20.12.1947
Efri deild: 43. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég vildi leyfa mér að benda hæstv. fjmrh. og n. á, hver háski og alveg fjarstæða er að setja orðið „maður“ þarna í gr. í stað „forsjármaður“. Ég skal fyrst benda á það ranglæti, sem felst í þessari breyt. Bóndi hefur vinnumann allt árið. Vinnumaður vinnur á sínu heimili, fær til tekna fæði sitt bætt við kaupið. En svo fær sami bóndi einn kaupamann, annan vormann, þriðja haustmann og fjórða vetrarmann. Þeir eiga annars staðar heima, vinna allir utan heimilis síns, hafa sama kaup og vinnumaðurinn og fá allir dregið frá kaupi sínu fæði. Nú munu vera um tvö þúsund kaupamenn í sveitum landsins á hverju sumri og nokkru fleiri kvenmenn sem kaupakonur í sveitunum, fyrir svo utan vormenn, haustmenn o~ vetrarmenn. Allt þetta fólk kemur til með að mega draga frá skatti það fæði, sem það þarna fær ókeypis.

Nú, allir vita, að á hverjum vetri koma hingað nokkur þúsund manns utan af landsbyggðinni til þess að leita sér atvinnu. Hjá þeim öllum á að draga tekjur vegna fæðis frá skattskyldum tekjum. Svo koma sjómenn á skipum. Svo koma menn, sem eru um lítinn tíma burtu, eru viku og hálfan mánuð frá heimili sínu. Margir menn eru í opinberum störfum. Frá öllum þessum mönnum á að draga tekjur vegna fæðis, ef þeir fá það ókeypis, og ef þeir þurfa að kaupa það sjálfir, á að draga það frá, en allir eiga að hafa sama persónufrádrátt. Allir eiga að hafa það sama, en sumir eiga að leggja þetta við tekjur sínar, en aðrir að draga það frá. Tökum til dæmis mann, sem hefur tvo vinnumenn. Annar er bara hlaupamaður, var hjá þessum í haust, öðrum í vetur og enn öðrum í vor. Hann á að fá allan frádráttinn, og hann kemur út með helmingi lægri tekjur en hinn. Ef hann er forsjármaður heimilis, þarf heimilið að hafa matargerð, og þá horfir málið öðruvísi við. Það munar lítið um það, þó að einn maður sé til viðbótar.

Hér eru alltaf um 300–400 manns, sem ekki er vitað, hvar eiga heima. Þeir sleppa, hvort sem er. Það er alveg óþolandi, að sá maður, sem ræður sig fast, verði hærri í skatti en sá, sem er lausamaður. Þess vegna ræð ég frá að samþykkja þessa brtt. Hún ætti eingöngu að eiga við menn, sem eru á millilandaskipunum, og gæti gengið, ef hún væri eingöngu takmörkuð við þá. Meðan ákvæðið átti að vera það, var dálítið réttlæti í því, en þegar farið var út fyrir það, verður hún óréttlát, því hvernig á skattanefnd að vita það, hvort maður er að heiman 6 vikur eða meira, það er ekki ævinlega, sem hægt er að fylgjast með því. Þessi till. yrði því mjög erfið í framkvæmd.