17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

185. mál, skipting innflutnings- og gjaldeyrisleyfa milli landshluta

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég get fyrir mitt leyti fallizt á þá ósk, sem fram kemur frá hæstv. viðskmrh., að málinu verði vísað til hv. allshn. Mér þykir líklegt, að aðrir flm. till. hafi ekkert á móti því. En á það viljum við að sjálfsögðu leggja áherzlu, að meðferð málsins þar verði hraðað svo, að það geti komizt hér til úrslita áður en þingi verður slitið, nema það komi á daginn, að viðskiptan. eða fjárhagsráð gangi frá viðunandi reglum um þessa úthlutun fyrir þann tíma, þannig að ekki yrði þörf á neinum frekari afskiptum þingsins af málinu. Hæstv. ráðh. benti réttilega á það, að verzlunin væri nú um margar vörur bundin við einstök lönd og jafnvel fáeina ákveðna seljendur vörunnar í hverju landi og talaði í því sambandi um clearingviðskipti, sem kunnugt er, að tekin hafa verið upp í milliríkjasamningum milli einstakra landa. Það er að sjálfsögðu ekki meining okkar flm. þessarar þáltill., að innflytjendur í einstökum landshlutum njóti neinna sérstakra fríðinda að þessu leyti um innflutningsleyfi. Þeir verða að sjálfsögðu að fara eftir þeim fyrirmælum. sem á hverjum tíma gilda og fylgja þessum leyfum um vörukaup í ákveðnum löndum. Það liggur í hlutarins eðli. Það, sem hér er farið fram á, er aðeins það, að leyfin fyrir þessum vörum, þau sem raunverulega tilheyra fólki víðs vegar um landið, fari til verzlana í þeim landshlutum og síðan verði þær, bæði kaupmenn og kaupfélög, að komast í sambönd við seljendur varanna, sem inn þarf að flytja, í öðrum löndum, annaðhvort gegnum umboðsmenn hér eða á annan hátt.

Hæstv. ráðh. gat um það, að sér virtist hér í þáltill. vera blandað saman tveimur atriðum. Annars vegar því að sjá landsmönnum fyrir vörum, sem þeir þurfa og eiga að fá og er heimilt að kaupa samkv. ákvörðun skömmtunaryfirvaldanna, og hins vegar því að sjá verzlunarfyrirtækjum einstakra landshluta fyrir vörum frá útlöndum til að verzla með. En þetta er svo nátengt hvað öðru að sjálfsögðu. — Ég ætla að taka dæmi til þess að sýna, hvað þetta er í raun og veru sanngjörn og sjálfsögð ósk, sem hér er fram borin af þessari ráðstefnu kaupstaðanna. Við skulum hugsa okkur, að þannig hefði staðið á nú, að innflutningur á einhverri nauðsynjavörutegund, sem landsmenn almennt þurfa að nota, og fá leyfi til að kaupa, hefði verið þannig, að það hefðu verið verzlanir norður á Akureyri eða vestur á Ísafirði, sem hefðu flutt inn meginhlutann af þessari vörutegund, þannig að Reykvíkingar, þar sem um er að ræða einn þriðja hluta þjóðarinnar, hefðu orðið að senda sína skömmtunarseðla til Akureyrar eða Ísafjarðar til þess að fá þessar vörur. Ég geri ráð fyrir, að Reykvíkingum hefði ekki þótt gott að búa til lengdar við þessi kjör, en að það hefðu komið fram óskir um það, að sá hluti af þessum vörum, sem þeim réttilega ber, væri látinn ganga til verzlana í Reykjavík, þannig að þeir þyrftu ekki í aðra landsfjórðunga að fara með sína skömmtunarseðla til þess að fá þessa vöru. Og ég tel ólíklegt, að nokkur hefði séð ástæðu til að standa í vegi fyrir því, að á þessu hefði fengizt breyting. Það er í raun og veru þetta, sem hér er um að ræða, sem hér hefur gerzt. Og óskir eru fram bornar til þess að fá fluttar beint inn í þessa landshluta, sem afskiptir hafa orðið, þær vörur, sem raunverulega eiga þangað að fara. Þetta vildi ég aðeins benda á í tilefni af ummælum hæstv. viðskmrh., en sé ekki ástæða til að orðlengja um málið á þessu stigi frekar, þar sem það vitanlega kemur aftur til umr., eftir að n. hefur fengið það til athugunar.