06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

104. mál, sölugjald af jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég lofaði í upphafi að hafa ekki langar umr. og mun halda mig við það. Ég verð að biðja forláts á því, að ég athugaði ekki að hlusta, þegar hv. þm. Barð. var að lýsa þessum 5–6 ára löngu lærðu krókaleiðum, sem hv. 2. þm. Árn. hefði lært, svo að ég á erfitt með að svara því, en hann mun eitthvað hafa minnzt á svartan markað. En yfirleitt hafði ég ekki orðið var við þann svarta skóla, þegar ég var að læra lögfræði, heldur var kennt, hvernig ætti að leysa málin og greiða úr l. eins og þau lægju fyrir. En ég býst við því, að það geti verið hægt að fara eitthvað á bak við þessa löggjöf eins og flest annað, en þær leiðir geta verið seinfarnar og torsóttar eins og leiðin, sem hv. þm. Barð. minntist á. Það er alveg rétt, að maður, sem vill selja jörðina, getur leigt hana, látið leiguna koma inn í kaupin og sagt svo við leigjandann, að hann skuli, þegar hann er búinn að vinna sér forkaupsréttinn, fá jörðina fyrir ekki afar hátt verð. Þetta er hægt, en þetta er löng leið, því að einmitt með frv. um kauprétt á jörðum, sem búið er að afgreiða frá d., var þetta bannað og ábúandinn fær ekki forkaupsrétt fyrr en eftir 4 ár, og er því vafasamt, hvort sú samningsleið verður yfirleitt farin.

Þá er annað, sem mér virtist hv. þm. Barð. misskilja. Hann er alltaf að tala um það, að það eigi að taka 60% af söluverði jarða eftir brtt. og mundi það þýða það sama og það ætti að taka 40% eftir frv. eins og það liggur fyrir. Þetta er ekki rétt, við skulum taka dæmt. Ef jörð er metin á 10 þús. kr., en seld á 90 þús. kr., eða níföldu verði, þá skilst mér, að þar verði tekið 10 þús. kr. Það er ekkert sölugjald greitt af fyrstu 50 þús. kr. Ef söluverðið er 60 þús. kr., þá er söluskatturinn 100 kr., af 70000 kr. 2000 kr., ef söluverð er 80000 kr., þá bætast við 3000 kr. af þeim tug, og þá eru komnar 6000 kr., af níunda tugnum verður að greiða 4000 kr., svo að mér telst til, að það verði að borga 10000 kr. af jörð, sem seld er á 90000 kr., eða um 11% af jarðarverði, og það mun vera fátítt, að jarðir séu seldar með svo margföldu fasteignamatsverði. Þetta vildi ég leiðrétta hjá hv. þm. Barð., og ég held kannske, að hann liti heldur ljúfari augum á frv., þegar hann er búinn að athuga þetta. En hvað viðvíkur því, að það muni varla vera hægt að lögbjóða, að seljandi greiði sölugjaldið, þá held ég, að það reki sig ekki á aðra löggjöf, enda þótt kaupandi greiði stimpilgjald af afsali og þinglesningargjald.

Ég segi fyrir mig, að ég er að mörgu leyti mjög nálægt skoðun hv. 1. þm. Eyf. (BSt) á þessu máli. Ég tel þetta frv. ekki neitt, sem allækni þetta ástand, en tel það tilraun í rétta átt, sem ég vona, að verði heldur til gagns en til skaða. Varðandi þau dæmi, sem hv. þm. nefndi, þá held ég, að þetta komi yfirleitt ekki að sök, því að ef jarðir eru seldar háu verði, þá kemur söluskatturinn á seljandann, en ef menn ætla að fara að nota lága verðið, þá kemur forkaupsrétturinn, sem hreppsnefndin aftur hefur, svo að seljandinn er þarna í nokkurs konar kví, það er staðið að honum á báðar hliðar. En yfirleitt er það svo, og það sýnir sig kannske, ef frv. verður að l., að mannsandinn er furðu seigur að finna upp mótvarnir. En ég held samt sem áður, að þessi löggjöf og l., sem áður voru samþ. um kaupréttinn, séu mikið aðhald að mönnum og þeir geti ekki svo mikið farið fram hjá þessu. Og ég verð að segja það, að það er alltaf nokkur bót í máli, þegar jarðir eru seldar feikna verði, ef eitthvað verður eftir af þeim gróða í sveitinni, sem svo gæti orðið til gagns fyrir þá jörð. sem þannig er með farið.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta mál við þessa umr., en mun sjá til, hvernig atkvgr. fer, og mun þá við 3. umr., ef ástæða þykir til og einhverjar breyt. verða, taka til máls í þessu máli. Menn hafa þegar látið í ljós sína skoðun, þeir, sem talað hafa, svo að það ætti ekki að breyta neinu, þó að frekari orðadeilur fari fram um það.