ég tek ákaflega skýrt fram, að ef ég hefði aldrei þekkt aðrar afleiðingar áfengis eða aðra meðferð áfengis en líka því, sem á sér stað hjá þessum hv. þm., þá væri ég ekki í sveit þeirra manna, sem telja skyldu sína að berjast fyrir bindindi og banni. En það eru því miður aðrar hliðar á þessu máli. Því miður eru áfengismálin hjá okkur stór þjóðfélagsleg vandamál. Og ég veit vel, að hv. 2. flm. viðurkennir þetta með mér. Það er mér ákaflega á móti skapi að vera með nokkrar viðkvæmnislýsingar á þessu ástandi. Það þarf ekki til. Þarna tala verkin. Og það þarf ekki heldur að nefna ákveðnar tölur eða dæmi. Við vitum allir, að óhófleg nautn áfengis er mjög mikið þjóðfélagslegt vandamál. Og ég veit, að hv. 2. flm. og ég, við deilum ekki um það, að þetta er vandamál, sem við verðum að setja við hliðina á sjúkdómum sem þjóðin heyir baráttu við, — vandamál, sem stendur einhvers staðar við hliðina á berklaveiki, kynsjúkdómum eða einhverju öðru slíku, sem allir heilbrigðir menn eru sammála um, að gera eigi þjóðfélagsleg og félagsleg átök til þess að vinna gegn. Sem sagt, upphafið er þetta: Ég sé ofdrykkjuna í landinu sem gífurlegt þjóðfélagslegt vandamál, sem á að vinna gegn, bæði með frjálsum samtökum einstaklinga og með átökum þjóðfélagsheildarinnar, átökum ríkisvaldsins. Svona langt veit ég, að við hv. 2. fim. og ég erum sammála. Þá fer ég að gera mér grein fyrir því, á hvern hátt ég sem einstaklingur get unnið gegn þessu þjóðfélagsmeini. Ég hef ekki sjálfur séð, að ég gæti orðið þar að verulegu liði nema með því að hafna sjálfur drykkjusiðunum. Ég hef álitið það skynsamlega reglu fyrir mig sem einstakling. Ég hef ekki séð, að ég hefði neitt að græða á því að taka upp drykkjusiðina. En ég hef enn fremur talið, að með þessu eina móti, að hafna drykkjusiðunum, gæti ég orðið liðtækur þjóðfélagsþegn í baráttunni gegn þeirri meinsemd, sem ofdrykkja áfengis er. Ég hef sem sé ekki trú á því, að ég gæti reynt að hafa áhrif á þá menn, sem hafa fallið fyrir ofurborð vegna áfengisnautnar, með því að segja við þá: Ég er hófdrykkjumaður, vertu hófdrykkjumaður líka. — Ég hef ekki trú á þessu. Ég hef sem sagt, og þykir það góð regla fyrir mig, bindindi. Og þá álít ég þá góðu reglu fyrir þjóðfélagið bindindi, og það þýðir að viðurkenna bindindi í löggjöf þjóðarinnar, koma á algeru banni. Hv. 2. flm. hefur þarna önnur sjónarmið en ég. Hann vill að vísu vinna á móti ofdrykkjunni, en hann vill segja við ofdrykkjumanninn: Taktu mig til fyrirmyndar, taktu við og við glas í hófi. — En hefur honum tekizt að beita þessari röksemd við nokkurn mann? Hefur honum tekizt að tala nokkurn mann með þessum orðum frá ofdrykkjunni og til hófdrykkju? Bindindissaga þjóðanna segir okkur frá því, að snemma á síðustu öld var ráð hófdrykkjumannanna þaulreynt. Þá voru mynduð hófdrykkjufélög um allan heim. til þess að kenna mönnum að drekka í hófi, leiða menn til þess að drekka í hófi. Þessi félög lifðu og störfuðu í nokkra áratugi. Þau hurfu, og hin algera bindindishreyfing kom í staðinn.

Nú kem ég að spurningunni: Hvers vegna er þessi tvísöngur hjá hófdrykkjumönnunum? Hvers vegna segir hv. 2. flm.: „Þið bindindismenn eruð margir góðir menn, en ykkar skoðanir eru byggðar á ofstæki og vanþekkingu“? Ég held, að á því sé sálræn skýring. Ég held, að það sé þetta, að þessir menn, sem svo mæla, þeir finni til þess, sem postulinn lýsir með svo ágætum orðum: Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki, en hið vonda, sem ég ekki vil, það geri ég. — Þeir vilja vinna móti ofdrykkjunni, en finna að þeir eru ekki færir um það, finna og viðurkenna, að þeir eru á valdi siða, sem leiða af sér með þjóðinni stórkostlegt þjóðfélagslegt vandamál. Af þessu hygg ég, að þetta ofstæki í garð okkar bindindismanna stafi. Ég hef oft verið með kenndum mönnum, ég hef talið það skynsamlegt til að kynnast þeim. En alltaf hafa þeir í sínu ölæðisrövli, verið að láta lítilsvirðandi orð falla í garð bindindismanna. Ég hef litið á þetta sem ómæt ómagaorð. Það er aðeins þáttur af þessum mönnum, þegar þeir eru í slíku ástandi. Ég hygg, að það skýrist út frá lögmálinu, að þeir viti að það góða, sem þeir vilji, það geri þeir ekki. Þeir hafa ekki viljað hafna drykkjusiðum til að vera hlutgengir menn í baráttunni gegn ofnautn áfengis.

Hv. þm. bar mér á brýn í öðru orðinu, að ég teldi hófdrykkjumenn verri en ofdrykkjumenn. Hann sagði, að ég hefði ekki sagt þetta berum orðum, en bindindismenn væru vanir að segja það og ég meinti það. Ég vil svara því, að þetta er hrein og bein fjarstæða. Ef ég á að flokka landsfólkið í þrjá flokka, bindindismenn, hófdrykkjumenn og ofdrykkjumenn, þá verð ég að segja að þegar um skoðanir er að ræða, þá strika ég yfir ofdrykkjumenn eins og sjúklinga, sem séu sýktir af slæmum siðum, sem haldið er uppi í þjóðfélaginu. Skoðanaátökin eru þá milli mín sem bindindismanns og hv. 2. flm. sem hófdrykkjumanns. Að því leyti erum við andstæðingar, og þá er eðlilegt, að í odda geti skorizt, þegar við deilum. En það get ég sagt honum, að væri engin áfengisnautn til nema sú tiltölulega hóflega áfengisnautn, sem hann viðhefur, þá væri engin skipulögð starfsemi í heiminum gegn áfengisnautn. Áfengisnautnin væri þá einkamál hvers og eins. Hún væri kannske eitthvað neikvæð fyrir þann, sem áfengisins neytti, en hún væri ekki þjóðfélagslegt vandamál. Ég get sagt honum, að einu sinni var einn af kunnustu bindindismönnum Dana spurður að því, hvers vegna bindindismenn væru ekki á móti tóbaksnautn, eins og þeir væru á móti áfengi. Þessi kunni bindindismaður svaraði og sagði: Þegar ég sé að einhver karlmaður fer að draga konuna sína á hárinu vegna tóbaksnautnar, þá skal ég hefja sömu baráttu gegn tóbaksnautn og gegn áfengi. — Þetta er mergurinn málsins. Annað er gífurlegt þjóðfélagsvandamál, en hitt er einkamál. Afleiðingarnar koma ekki eins hastarlega niður á öðrum eins og þær gera um áfengisnautn. Sem sé, skoðun mín er ekki sú, að hófdrykkjumaðurinn sé eitthvert afhrak, hættulegur, ofstækisfullur, heimskur o. s. frv., heldur, að hann hafi ekki tekið rétta afstöðu til þessa mikla vandamáls, sem ofdrykkjan er og sé því ekki hlutgengur maður í baráttunni gegn því, nema hann taki þá stefnu að útrýma áfenginu. Ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum andstæðinga minna, en ætla að fara eftir því, sem ég með minni takmörkuðu skynsemi tel sannast og réttast. Ég held að hv. 2. flm. ætti að sálgreina sjálfan sig og vita, hvort ofstæki hans í garð okkar bindindismanna er ekki af þessu, að hann er ekki í samræmi við það sem hann vill.

Þá kom langur kafli í ræðu hans, þar sem hann breiddi sig yfir það, að ég hefði játað, að ég viðurkenndi að með bannl. hefði komið alls konar ófarnaður í bindindismálum inn í landið. Þetta þótti mér ákaflega athyglisvert, ekki sízt af því, að greindur og sanngjarn maður eins og hann skyldi seilast til þess að rangfæra viljandi það, sem ég hef haldið fram. Sjálfsagt veit hann það eins og að tvisvar tveir eru fjórir. hvað það var, sem ég sagði. Ég rakti sögu áfengismálanna hér á landi og lýsti þeim í stórum dráttum svo: Frá því laust fyrir aldamót og fram til 1918, og þó öllu fremur fram til 1922. var fylgt í höfuðdráttunum stefnu bindindismanna í landinu, settar fleiri og fleiri skorður um meðferð alls áfengis og á sama tíma fór áfengisnautn þverrandi. Þetta tvennt gerðist á sama tíma: Meiri skorður í löggjöfinni, minni drykkjuskapur, minni vandræði. Ég vil leyfa mér að álykta, að þar á milli sé rökrænt samband, sem sé að því meiri hömlur, sem löggjöfin setur um meðferð áfengis, því minna sé drukkið. Ég benti á, að 1918 og sérstaklega 1922 hefði verið snúið af braut bindindismanna. Þá hætti þeirra stefna að ráða. Þá var farið að brjóta niður hömlurnar. Fyrst kom læknabrennivínið, síðan Spánarvínið, loks sterkir drykkir. Sem sé, á þessu árabili hefur verið gengið til baka. Það hafa verið rifnar niður fleiri og fleiri hömlur, sem löggjöfin setti um sölu og meðferð áfengis. Áfengið eykst, vandamálin vaxa, ofdrykkja meiri. Þetta veit ég, að hv. þm. mátti vel skilja. og hann gat vei skilið mínar röksemdir. Ég sagði: Það gerist samtímis, að skorður, sem settar eru með löggjöf um áfengismál, verða færri og áfengisbrot aukast. Ég leyfði mér að álykta, að rökrænt samband væri hér á milli. En í stað þess að berjast við þessa skoðun. þá segir þessi einkaréttarhafi heilbrigðrar skynsemi. að það séu mín orð, að með bannl. hafi ástandið versnað. Þetta er ekki samboðið hv. 2. flm. frv., 1. þm. Skagf. Nei, komi hann með sína heilbrigðu skynsemi, fyrst hann hefur einkarétt á henni, og sanni það að með vaxandi hömlum vaxi áfengisnautn. Þetta eru rökin fyrir minni skoðun.

Svo fór hann að segja sögu um, að þrjátíu Mývetningar hefðu farið á fyllirí. Mikil skelfing var hann ánægður, þegar hann var að segja frá þessu. „En hvað kemur þetta kláðamálinu við?“ sagði maðurinn. Þrjátíu menn fóru á fyllirí fyrir þrjátíu árum, ergo er ég með áfengu öli 1947. Svo voru önnur rök, sem er enn þá meira gaman að. Hv. þm. segir, að menn geti drepið sig á kjötáti. Ég verð að segja hv. þm. frá þessum rökum. Ég verð að hryggja hv. þm. með því að segja honum frá. að fyrir nokkrum árum var einn skoðanabróðir hans enn snjallari í rökfærslu en hann. Hann var að flytja ræðu og hélt á blýanti í hendinni. Hann sagði: Ég get drepið mig á blýanti. Því í ósköpunum stofnið þið ekki bindindisfélag á móti því að gleypa blýanta? — Þessi var enn þá snjallari. Sem sé, báðir fóru með fjarstæðu. Báðum sást yfir það, að ofdrykkjan er stórt þjóðfélagslegt vandamál. En það er ekki þjóðfélagslegt vandamál, að menn hafi tekið upp á því að gleypa blýanta og ekki heldur, að menn leggi sér um of kjöt til munns. Það væri miklu frekar skiljanlegt frá sjónarmiði þessa hv. þm. sem forgöngumanns íslenzkra bænda, að hann áliti, að ekki væri etið nóg kjöt. Ég skal viðurkenna, að það eru til menn sem álíta að kjötát hafi óheppileg áhrif á heilsuna, en hér gegnir öðru máli. Sama máli gegnir um tóbaksnotkun eða svipuðu máli eins og með hóflega notkun áfengis. Það er mál einstaklinganna. Það er ekki mál, sem bitnar á nágrönnum þeirra eða þjóðinni og verður ekki til þess að menn dragi konuna sína á hárinu. Þetta er of léttvæg gamansemi hjá hv. þm., að beita svona ómerkilegu orðagjálfri í sambandi við svo mikið alvörumál. Það er ekkert sambærilegt með kjötáti og áfengisnautn og enga ályktun hægt af því að draga, sízt fyrir mann, sem hefur einokunaraðstöðu á heilbrigðri skynsemi. Hann var í þessu sambandi að leiða fram eitt vitni til að sanna þessa skaðlegu notkun kjöts. Ég kann ekki við að nefna þennan mann, sem hann nefndi. En því í ósköpunum fór hann ekki inn í Kleppsvík og leitaði sér að vitnum þar? Í því stóra húsi hefði verið hægt að finna marga menn eins og þennan mann, sem hann leiddi fram sem vitni fyrir því, að álíka skaðlegt væri að neyta kjöts og áfengis.

Hv. 2. flm. kom næst að því, að það væri hið stóra feil bindindismanna, sem stafaði af ofstæki og vanþekkingu, að þeir segðu: Þú skalt ekki. Hann sagði, að þetta væri aðferð, sem væri notuð í einræðislöndum, en ekki væri hægt að nota hana í lýðræðislöndum. Skelfing eru þetta ódýr rök hjá manni með heilbrigða skynsemi. Ég vil biðja hann að athuga, hvað mikið mundi verða eftir af íslenzkri löggjöf, ef öllu væri kippt burt, sem byggt er eftir formúlunni: Þú skalt ekki. Ég vil biðja hann að athuga, hvort þetta er sérstakt einkenni fyrir einræðislönd. Svona vitleysu eiga menn ekki að segja. Löggjöf hlýtur að verða byggð bæði á boði og banni. Það verður ekki hjá því komizt, að hvert réttarríki bannar ákaflega margt. Spurningin er svo, sem ég hef drepið á áður, þegar löggjafinn er að banna eitthvað, hvort hann er þá í nógu góðu samræmi við réttarmeðvitund fólksins. Það er viðurkennt seint og snemma á öllum tímum, að þar ber löggjafanum að gæta sín, því að bönn og boð mega ekki ganga út yfir það, sem þjóðin viðurkennir. Við getum ekki komizt hjá því, að einhver lítill minni hluti kunni að vera andvígur boðum og bönnum löggjafans, en það þarf á hverjum tíma að tryggja, að nægilega sterkur meiri hluti nægilega sterk réttarmeðvitund þjóðarinnar sé á bak við hvert bann, því að þá er bannið fyrst í samræmi við grundvallarreglur lýðræðisins. Það þarf ekki að vitna í einræðislönd að þessu leyti, hvort sem heldur snertir áfengi eða innflutning á sauðfé, svo að nefnt sé eitthvert dæmi, sem hv. þm. kannast við. Sá sem hefur einkarétt á heilbrigðri skynsemi, á ekki að koma með svona röksemdir. Mikil lifandi skelfing er fjarri því að vera samboðið svo mætum og gáfuðum manni sem hv. þm. er að fara út í svona málflutning, og hann hefði ekki heldur hrakizt út í það, ef hann hefði ekki skort rök. Hans ólán er að hafa tengt nafn sitt við mál, sem skortir rök, og fyrir það hefur hann leiðzt út í svona lagaðan málflutning.

Þá kom hann með eitt dæmi um ofstæki og hreina heimsku bindindismanna, en það var að þeir skyldu ekki vilja leyfa að selja áfengi í smærri skömmtum en þriggja pela flöskum. Þarna rekast á sömu grundvallarsjónarmiðin. Hann er sjálfum sér samkvæmur í þessu. Hann vill frjálslega meðferð áfengis, minni hömlur á meðferð þess af hálfu löggjafarvaldsins. En þó ætla ég, að hann viðurkenni, ef hann hugsar sig um, að á þeim árum, sem l. leyfðu að selja brennivín í staupatali víð búðarborð, þá var ástandið stórmiklu verra en eftir að það var bannað. Ég bið hann að hugsa um þetta vel, áður en hann slær föstu, að heilbrigð skynsemi mæli með því að segja: Það á að selja brennivínið í smáskömmtum. — Ég held, að þetta sé svo fjarri öllum sanni hjá hv. þm., að hann ætti að láta vera að slá föstu í nafni heilbrigðrar skynsemi að það sé ekkert nema ofstæki og hrein heimska að hafa ekki brennivín á boðstólum í smáskömmtum í flöskum og jafnvel í staupatali.

Eitt var það, sem hann lagði mikla áherzlu á og þótti mér mjög vænt um að heyra það. Hann hélt fram og sagði, að ef hægt væri að sannfæra sig um það, að ölfrv. hans mundi leiða til vaxandi áfengisnautnar unglinga, þá vildi hann falla frá skoðun sinni og snúast gegn frv. Þetta er drengilega mælt, og dreg ég ekki í efa, að alvara standi á bak við. Eina röksemd flutti hann sem sönnun fyrir því, að unglingar mundu ekki drekka hið áfenga öl. Rökin voru þau, að ölbragð væri andstyggilegt. Unglingum þætti ölbragð vont, og þess vegna mundi ekki vera nokkur hætta á að þeir byrjuðu á að neyta bjórs. Þetta er veik röksemd. Hvers vegna byrja menn á að neyta bjórs, fyrst bragðið er vont? Mér er sagt, að öllum þyki áfengi vont í fyrsta skipti, sem þeir bragða það. En það er ekki bragðið, sem ræður, það eru áhrifin, enda mun það yfirleitt vera svo, að menn venjast hverju því, sem þeir neyta, ef það hefur notaleg áhrif á þá líkamlega. Að hugsa sér þá fjarstæðu, að unglingarnir mundu ekki, þegar þeir sjá bjórsins neytt á borðum foreldra, bragða líka, þó að bragðið væri fyrst í stað andstyggilegt, og fara þá að venjast því og þykja áhrifin góð. Það er meiri fjarstæða en mér finnst hv. þm. geta haldið fram.

Ég hef áður vitnað í ýtarlega ræðu, sem landlæknir flutti 1932 í umr. um ölbruggun. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa stuttan kafla úr þessari ræðu, sem fjallar einmitt um þetta atriði. Þá getur hv. 2. flm. barizt við röksemdir landlæknis í næstu ræðu sinni. Mér þykir leiðinlegt, ef hann gengur út úr d. og vill ekki hlusta á þennan kafla. Hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt skýrslum skólalæknanna í Berlín drekka 4/5 barnanna þar meira og minna, 39% af börnunum þar drekka einn bjór á viku og 11% einn snaps á viku. 33% af börnunum drekka bjór daglega og 2–3% snaps á hverju degi, enda segja skólalæknarnir, að drykkjuskapur barna sé þjóðarsiður. Í Gera fór einnig fram slík rannsókn á skólabörnum. 515 drengjum og 554 stúlkum. Reyndist þar svo, að aðeins 4 drengir og 8 stúlkur höfðu aldrei smakkað áfengi. 235 drengir af þessum 515 neyttu víns og 109 bjórs daglega. Af stúlkunum neyttu 237 víns og 130 bjórs á degi hverjum. Í München fór rannsókn fram á 4562 skólabörnum. 13,1% voru í bindindi. 55,3% drukku að staðaldri, 6.4% voru snapsdrykkjumenn og 4,5% reglulegir ofdrykkjumenn. Í Nordhausen var rannsakaður drykkjuskapur barna í fyrsta og fjórða bekk barnaskóla þar. Í 1. bekk voru 49 sjö ára börn. 38 drukku vín. 40 þeirra snaps og öll drukku þau bjór. Í 4. bekk skólans voru 28 stúlkur, 27 þeirra drukku vín, 24 snaps og allar bjór. Í Schönberg, sem er útborg við Berlín, fór fram rannsókn við drengjaskóla og stúlknaskóla þar. 56,2% af drengjunum drukku bjór að staðaldri. 30% önnur vínföng. Og af stúlkunum drukku 48,7% bjór að staðaldri og 32% önnur vínföng. Rannsókn í menntaskólunum í Þýzkalandi leiddi það í ljós, að meira en 50% af 11–12 ára börnum neyttu áfengis daglega.“ Síðan bætir landlæknir við:

„Ég vona, að þetta nægi til að sýna fram á, að það er engin fjarstæða að minnast á drykkjuskap barna í þessu sambandi. Og ég geri ráð fyrir, að bindindisþekking sé á svo háu stigi í þessu landi, að hv. þm. sé að minnsta kosti ljóst, hvílíkan voða er hér um að ræða, þar sem fjöldi kornungra barna neytir áfengis daglega. að ekki sé minnzt á þau ósköp, þegar 4,5% þeirra eru beinir ofdrykkjumenn, eins og í dæminu frá Þýzkalandi, og ræði ég því ekki þá hlið málsins frekar.“

Ég vil biðja hv. þm.m ef hann hefur ekki heyrt þessa skýrslum að kynna sér hana, (stgrst: Ég hef heyrt hana svo oft, að ég kann hana.) Þá liggur fyrir honum að afsanna hana og sýna fram á, að þetta sé rangt, því að ef þetta er rétt, þá er það svo eftir eigin orðum hv. flm., að þá á hann að vera á móti frv., sem hann er flm. að. Og benda vil ég honum á, að landlæknir tekur skýrt fram, að þessi skýrsla er tekin úr riti lækna, sem engin ástæða er að væna um bindindissemi, eins og landlæknir kemst einhvers staðar að orði.

Ég skal þá láta lokið svari mínu til hv. þm. hvað þær almennu röksemdir snertir, en mér þótti einkennilegt að heyra í lok ræðu hans, að það kom í ljós, að hann var andvígur ýmsum meginatriðum frv. T. d. vill hann ekki ganga út frá því, að þetta eigi endilega að vera einkafyrirtæki, sem ræki bruggunina. Hann vill ekki ganga út frá því, að sú álagning, sem gert er ráð fyrir í frv., sé hæfileg, og yfirleitt var hann meira og minna andvígur sjálfri uppbyggingu frv. Hvað hefur hent þennan einkarétthafa heilbrigðrar skynsemi að skrifa upp á frv., sem hann var í verulegum atriðum andvígur og algerlega andvígur, ef honum er sýnt fram á, að það gæti orðið til að auka áfengisnautn unglinga? Og hann hefur ekki reynt að afsanna það með öðru en bragðinu, að það gæti leitt til aukinnar áfengisnautnar unglinga. Ég bíð eftir, að hann hreki þessa skýrslu, sem ég hef lesið upp og landlæknir Íslands hefur samið eftir þýzkum stéttarbræðrum sínum.

Þá kem ég að hv. 1. flm., og ég skal strax taka fram, að ég hef hann í allt öðru númeri en hv. 2. flm. Hv. þm. A-Sk. (PÞ) hefur þegar lýst hans ræðu, að það hafi verið orðafroða, og henni verður ekki betur lýst með öðrum orðum nema að bæta því þá við, að í þeirri froðu var mikill vindur, geysimikill vindur. Og nú skulum við athuga nokkuð einstök atriði úr þessari orðafroðu 1. flm.

Hann byrjaði á því að reyna að sýna fram á, að það væri nú engin rökleysa, sem stendur í upphafi grg. fyrir frv., að frv. miðaði að því að draga úr hinni miklu neyzlu sterkra drykkja og hins vegar, að það miðaði að því að auka tekjur ríkissjóðs. Ég hef sagt um þetta, að frv. og röksemdirnar fyrir því byrjuðu á rökleysu. Hv. 1. flm. vildi nú reyna að andmæla þessu, en flækti sig aðeins enn meir í eigin neti, í neti þeirrar rökleysu, sem hann hefur haldið fram. Hann komst nefnilega að þeirri niðurstöðu, að það væri vel hægt að hækka verð á sterkum drykkjum, en ekkert er um það í frv. og enginn getur bannað að hækka verð á sterkum drykkjum, þótt ekkert áfengt öl sé í landinu. Þar á milli er ekkert rökrænt samband, heldur er þetta eintóm vitleysa. Það getur verið, að einhvern tíma verði hækkað verð á sterkum drykkjum, og væri það vel farið, en ekkert rökrænt samband væri á milli þess og þessa frv. Það verður aðeins að líta á það, hvort líklegt sé, að hið áfenga öl dragi verulega úr neyzlu sterkra drykkja og minnki þannig um leið tekjur ríkissjóðs verulega, miðað við það verð, sem á hverjum tíma er á sterkum drykkjum. — Ég held, að hv. 1. flm. hafi nú fundið, að þessi röksemd var eitthvað veik, og þá flækti hann sig enn meir og sagði: „Það er enginn skaði skeður, þótt tekjur ríkisins í heild minnki við þessar ráðstafanir.“ Þetta er hárrétt. Það væri síður en svo skaði. Það væri gróði, ef tekjur ríkissjóðs minnkuðu af áfengissölu. En þá verður mér að spyrja hv. þm.: Hvað er þá orðið úr næstu röksemd, að með frv. eigi að afla tekna til þess að reisa þrjú sjúkrahús og aðrar líknarstofnanir? Niðurstaðan er þá sú, að ekkert ynnist á fyrir þessar stofnanir. — Nei. hv. 1. flm. átti að viðurkenna í allri auðmýkt, að grg. er byggð á rökleysu. Það er ósamrímanlegt að ætla að draga úr sölu áfengra drykkja og ætla að auka tekjur ríkissjóðs. Þetta kaus hann ekki, heldur flækti sig meir og meir í vitleysunni og endaði með því að komast nánast að þeirri niðurstöðu, að frv. gæti vel verið leið til þess, að tekjur ríkisins minnkuðu.

Þá blés sterkur vindur, þegar hann hafði þessu lokið, og í vindinum þaut þetta: Ég hafi verið að fleipra og fjasa um ræðu landlæknis, en aldrei vitnað í hana. Ég var hvorki að fleipra né fjasa um ræðu landlæknis, heldur sagði frá henni og skoraði á flm. að sýna þann manndóm að leita eftir þeim rökum, sem þar eru fram lögð, svo að hann gæti í sinni framsöguræðu fyrir sínu frv. hrakið þær staðhæfingar, sem þar eru fram settar. En flm. kom upp um sig, því að hann hefur sannað, að honum kemur ekki til hugar að lesa þau gögn, sem honum er bent á í málinu — vill ekki meta og vega rökin. En ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa nokkurra kafla úr þessari ræðu fyrir hv. flm., og gæti hann þá beitt rökvísi sinni að því að rífa þann kafla niður. Með leyfi hæstv. forseta segir svo í ræðunni:

„Við Íslendingar drekkum mjög lítið af öli miðað við aðrar þjóðir, 2,45 l. á mann á ári og eingöngu óáfengt öl. Vín drekkum við sem svarar 1,52 l. á mann á ári. Danir drekka aftur á móti afar mikið af öli, 62,7 l. á mann á ári, eða um 15 sinnum meira en við og þó er víndrykkja í Danmörku svipuð og hér, eða 1,49 l. á mann á ári. Þjóðverjar eru miklir öldrykkjumenn eins og Danir, og drekka þó þrisvar sinnum meira vín. Hjá þeim nemur öldrykkjan 67,6 l. á mann á ári, og víndrykkjan 4,6 1. Austurríkismenn eru enn meiri öldrykkjumenn en Danir og Þjóðverjar. Drekka þeir 72,4 l. af öli á mann á ári og 14,5 l. af víni. Frakkar drekka öl sem svarar 42 l. á mann á ári, en þeir drekka líka 124 l. af víni á mann á ári, af sams konar vínum þeim, sem seld eru og drukkin hér á landi. — Sú kenning er því úr lausu lofti gripin, að það dragi úr vínnautn manna, ef þeim aðeins er gefið tækifæri til að drekka öl. Og sama máli gegnir um brenndu drykkina. Þannig drekka Danir auk alls ölsins 1,32 l. af brennivíni á mann á ári. Í Noregi nemur öldrykkjan 25,5 l. á mann á ári, en jafnframt drekka Norðmenn 0,87 1. af brennivíni á mann á ári. Og auk hinna 67,6 l. af öli, sem ég áður gat um, drekkur hver Þjóðverji árlega til uppjafnaðar 2,22 l. af brennivíni.“

Hér er kafli úr ræðu landlæknis, og e. t. v. vildi nú 1. flm. lesa ræðuna enn betur en þetta og þar með fá tækifæri til að andæfa því, sem þarna er sagt um það, að öldrykkjan dragi á engan hátt úr öðrum drykkjuskap hjá þeim þjóðum, sem talað var um.

En til þess að þóknast flm., skal ég nú nefna aðrar tölur og nýrri. Ég nefndi ekki neinar tölur í fyrstu ræðu minni. Ég ætlaði að prófa þolrifin í flm. og láta þá koma með tölur fyrir sínu máli, en þeir gerðu það ekki. En í sumar var haldið alheimsbindindisþing í Stokkhólmi. Þar voru margar þúsundir manna frá flestum löndum heims. Fyrir þetta þing höfðu færustu menn safnað skýrslum um áfengisneyzlu í flestum löndum jarðar, og þær skýrslur eru staðfestar af hagstofum hlutaðeigandi þjóða. Skýrslan er miðuð við 100% áfengi. Nú skulum við sjá, hvað þessar tölur segja. Ég ætla þá fyrst að víkja að þeirri staðreynd, að á Íslandi horfir málið svo, að áfengisneyzla hefur tvöfaldazt á stríðsárunum. Fyrir stríð var mjög nærri því, að íslendingar drykkju 1 lítra hver maður á ári, en nú hér um bil 2 lítra. Og þetta er okkar þjóð, sem ekki hefur öl. Norðmenn drukku árið 1946 2,42 l. á mann af 100% áfengi. Þar er öl. Danir drukku á sama ári 3,38 l. á mann af 100% áfengi. Bandaríkjamenn, sem drekka mjög mikið af öll, taka til sín að meðaltali á mann sem svarar 6.8 l. af 100% áfengi á ári. Ekki virðist ölið hafa dregið úr áfengisneyzlu þar.

Ég skal svo gefa 1. flm. yfirlit yfir ástandið í nokkrum nágrannalöndum okkar miðað við yfirlit yfir nokkur ár. Það er þá fyrst Danmörk með sitt áfenga öl. Áfengisneyzla í Danmörku hefur breytzt þannig síðan 1938, miðað við 100% áfengi: 1938 drekkur hver maður í Danmörku 2,54 1., 1939 2,67 1., 1940 2,20 l., 1941 2,57 l., 1942 2,42 1., 1943 2,66 l., 1944 3 l., 1945 2,62 l., 1946 3,28 1. Þannig er drukkið í Danmörku, öllandinu, þegar við Íslendingar, í öllausu landi og með okkar slæma ástand, erum þó enn í tæpum 2 lítrum hvað áfengisneyzlu snertir.

Þá er það Noregur. Þar er ástandið svona: 1938 er áfengisneyzlan 2,22 1. á mann, miðað við 100% áfengi. Svo hef ég ekki skýrslur fyrr en 1942. Þá er neyzlan mjög lítil, 0,87 l., en þá voru verulegar hömlur á öllu áfengi og bjór. 1945 hefur verið slakað á hömlunum og þá er neyzlan 1,34 l., en árið 1946 er hún 2,42.

Þessar tiltölulega fáu tölur — en ég hef margar fleiri — ætla ég að sýnt, að það er fjarri því, að minna sé drukkið í löndum ölsins en þar, sem ástandið er talið svo slæmt, að bæta þurfi það með ölbruggi, nefnilega hérna heima á Íslandi.

Hv. 1. flm. fór að tala um áfengisneyzlu Dana og Íslendinga, og það hvernig hann hagaði máli sínu er ljósasta dæmið um það, hvernig hans málflutningur er í raun og veru. Þá reiknaði hann út, hvað Íslendingar drykkju, og miðaði nú við lítra, ekki 100% áfengi eins og í þessari skýrslu. Svo fór hann til Danmerkur og tók sterka drykki þar og sagði, að það væri ekki mikið, bara 1,9 l. á mann. Flm. vissi vel, þegar hann sagði þetta, að þetta er ekki mælikvarði á það, hvað danska þjóðin vill drekka af áfengi, heldur hitt, hvað hún gat fengið, því að þessir drykkir voru skammtaðir, þegar þessar tölur eru fengnar. Hann vissi þetta. M. ö. o., tilvitnunin var hreint fals. Hún sýndi ekki þá frjálsu drykkju Dana í þessum efnum, heldur hvað þeir gátu fengið, þegar sterkar hömlur voru settar.

Og nú kastar hv. 1. flm. stóra trompinu: „Ég sem lögfræðingur fullyrði, að innflutningur öls sé ekkert lagabrot.“ Eigum við ekki að athuga þetta nánar. Flm. segir enn fremur: „Þetta er nauðsynlegt, og því þá ekki að flytja inn samkvæmt lögum?“ Er nú öl aðkallandi nauðsyn á Íslandi? Það er með íslenzkum l. bannað að selja áfengt öl á Íslandi. Íslenzki löggjafinn segir: Það er svo langt frá því, að öl sé nauðsynlegt, að ég banna það. En ameríski löggjafinn segir: Sjálfsagt að framleiða það, það er nauðsynlegt. — Sjálfsagt þekkir nú flm. úr sögunni, að einu sinni var um það deilt, hvor ættu heldur að ráða, lög kirkjunnar eða landsins. Hinum þjóðhollari mönnum þótti, að landslög ættu að ráða, en hinum að kirkjunnar lög skyldu alltaf ráða. Og nú kemur flm. og segir sem lögfræðingur: Það eru lög Bandaríkjanna, sem eiga að ráða, þegar íslenzk lög og bandarísk greinir á. — Íslenzk lög segja: Bjór er ekki nauðsynjavara, og af því teljum við, að ekki eigi að flytja hann til landsins. En hv. flm. er ekki á þessari skoðun. Hann segir: Af því að bjór er viðurkennd nauðsyn í Bandaríkjunum, þá viðurkennum við hann einnig hér og skilningur Bandaríkjanna skal ráða, en okkar að engu hafður.

Það er ekki að furða, þótt manni yrði að orði að framkoma hans væri ekki djarfmannleg. 1. des. 1945 fer hann upp í útvarp og heldur glæsilega ræðu um nauðsyn þess að standa á rétti Íslendinga og banna útlendingum öll ítök á landinu. Ég gekk til hans og þakkaði honum fyrir ræðuna, því að ég hélt, að þar hefði maður mælt. Svo koma kosningar. Þm. fer á marga framboðsfundi og lýsir yfir, að hann muni berjast á móti hvers konar afsali landsréttinda útlendingum til handa á landi hér. Ég kom vestur í kjördæmi hans og var þar á nokkrum fundum og sagði við ýmsa þar, eftir að þeir höfðu spurt mig um afstöðu hans til þessa máls, að mér væri ánægja að viðurkenna, að þm. þeirra, sem hér byði sig fram, hefði tekið drengilega afstöðu til herstöðvamálsins. Ég hélt þá enn að maður væri að mæla. 5. okt. s. l. ár verður hann ákveðið með afsali landsréttinda, og í nóvember 1947 segir hann á þingi sem lögfræðingur: Þegar lög Bandaríkjanna og Íslands greinir á, skulu lög Bandaríkjanna ráða. — Þetta er ekki djarfmannlegt, þetta er aumlegt og ég held, að flm. hljóti að skilja, að mér finnst framkoma hans auvirðileg.

Ég veit ekki, hvort ég á að elta ólar við fleiri atriði í ræðu hv. þm. Ræðunni hefur áður verið réttilega lýst sem orðafroðu með miklum vindi, mjög miklum. En ég get þó ekki látið hjá liða að minnast á afstöðu hans til kjósendanna. Ég get sagt honum það mjög skýrlega, að þótt við þm. séum umbjóðendur kjósenda okkar, bindur það ekki skoðanir okkar í neinum málum. En hitt er víst, að við eigum að standa við þau kosningaloforð, sem við höfum gefið. Og hitt er okkar skylda, að ef við vitum það, að við förum í bága við meiri hluta þeirra manna, sem kusu okkur á þing, eigum við að segja af okkur þingmennsku. Þetta er ekki einræði, heldur lýðræði, þó að flm. vilji ekki heyra það. Ég veit ekki, hvernig háttað er skoðunum kjósenda hans í þessu máli, en hygg, að meiri hlutinn sé honum andvígur, og færi vel á því að hann léti fara þar fram nokkra skoðanakönnun, því að þá er ég ekki í vafa um. að hann ætti ekki með að standa hér í þeirra umboði.

Ég skal nú ljúka máli mínu, þó að ég vildi tala lengi enn. — Svo kom stór vindhviða, a. m. k. 11 vindstig. og í þeirri stóru hviðu blés þetta: „Ég met mikils starfsemi bindindismanna. Ég hef djúpa fyrirlitningu á þeim tætingi, sem á sér stað innan ýmissa félaga um þetta frv.“ Svo fór hann nokkrum völdum orðum um þetta tætingslið. Það sé aldrei þetta fólk, sem bæti þjóðfélagið, það sé þetta fólk, sem spilli fyrir. Og svo kom hann með þetta að þeir, sem stæðu gegn honum í þessu máli, væru að reyna að kítta í hina hripleku skútu kommúnismans. Þetta eru röksemdir! Ég hefði gaman að sjá minn ágæta vin. hv. þm. Borgf. (PO), kítta í rifurnar á skútu kommúnismans! Ég held, að honum mundi leiðast starfið. Ég held að hann léti skútuna sökkva. (PO: Ég býst við því.) Ég hefði gaman að sjá minn góða vin. hv. þm. A-Sk. (PÞ), kítta í þessa skútu. Ég veit, að hann er sama sinnis og hv. þm. Borgf., að hann vildi að skútan sykki. Og sama máli gegnir sjálfsagt um sessunaut minn. hv. 2. þm. N-M. (HÁ). En hv. 1. flm. hefur séð allan þennan tætingslýð krjúpandi á hnjánum og kítta í hina hripleku skútu kommúnismans, af því að þeir eru á móti hans máli.

Ég skal nú ekki hirta þennan þm. meira, hann er ekki maður fyrir því. En ég vil segja það að síðustu, að ég er ekki enn farinn að heyra neinar röksemdir af hálfu formælenda þessa máls, heldur eintómar rökleysur. Það er margsannað, að með hverjum hömlum, sem lagðar hafa verið á áfengi, hefur dregið úr sölu þess, og með hverri hömlu, sem brotin hefur verið niður, hefur áfengisneyzlan aukizt. Ég hef leitt rök að því með tölum, að víndrykkja er meiri í löndum, þar sem sala á áfengum bjór er leyfð, heldur en í löndum, þar sem slíkt er bannað. Þá hef ég vitnað í álit landlæknis um að barnavíndrykkja útbreiðist með áfenga ölinu. Það er því mín skoðun, að stofnað sé til mikils ófagnaðar, ef þetta frv. verður að l. Og það fólk úti um land allt, sem berst nú gegn framgangi áfenga bjórsins, á annað skilið en að vera kallað tætingslið og ávarpað af djúpri. fyrirlitningu, eins og þessi vindbelgur vestan úr Ísafjarðardjúpi hefur gert.