09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2494)

93. mál, útrýming villiminka

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Þetta mál hefur orðið að hitamáli hér á Alþ. Þar sem ég er í landbn., vil ég gera grein fyrir því, að mér finnst, að aðaláherzlan sé lögð á það hjá hv. flm., hvernig eigi að drepa minkana, sem eru í búrunum. Hv. flm. eru með svigurmæli um það, að við viljum leggja á sveitirnar að útrýma þessum skaðræðisdýrum, sem allir eru sammála um, að um skaðræðisdýr sé hér að ræða.

En mér er spurn: Ef minkarnir í búrunum eru drepnir, hver á þá að sjá um að útrýma villiminkunum, eða er málið leyst, þegar búið er aðeins að eyðileggja þá, sem eru í búrunum? Ég held ekki. Ég held, að fyrst og fremst verði að leggja áherzlu á að útrýma villiminkunum.

Þau rök, sem fram hafa komið, ef rök skyldi kalla, af hálfu hv. flm., eru þau, að dýr þessi mundu útrýma öllu fuglalífi og fiskum, en þar geri ég nú ráð fyrir, að hann hafi átt við villiminkana. Og ég er sannfærður um, að fyrst og fremst ber að vinna að því að reyna að útrýma þeim.

En til þess að sýna málflutning hv. flm., þá vil ég benda á, að hann gekk svo langt, að þegar hv. frsm. landbn. taldi, að minkurinn eyðilegði fiskiöndina, sem gerði tjón í veiðivötnum, þá svaraði hv. flm. því, að minkurinn gæti ekki eyðilagt hana, hún væri svo stygg og héldi sig svo langt frá landi. En silung sagði hv. flm., að minkurinn mundi geta tekið á spretti, og mundi hann eyðileggja allan silung og lax í ám og vötnum. Og eftir þeirri brtt., sem nú er komin fram, finnst mér einkennilegt í þessu máli, þó að það heyri kannske ekki undir Búnaðarfélag Íslands, að flm. skuli ekki hafa dottið í hug að leita álits þess í stað hreppsn. Það sýnist, að það hefði verið nær að leggja slíkt fyrir búnaðarþing. Þetta mál hefur verið rætt þar. (PO: Á búnaðarþingi?) Já. á búnaðarþingi hefur málið verið rætt. Og hvers vegna má ekki fá þennan aðila nú til þess að segja álit sitt? Það get ég ekki skilið. Yfirleitt má segja, að öll þau rök, sem komið hafa fram, séu þau, að fyrsta skilyrðið til þess að útrýma villiminkunum sé að ráðast á búrin og drepa alla minka þar.

Ég er sannfærður um, að það tekst aldrei að útrýma villiminkunum, ef ekki verður sýnd meiri árvekni á þeim svæðum, þar sem þeir eru, en gert hefur verið fram að þessu. Hvað sem annars má segja um till. landbn., þá er ég sannfærður um það, að til þess að útrýma villiminkum er það fyrsta skilyrðið, að menn í sveitum landsins sýni meiri árvekni og dugnað en þeir hafa gert hingað til. Það má vera, að eitthvað þurfi að laga enn ákvæði frv. Ég tel það eina örugga ráðið gegn þessari plágu, að beitt sé þeim aðferðum, sem landbn. hefur stungið upp á. Og ég fyrir mitt leyti er viss um, að það er rétt að láta sveitarstjórnir sjá um þetta.