04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (2825)

73. mál, bindindisstarfsemi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega hv. 8. landsk. þm. fyrir það, að hann skyldi mæla á móti þessu frv., vegna þess að það sýnist mér vera vitnisburður um, að frv. gangi í rétta átt, að hann og hans flokkur er því andstæður. Því að í seinni tíð hafa þessir menn sjaldan flutt góð mál, heldur lagzt á móti því, sem betur mætti horfa.

Að öðru leyti hef ég ekki mikið um málið að segja. Hv. síðasti ræðumaður gerði mjög ýtarlega grein fyrir aðalkjarna þessa máls og rakti það rækilega, að eins og nú horfir hlýtur frv. að vera til bóta frá sjónarmiði allra þeirra, sem hafa trú á, að hægt sé að vinna á móti áfengisneyzlunni í landinu með öflugri bindindisstarfsemi. — Ég skal alls ekki hafa á móti því, sem hv. þm. Barð. (GJ) sagði um nauðsynina á aðgerðum vegna ýmiss konar vesalinga og aumingja, sem hafa alveg fallið fyrir áfengisneyzlunni. En það er í raun og veru óskylt atriði í þessu máli, sem hér er til umr. nú. Það er að vísu angi af sama máli, en það er annað atriði en það, sem hér er um að ræða. Ég játa vissulega, að það, sem fyrir honum vakir, þurfi að taka til greina, að það verði að hafa öflugar ráðstafanir til þess að reyna að bjarga þessum vesalingum, a. m. k. forða þeim frá hunda og manna fótum, þar sem þeir liggja nú. Sízt skyldi ég hafa á móti öflugum aðgerðum í þessa átt. Því miður fór nú sú tilraun, sem gerð var með stofnun drykkjumannahælis, fyrst í Kumbaravogi og síðar í Kaldaðarnesi, sorglega út um þúfur, — e. t. v. vegna þess, að þar var ekki frá fyrstu tíð fylgt ráðum ágætustu manna um þetta, eins og dr. Helga Tómassonar og slíkra, sem vöruðu við þeirri starfsemi, eins og í hana var ráðizt. Ég skal játa á mig þá synd, að ég átti þátt í, að fé var lagt fram til þeirra tilrauna, vegna þess að mér sýndist þá, að það væri ekki hægt að láta þetta alveg kyrrt liggja. Og þetta var þá eina tilraunin, sem uppi voru till. um að gera til þess að ráða bót á þessu böli. Nú eru menn eftir þessari reynslu komnir inn á aðrar lausnir í því máli. Þarna er um að ræða heilbrigðismál, sem ég veit, að hæstv. heilbrmrh. er að íhuga, hvernig bezt verði séð fyrir. Þetta er alls ekki eins einfalt mál og menn vilja vera láta, vegna þess að það er búin að standa þessi tilraun með Kumbaravog síðan 1942,og það er fyrst nú, sem menn sjá, að sú tilraun, eins og byrjað var á henni, fær ekki staðizt. Það er auðvelt að tala um aðgerðir í þessu. En það er erfiðara að finna lausnina í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum. En ég vil vekja athygli á því, að hvaða niðurstöðum sem menn komast að í þessu efni, þá er það annað atriði en fyrir mér vakti þegar ég flutti þetta frv., nefnilega að efla hreyfingu og starf bindindismanna þeirra, sem reyna að draga hugi manna frá áfengisneyzlunni og reyna að fá æskulýðinn til þess að hafa önnur áhugamál en áfengisneyzlu og reyna að bjarga þeim mönnum, sem ekki eru komnir lengra á glötunarleiðinni af áfengisneyzlu en svo, að þeim er hægt að bjarga án þess að beinar læknisaðgerðir komi til. Og það eru mörg tilfelli, þegar aðgerðir hins opinbera hafa orðið til þess að bjarga þessum mönnum, og mér finnst full ástæða til þess að styrkja þessa menn í þeirra starfi.

Menn tala um, að það sé óeðlilegt að tengja styrkinn til bindindismanna til bindindisstarfsemi við áfengissölu ríkisins. Já, hversu oft eru menn ekki búnir að heyra talað um gróða, sem verður af áfengissölunni hjá ríkinu. En það er vitað mál, að ef engin áfengissala væri og því enginn gróði af áfengissölu, þá þyrfti ekki að bæta það böl, sem hér er um að ræða. Starfsemi bindindismanna er alveg tengd við áfengissöluna. þ. e. við áfengisneyzluna í landinu. Ef áfengisneyzla væri ekki fyrir hendi, þyrfti ekki að halda uppi þeirri sérstöku starfsemi, sem bindindismennirnir að því leyti inna af höndum, er þeir berjast á móti áfengisbölinu. Þess vegna er það alger rökleysa, þegar menn taka það sem sérstaka móðgun við bindindismenn, sem þeim sé gerð í starfi þeirra, að þeim sé ætlaður nokkur hluti af tekjum af áfengissölunni í landinu. Það eru einmitt þessar tekjur, sem gera það að verkum, að það er þörf á þeirra bindindisstarfi. Með þeim fyrirvara vil ég segja, að jafnvel þó að þessar tekjur væru afnumdar og hér sett á bann, þá mundi það að vísu ekki vera nein lausn á áfengisbölinu að mínu viti, heldur stórt spor aftur á bak og verka til margfaldrar spillingar og eyðileggingar, eins og dæmin sýna, bæði hér og annars staðar. En það er áfengisneyzlan, sem gerir það að verkum, að bindindishreyfingin á rétt á sér, og það er nauðsynlegt að styrkja bindindishreyfinguna, og þá tel ég, að eðlilegast sé að taka fé til verulegra átaka í þeim efnum á þann hátt, sem fyrir mér vakir með þessu frv. Hitt er annað mál, sem Stórstúkan hefur bent á, að það hafa einmitt verið gerðar tilraunir til þess að útvega fé í þessu skyni með öðrum hætti. Og þær tilraunir hafa ekki náð fram að ganga. Ef menn hafa trú á því, að þær tilraunir mundu takast t. d. með einfaldri ákvörðun við samningu fjárlaga, þá er það mjög takandi til athugunar, og mætti vera, að þetta frv. yrði þá óþarft. En hvort tveggja er, að fyrri reynsla sýnir okkur, að það hefur ekki tekizt að fá fé með þeim hætti, sem og hitt, að þó að það tækist í eitt skipti, væri þar um alveg ótrygga tekjuöflun að ræða. En ef l. væru sett með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, þá er um öruggan og haldgóðan tekjustofn að ræða.

Hv. þm. Barð. sagðist vera andvígur því, að þetta fé yrði sett í bindindishöll. Það er ekki ákveðið í frv., að þetta skuli fara í bindindishöll. Það hlýtur að liggja undir mati ríkisstj. hverju sinni, hvernig þessu fé skuli verða varið. En það er þó skýrt, að ætlazt er til, að peningarnir fari til bindindisstarfsemi, en ekki til byggingarstarfsemi, eins og hv. þm. Barð. gerði ráð fyrir sem eins og ég sagði áðan, er tvennt gersamlega ólíkt.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það hafa nú komið fram hér við fyrri hluta þessarar umr. ásakanir á mig um óheilindi í þessu máli. Ég verð að segja að gagnvart þeim mönnum, sem þykjast hafa áhuga fyrir þessum efnum, en vilja ekki fylgja þessu frv., þegar vitað er, hversu erfitt hefur verið að fá peninga til verulegrar bindindisstarfsemi hjá þinginu, mætti vel hafa grun um heilindi þeirra sjálfra í málinu. Ég ætla þó ekki að vera með neinar getsakir í því efni. En ég treysti því, að menn að lokum sameinist um þetta mál í einhverju formi, þannig að flutningur þessa frv. geti náð þeim tilgangi, sem fyrir mér vakir. Og ég vona, að það nái fram að ganga fyrr eða síðar.