24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

92. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mér finnst eðlilegt, að hv. þm. Borgf. flytji frv. slíkt sem þetta um byggingu síldarverksmiðju hér við Faxaflóa og hann leggi þá til, að henni verði valinn staður í hans kjördæmi, á Akranesi, reyndar ekki bara vegna þess, að staðurinn er í kjördæmt hans, heldur einnig vegna þess, sem hann hefur skilmerkilega gert grein fyrir í rökum sínum fyrir því að velja verksmiðjunni stað á Akranesi.

Ég geri ráð fyrir, að það sé enginn ágreiningur manna á meðal um það, að nauðsyn sé til þess að koma upp síldarverksmiðju við Faxaflóa til hagnýtingar síldveiðiaflanum, en það kynni hins vegar að vera nokkurt álitamál, hvort verksmiðjan ætti að standa við Faxaflóa, og ég er á þessu stigi ekki reiðubúinn til að fallast á þá till. hv. þm., að hún eigi að vera á Akranesi. Ég held að það væri heppilegast, enda átti ég hlut að því á öðrum vettvangi, í bæjarstjórn Reykjavíkur, að stofnað yrði til gaumgæfilegrar og ýtarlegrar athugunar á því, hvar að öllu athuguðu hentaði bezt að staðsetja síldarverksmiðju hér við Faxaflóa. Var samþ. í bæjarstjórn Reykjavíkur einróma till. um það, að Reykjavíkurbær hefði forgöngu um, að rannsókn verði hafin í þessu máli, hvernig bezt verði hagnýttur síldveiðiaflinn við Faxaflóa, og undir það félli einnig, hvar síldarverksmiðjan skyldi helzt staðsett, og gert ráð fyrir því á þeim vettvangi að hefja samstarf um þessa rannsókn við stjórn síldarverksmiðja ríkisins, Landssamband íslenzkra útvegsmanna, Fiskifélag Íslands og Sjómannafélag Reykjavíkur. Sú rannsókn mun hefjast nú þessa dagana, og verður henni að sjálfsögðu hraðað, enda við það miðað, að framkvæmdir í þessu máli geti orðið það snöggar, að fyrir vertíðina næstu á árinu 1948, verði hægt að hafa einhvern viðbúnað um betri hagnýtingu aflans heldur en nú er. Rannsókn í þessari n. kann hins vegar að fara fram á sama tíma og þetta mál hlýtur athugun í þn. hér, og kynnu að verða þær niðurstöður af rannsókn þessa máls í þessari n., að ég mundi síðar vilja áskilja mér rétt til þess að flytja brtt. við þetta frv. eða einhverjar aðrar till., sem að öllu leyti samrýmast ekki efni þessa frv.

Við erum að öllu leyti sammála um það, hv. flm. og ég að brýna nauðsyn ber til þess að koma upp síldarverksmiðju hér við Faxaflóa, en ég er að svo komnu, eins og ég sagði, ekki jafnsammála um þá staðsetningu, sem kemur fram í þessu frv. Ég mun fylgja þessu frv. við þessa umr., en með þeim fyrirvara, sem ég nú hef gert grein fyrir.