04.03.1948
Efri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

73. mál, bindindisstarfsemi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, af því að ég er nm. og stend með þeim meiri hl., sem flytur brtt. á þskj. 371. Ég lít þannig á áfengið, að það ætti að hverfa úr landinu. Og ég lít þannig á, að þó að hér sé verið að tala um, að ríkissjóður fái fjórðu hverja krónu fyrir vín af því fé, sem hann þarf að nota, þá sé vandalaust að finna tekjur á móti því, ef vínið hyrfi úr landinu með öllu. En það er ekki um það að ræða hér. Meiri hluti þjóðarinnar óskar eftir því að hafa vínið, og mikill meiri hluti Alþ. vill hafa ríkistekjurnar af því. Þess vegna er ekki um það að ræða hér, að vínið hverfi úr sögunni á þessu landi. En hér er um það að ræða að skapa þeim flokki manna í landinu, sem vinnur að því að reyna að minnka vínnautn í landinu og draga úr áhrifum hennar, möguleika til þess að fá starfsfé og nokkuð af því beint frá ríkinu. Og það vitum við, að undanfarið hefur á fjárl. alltaf verið veitt eitthvað til þessara mála, en alltaf skorið meira eða minna við nögl. — Þegar þetta frv. kom fram frá hæstv. dómsmrh., þá var ekki frá mínu sjónarmiði annað í því en það, að því væri slegið föstu, að það ætti að hætta að deila um það á hverju ári í sambandi við afgreiðslu fjárl., hve miklu fé yrði varið til þessarar starfsemi, en í stað þess væri ákveðið í eitt, skipti fyrir öll, að bindindisstarfsemin fengi ákveðið fjárframlag frá hinu opinbera.

Þegar um þetta mál var rætt í n., litu sumir nm. svo á, að því meira, sem drukkið væri í landinu, því meiri ástæða væri til að vinna á móti áfengisnautninni. Og fram kom sú skoðun í n. að vilja láta þetta framlag fara stighækkandi eftir því, sem meira væri selt af áfengi, þannig að því meira kæmi í hlut bindindisstarfseminnar í landinu sem vínnautn væri meiri. Þó að mikið óbragð væri að þessu og svo gæti litið út sem þetta gæti freistað eitthvað miður heils hugar bindindismanna til þess að vinna slælegar að útrýmingu vínnautnar í landinu en ella, þá taldi ég, að réttara væri þó að tryggja bindindisstarfseminni þetta fé, þó að óbragð væri að því, heldur en að láta það árlega vera bitbein á A1þ., hversu fé til þessarar starfsemi skuli vera mikið. Þess vegna stóð ég með meiri hl. n., sem vildi tryggja um lengri tíma, að bindindisstarfsemin í landinu fengi rekstrarfé frá ríkissjóði. Og ég vil halda því sjónarmiði að láta það ekki vera eftir geðþótta Alþ. hverju sinni, hve mikið fé bindindismenn fá til sinnar starfsemi, sem ævinlega er skorið við nögl af Alþ., því að þannig hefur Alþ. verið sinnað almennt um langan tíma í þessu máli, og það er það enn, eins og sjá má af þeim till., sem liggja fyrir sameinuðu þingi, og því, hvaða meðferð þær hafa fengið í þinginu. — Ég veit, að það má túlka þær brtt., sem n. gerir, á ýmsa vegu. En það, sem fyrir mér vakir með því að fylgja þeim, er, að ég vil ekki með minni frammistöðu leggja stein í götu þess, að bindindisstarfsemin geti fengið fast fjárframlag úr ríkissjóði.