04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3229)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta mál væri borið fram til þess að ná sér niðri á landlækni. En hvað liggur þá til grundvallar orðum hv. þm. Snæf., ef ekkert liggur til grundvallar fyrir því, að hv. flm., þm. S-Þ., bar þetta mál fram, annað en að ná sér niðri á landlækni? Nei, mál þetta er alvörumál, og bak við það liggur sá þungi, sem hæstv. ráðh. fær ekki staðizt gegn, ef ekki verða gerðar raunhæfar breytingar hér á.

Ég þakka svo hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar, sem hann gaf í sambandi við fyrirspurn mína. Ég er sannfærður um, að það var rétt að láta ekki málið koma óundirbúið inn í þingið. Því að þetta er svo veigamikið og þýðingarmikið mál, að það væri æskilegast, að málið kæmi svo vel undirbúið inn í þingið, að hv. þm. þyrftu þar sem minnstu að breyta.

Ég vil hins vegar benda hæstv. ráðh. á, að það eru allt aðrar upplýsingar, sem ég hef fengið frá Lyfjafræðingafélaginu og Lyfsveinafélaginu en hann gaf hér. Því að bæði einn af lyfjafræðingunum hér í Rvík, Scheving Thorsteinsson, og formaður Lyfsveinafélagsins voru báðir saman hjá mér á fundi og fullyrtu, að þetta samkomulag væri fengið og að þetta samkomulag væri mótað í till. þeirra o. fl. Svo að ég hygg, að það sé ekki rétt, að þetta samkomulag vanti á milli lyfjafræðinganna annars vegar og lyfsveinanna hins vegar. Þetta samkomulag er fengið, en hins vegar ekki samkomulag milli þessara manna annars vegar og landlæknis hins vegar. Og það má ekki verða ráðandi sjónarmið í þessu efni, þó að landlæknir kunni að hafa einhverja lífsskoðun, sem ekki kemur þessu máli við, um það t. d., hvernig eigi að reka apótek til fjárhagslegs hagnaðar fyrir einn eða annan aðila. Ef hann lítur svo á, að ríkissjóður eða samvinnufélög skuli græða — eða tapa — á lyfsölu, og að það sé heppilegra en að einstaklingar geri það, þá má hann samt ekki fá að stöðva málið vegna þess eins. Ef það er það raunverulega í málinu, að þetta sé ástæðan fyrir því, að ekki eru gerðar raunhæfar ráðstafanir til úrbóta í þessu vandamáli, þá verður að ryðja þessari hindrun úr vegi. Þetta er ekki sagt til áfellis landlækni. — En það er ekki nauðsynlegt, að ríkið reki þetta. Það hefur sýnt sig, að það, sem ríkið rekur, er rekið þannig, að rekstur þess verður dýrastur og á því verður mest tapið, ef um tap er að ræða, en minnstur gróðinn, ef um gróða er að ræða.

Mér er kunnugt um það frá þessum lyfjafræðingum, sem ég gat um, að það er stórkostleg óánægja yfir því nú, hvernig þessi mál eru rekin.