04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

100. mál, lyfjabúðir í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umr., en ég hef fylgzt með þeim af áhuga, af því að þær snerta Reykjavík.

Ég vil þakka hv. þm. S-Þ. fyrir að flytja þetta mál, þó að hann hafi gert okkur hinum skömm til, því að fleiri þm. eru úr Rvík en hann. Það er mjög mikið áhugamál fyrir bæinn, að málið gangi í gegn, og það gleður mig, að þessi hv. þm., sem eitt sinn var svo andvígur málefnum Rvíkur., skuli nú hafa séð sig um hönd. Batnandi er manni bezt að lifa, og óskandi, að það mætti segja um alla þá hv. þm., sem nærri þessu máli hafa komið. Ég vildi ekki taka hér til máls án þess að láta þessar þakkir uppi til hv. þm. S-Þ., vegna þess að mér finnst þessi till. hans vera flutt af mikilli nauðsyn.

Það var annars ræða hv. síðasta ræðumanns, sem kom mér til að standa upp. Hv. þm. segir, að menn geri málið flóknara en það sé. Mér sýnist málið fyrst flókið eftir hans ræðu. Hann vildi halda fram, að ekki væri hægt að fjölga lyfjabúðum í Rvík nema mikill lagabálkur væri fyrst lögfestur og endurskoðuð löggjöf, sem tekið hefur þrjár aldir að fá verulegar breyt. á. Ef menn eiga að bíða ámóta eftir jafneinföldum hlut og þeim að fá nokkrar lyfjabúðir í viðbót hér í bæ, þá mundi það verða ærið erfitt. Ég tel, að þessu tvennu megi ekki blanda saman.

Þá er annað, sem mér kom ókunnuglega fyrir sjónir. Hv. þm. hélt fram, að landlæknir hafi gert till. sínar um fyrirkomulag þessa máls varðandi Rvík, svo að það sé rangt, að það standi á honum. Að gefnu tilefni vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvort það sé rétt, að landlæknir hafi lagt fram till. um þetta mál, sem viðunandi séu, og það sé þá rn., sem standi á móti því að fjölga lyfjabúðum í Rvík. Það var ekki hægt að skilja ummæli hv. þm. á annan veg en að hann gæfi það í skyn. Ég vil þá vona, að það komi skýrt fram síðar í þessu máli, hvort landlæknir hafi, mælt með þessari sjálfsögðu beiðni. Ég vil, að það komi skýrt fram, hvað það er, sem veldur drættinum á þessu máli, því að hv. 4. þm. Reykv. verður að viðurkenna hvað sem þessum allsherjar undirbúningi líður, að þá býr Rvík nú við mjög slæman kost í þessu máli, svo að þar verður að ráða bót á. Það gladdi mig því, að glöggur skilningur hefur komið á því hjá hæstv menntmrh., að þetta mál þarfnist bráðrar lausnar. Hann bar aðeins fyrir sig starfsmannaskort, en engan veginn það, sem hv. 4. þm. Reykv. hélt fram, að Rvík gæti ekki fengið neina úrbót, fyrr en búið væri að endurskoða þessi þriggja alda gömlu lög.