02.03.1948
Neðri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

171. mál, útfarir

Flm. (Gy1fi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Í frv. því, sem ég flyt á þskj. 396, er bæjarstjórnum í kaupstöðum lögð sú skylda á herðar að annast útfarir bæjarbúa. Bæjarstjórn Reykjavíkur er enn fremur lögð sú skylda á herðar að taka í sínar hendur líkkistusmíði. En um bæjarstjórnir annars staðar er það að segja, að gert er ráð fyrir, að þær ráði því, hvort þær taka slíka starfsemi að sér. En geri þær það, skulu þær hafa einkarétt til þeirrar starfsemi. Þá er gert ráð fyrir, að bæjarstjórnir hafi til þess einkarétt að annast allar útfarir, eftir að þær hafa hafið þessa starfsemi.

Þetta er, í fáum orðum sagt, meginefni þessa stutta frv. — Í 2. gr. er svo enn fremur ákveðið, að þær stofnanir kaupstaðanna, sem útfarir eða líkkistusmíði annast, skuli miða störf sín við það, að útfarir séu látlausar, en virðulegar, og að þær skuli láta í té þjónustu sína við svo vægu verði sem kostur er.

Höfuðástæðan til þess, að ég flyt þetta frv., er sú, að útfararkostnaður í kaupstöðum er nú orðinn óhæfilega mikill. Ég hef kynnt mér þetta mál nokkuð rækilega hér í Rvík, en því miður ekki átt þess kost í sama mæli utan Rvíkur, og vil ég leyfa mér að færa nokkru gleggri rök en gert er í frv. fyrir þeirri staðhæfingu, að útfararkostnaður í Rvík sé hærri en góðu hófi gegnir. Ég hef í höndum nokkra reikninga yfir útfararkostnað hér í Rvík. og er þar um að ræða útfarir, sem verið hafa mjög blátt áfram, án þess að um nokkra sérstaka viðhöfn sé að ræða. Ég held, að rétt sé, — af því að slíkum reikningum mun venjulega ekki vera hampað, og því er ekki víst, að allir hv. þdm. hafi átt þess kost að sjá, hvernig slíkir reikningar líta út, að ég geti hér eins eða tveggja slíkra reikninga. Nefni ég þá fyrst reikning frá því í marz 1947. Hann er svona: Kista bólstruð 500 kr. Flutningur á kistu 45 kr. Sæng 100 kr. Söngur 485 kr. Celló 50 kr. Skreyting á kirkju 70 kr. Líkræða 120 kr. Líkvagn 95 kr. Líkmenn 120 kr. Gröf skreytt, hringing 150 kr. Bíll 25 kr. Ýmis fyrirhöfn 200 kr. Samtals er þetta 2360 kr.

Ég hef hér annan reikning nokkru nýrri, og ætla ég að leyfa mér að birta liði hans líka, til þess að sýna fram á, að tölur þær, sem ég nefndi nú, eru ekki einstæðar, heldur algengar, þegar um viðhafnarlausar útfarir er að ræða. Á þessum reikningi er kista bólstruð 900 kr. Sæng 95 kr. Koddi 34 kr. Hjúpur 95 kr. Klútur 10 kr. Söngur 345 kr. Líkmenn 105 kr. Legkaup 40 kr. Líkvagn 95 kr. Gröf, hringing 120 kr. Ýmis fyrirhöfn 150 kr. Skreyting á kirkju 60 kr. Samtals 2049 kr. Og mun hér vera um að ræða alllágan útfararkostnað, miðað við það. sem um getur verið að ræða hér í Rvík.

Ég hef og kynnt mér nokkuð, hver sé útfararkostnaður á Norðurlöndum, og er hann alls staðar þar miklum mun lægri en hér á sér stað. Tölur um það hirði ég ekki að rekja. Þess skal ég þó geta, að í Stokkhólmi kostar vönduð líkkista, með því sem henni heyrir til, 195 kr. sænskar, eða um 350 íslenzkar kr., og gjald fyrir líkbíl þar er 27 sænskar kr., eða um 47 íslenzkar kr. Fleiri liði hirði ég ekki að tala um þar, en útfararkostnaður í heild er þar einn þriðji af því, sem hann er hér í Rvík. Í sambandi við þetta er þó þess að geta, að til skamms tíma var þó útfararkostnaður hér enn meiri en hann nú er. Fyrir nokkru á öðru ári reyndi verðlagseftirlitið að hafa afskipti af þessum kostnaði til lækkunar, þótt ekki bæru þau afskipti sérlegan árangur. En það setti hámarksverð á líkkistur. Algengast verð á þeim fyrir þann tíma mun hafa verið 1700 kr. En viðskiptaráð þáverandi setti 900 kr. hámarksverð á þær, og er það gildandi enn. Þó er það reynsla verðlagseftirlitsins, að fremur illa hefur gengið að framfylgja þessu verðlagsákvæði, og munu dæmi um það, að kistur hafi verið seldar hærra verði, þ. e. ef þær hafa verið pantaðar sérstaklega vandaðar, úr betra efni og með vandaðra smíði en talið hefur verið fært að láta af hendi fyrir lögákveðna verðið, 900 kr. — Það er að vísu ekki að undra, þótt opinber verðlagsafskipti af slíkum kostnaði, útfararkostnaði, séu ekki líkleg til verulegs árangurs til lækkunar á honum, enda mun reynslan hafa sýnt það. Það er því að mínu áliti nauðsynlegt að fara aðrar leiðir til þess að koma þessum kostnaði niður en þá að treysta á afskipti verðlagsyfirvaldanna einna. Og ég hygg, að ekki sé vafi á því að hægt væri að lækka útfararkostnaðinn verulega, jafnvel að óbreyttum útfararsiðum, sem nú tíðkast hér í Rvík og annars staðar í kaupstöðum á landinu. En einkum yrði þó hægt að lækka útfararkostnaðinn, ef takast mætti að breyta útfararsiðunum að einhverju leyti, þó að ég vilji leggja áherzlu á, að ég tel ekki réttlátt né skynsamlegt, að það opinbera fyrirskipi einhverja ákveðna tegund útfara, ef svo mætti segja, heldur tel ég rétt, að réttur aðstandenda hinna látnu manna haldist um það að ráða í meginatriðum, hvernig útfarir fari fram. Hitt vil ég ekki draga dul á, að það er mín persónulega skoðun, að útfarir mættu gjarnan breytast verulega frá því, sem verið hefur hér, t. d. sleppa húskveðju og leggja niður göngu úr heimahúsum og úr kirkju í kirkjugarð eftir götum bæjarins.

Kirkjugarðsstjórn hér í Rvík hefur á undanförnum árum komið upp allmikilli byggingu fyrir utan Rvík, í Fossvogi og er svo til ætlazt, að þar verði kapella og líkbrennsla og jafnframt líkgeymsla. Framkvæmdastjóri kirkjugarðsstjórnar hefur tjáð mér, að hún hafi hugsað sér að annast nokkra fyrirgreiðslu í sambandi við útfararmál Reykjavíkurbæjar og hafi kirkjugarðsstjórn hug á að reyna að breyta útfararsiðunum nokkuð, m. a. gera þær breyt., að húskveðjur verði lagðar niður og göngum um götur bæjarins hætt. Þó að kirkjugarðsstjórn muni nú hafa heimild til þess samkv. l. að taka einkarétt á líkflutningum, mun hún ekki hafa í huga nú að nota sér þessa heimild og taka þannig allar jarðarfarir bæjarins í sínar hendur, heldur mun hún hafa hugsað sér að taka þetta að sér í frjálsri samkeppni við þá aðila, sem nú hafa þetta með höndum, og hefur framkvæmdastjóri hennar tjáð mér, að hún vænti þess að geta orðið ofan á í þeirri samkeppni, þannig að útfarir flytjist smátt og smátt í hennar hendur. Ég álít, að einkarekstur eigi á engu sviði jafnilla við og á þessu og ætla ég því, að það sé miklu æskilegra, að einn aðili hafi þessi störf með höndum. Ég er líka þeirrar skoðunar, að sá aðili eigi að vera opinber, og tel, að bæjarstjórnir í kaupstöðum séu sjálfsagðir aðilar til þess að annast þessa starfsemi. Hitt vil ég þó taka fram, að hér í Rvík tel ég, að mjög vel geti komið til mála, að kirkjugarðsstjórn annaðist þessa starfsemi og hún notaði sér þann rétt, sem hún mun hafa í l., til þess að taka alla íhlutun um þetta í sínar hendur. Ef það væri skoðun þeirrar n., sem þetta frv. færi til, eða hv. þd., að það væri æskilegt, að hér væri ekki komið á fát sérstakri stofnun til að annast þetta, heldur annaðist kirkjugarðsstjórn þetta, þá skyldi ég á það fallast. Ég tel eðlilegast, að það sé aðeins einn aðili, sem annist þessa starfsemi í hverjum kaupstað og taki hana að öllu leyti í sínar hendur, en að þetta eigi ekki að vera í höndum margra aðila á hverjum stað, sem séu í innbyrðis samkeppni.

Hér í Rvík er og gert ráð fyrir því, að þessi útfararstofnun Reykjavíkurbæjar — eða þá kirkjugarðsstjórnin, ef sá háttur yrði á hafður, að hún annaðist útfarir — tæki alla líkkistusmíði í sínar hendur. Það hefur löngum tíðkazt hér, að sami aðili annaðist útfarir og líkkistusmið, og virðist það vera eðlilegt. En utan Rvíkur mun ekki hafa tíðkazt, að sami aðill annaðist þetta hvort tveggja, og er í frv. ekki gert ráð fyrir því, að sú stofnun, sem gert er ráð fyrir, að annist útfarir í hverjum kaupstað fyrir sig, annist líkkistusmíð einnig. En ef bæjarstjórn á einhverjum stað óskar að taka þetta líka í sínar hendur, er gert ráð fyrir því í frv., að hún geti það.

Ég skal taka fram, að vel gæti komið til mála, að slík lagasetning, sem hér er farið fram á að gerð verði, væri í heimildarformi, þ. e. a. s. að bæjarstjórnum yrði ekki gert að skyldu að takast þessa starfsemi á hendur, heldur væri ákveðið, að þeim væri heimilaður einkaréttur til þessarar starfsemi, ef þær óskuðu að taka hana í sínar hendur. En löggjafinn hefur skyldað bæjarstjórnir til margs konar sýslu, sem má telja fjarskyldari verkahring þeirra en að annast útfarir bæjarbúa. Og þess vegna hef ég gengið frá frv. í þessu formi, sem það hefur. En til samkomulags mundi ég vilja breyta þessu í heimildarform, ef því væri að skipta, að málið gengi fremur fram með því móti, þótt ég að vísu óttist, að bæjarstjórnir sumar hverjar mundu ekki rota sér þessa heimild. Ég er þess hins vegar fullviss um, að margar mundu gera það.

Um útfararmál utan kaupstaðanna er það að segja, að ég hygg, að engin ástæða sé til að reyna að gera opinberar ráðstafanir til þess að draga úr útfararkostnaði þar. Þar er að þessu leyti líka miklu erfiðara um vik. Og hef ég því látið þetta frv. taka til kaupstaðanna einna saman.

Ég vil svo að lokum leyfa mér að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.