14.10.1947
Sameinað þing: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

5. mál, Parísarráðstefnan og dollaralán

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Í ræðu Einars Olgeirssonar voru — þegar venjuleg slagorð eru fráskilin, — slagorð um, að ríkisstjórnin vildi hella yfir þjóðina atvinnuleysi, eymd, stöðvun atvinnuveganna o. s. frv., — aðeins tvö atriði, sem vert er að athuga nánar. Annars vegar, að ríkisstjórnin af illgirni og fávitahætti hefði valið sér hina óheppilegustu staði til afurðasölu og forðazt að selja þar, sem hægt hefði verið að fá fyrir þær fullt ábyrgðarverð. Sagði hann þessu máli sínu til sönnunar, að Danir seldu nú Rússum smjör fyrir kr. 6,50 kílóið, sem væri ágætt verð, enda hefðu Danir áður fengið miklu minna fyrir smjörið. En þá er mér spurn: Hvað skyldu þessar ágætu þjóðir segja um okkar smjörverð, kr. 30,00 pr. kg.? Hvernig skyldi okkur ganga að selja á því verði? En þó að við flytjum ekki út þessa vöru, þá sýnir verðlagið á henni bæði hér og þar —, í hve geysilegt óefni er komið með okkar afurðaverð samanborið við aðrar þjóðir allt í kringum okkur.

Þessu til viðbótar langar mig aðeins til að spyrja: Hvar eru þeir staðir, þar sem við getum nú selt allar framleiðsluvörur fyrir kostnaðarverð, og hvaða sölumöguleikum hefur verið sleppt á þessu verði, sem við höfum átt kost á? Ég veit ekki betur en að hver einasti sölumöguleiki þess háttar hafi verið notaður og ríkisstjórnin hafi gert allt, sem í hennar valdi hefur staðið, til að selja framleiðsluvörur okkar til Austur-Evrópu, meðal annars með samningstilboðum til fleiri ára. En undir það hefur ekki verið tekið umfram það, sem samningar hafa verið gerðir um.

Hitt atriðið í ræðu hv. þm., sem ég vildi fara um nokkrum orðum. er það, að hann hélt því fram, að núv. ríkisstjórn bæri ábyrgð á allri gjaldeyriseyðslunni og hefði algerlega svikizt um að gera ráðstafanir til að stöðva hana.

Sannleikurinn er sá, hvað sem að öðru leyti má um gjaldeyriseyðsluna segja, að núv. ríkisstj. ber ekki ábyrgð á nema mjög litlum hluta hennar. Þetta liggur skjallega fyrir, bæði í gögnum viðskiptaráðs, nýbyggingarráðs og fjárhagsráðs og hagfræðinganefndarinnar svo kölluðu, þar sem sýnt var, að megninu af gjaldeyrisforðanum hafði verið eytt um og fyrir síðustu áramót. — Hins vegar var með stjórnarsamningi þeim, sem gerður var, þegar núverandi stjórn var mynduð, með setningu laganna um fjárhagsráð og með starfi þeirrar stofnunar, eftir að hún komst á laggirnar, gerð fyrsta tilraunin til að skipuleggja þjóðarbúskapinn, gera sér fulla grein fyrir ástandinu í gjaldeyrismálunum og til að gera ráðstafanir til úrbóta, eins og nú skal sýnt. En það kom líka mjög fljótt í ljós, eftir að farið var að ráðgera ýmsar aðgerðir til að ná gjaldeyrisjöfnuði, að það var til í landinu flokkur manna, sem ekki vildi taka þátt í og ekki sætta sig við neinar aðgerðir í þessa átt, og kem ég síðar að því, hvaða menn það voru.

Þegar fjárhagsráð tók til starfa í júlímánuði síðast liðnum, lét það vera sitt fyrsta verk að gera yfirlit yfir gjaldeyrisástand og gjaldeyrishorfur. Þetta yfirlit, sem var miðað við fyrstu daga ágústmánaðar, var birt síðast í þeim mánuði bæði í blöðum og útvarpi. Niðurstaðan af þeirri athugun varð sú, eins og menn muna, að líkur þóttu þá benda til, að aðeins yrðu til ráðstöfunar, þann tíma, sem þá var eftir af þessu ári, eða tæpa 5 mánuði ársins, þegar áður útgefin leyfi hefðu verið greidd, um 33 millj. króna. Hins vegar voru þá hóflegar innflutningsþarfir til áramóta áætlaðar um 170 millj., og mátti því draga þá ályktun af þessum tölum, að 137 millj. krónur vantaði til þess, að eðlilegum innflutningi og þó hóflegum yrði uppi haldið til áramóta, og það þó að öll inneignin í ársbyrjun yrði uppurin.

Til þess að mæta þessum vanda var í upphafi bent á, að þrjú ráð væru hugsanleg:

Í fyrsta lagi að taka gjaldeyrislán, sem allir voru þó sammála um, að forðast bæri í lengstu lög.

Í öðru lagi aukning útflutningsframleiðslunnar, — sem einnig var samkomulag um, að væri sú leið, sem flestum væri hugstæðust, — að svo miklu leyti, sem mögulegt væri.

Og í þriðja lagi niðurskurður á innflutningi, sem að vísu fylgdu margs konar óþægindi, en flestir virtust þó geta fallizt á að sætta sig við í bili, á meðan verið væri að ná endunum saman.

Nú hefur fjárhagsráð skilað til ríkisstj. í gær nýrri endurskoðaðri áætlun um gjaldeyrisafkomuna síðustu mánuði ársins, þar sem talið er, að nokkurn veginn megi nú með vissu sjá fyrir, hverjar gjaldeyristekjurnar verða til áramóta, og hins vegar reynt — eins og frekast þykir fært — að skera niður innflutninginn. Niðurstaðan af þessari nýju endurskoðuðu áætlun fjárhagsráðs virðist vera sú, að svo miklu leyti sem ég hef getað kynnt mér hana síðan ég fékk hana í gærkvöld, að vænta megi gjaldeyristekna það sem eftir er ársins svo mikilla, að til ráðstöfunar verði á þessu tímabili 98,2 millj. kr. Hins vegar er gjaldeyrisþörfin, eins niðurskorin og með nokkru móti er talið fært, áætluð á sama tíma 175,8 millj. kr. Virðist þá enn vanta til þess að endarnir nái saman 77,6 millj. kr. þrátt fyrir ýtrasta sparnað. Er þá að vísu gert ráð fyrir, að þau leyfi verði öll greidd, sem út hafa verið gefin á árinu og talin eru nú í gildi.

Þó að útlitið sé þannig ekki glæsilegt, tel ég rétt að benda á, að nokkuð hefur þó þegar áunnizt með starfi fjárhagsráðs þennan tíma, eins og bezt má sjá með því að bera saman viðhorfið í ágústmánuði, þegar fyrri skýrslan, sem ég nefndi í upphafi, var samin, en hún gerði ráð fyrir, að 137 millj. vantaði um áramót, en nú er með þessari áætlun, með skömmtunarráðstöfunum og með niðurskurði á öllum sviðum, þó búið að lækka þessa tölu um ca. 50 millj. kr., í 77,6 millj. kr.

Hvernig enn er hægt að lækka þennan mismun og helzt að ná jöfnuði, er það vandamál, sem úrlausnar bíður og þjóðin verður að sameinazt um, ef vel á að fara. Og ég þykist þess fullviss, að þjóðin vill gera þetta og leggja nokkuð að sér til þess að það sé hægt.

En það er til flokkur manna hér, sem ekki vill þetta og notar hvert tækifæri í tíma og ótíma til að ráðast á allar þær aðgerðir, sem gerðar eru og að þessu miða, og það jafnvel áður en þær eru ráðnar og koma til framkvæmda.

Ég þarf ekki að nefna, við hverja er hér átt. Hvert mannsbarn í landinu veit nú orðið, að þetta er Kommúnistaflokkurinn.

Þegar það var ljóst orðið seinni part sumars, að síldveiðarnar mundu bregðast og núverandi gjaldeyrisástand blasti við, svo að sýnilegt var, að ekki yrði hjá því komizt að taka upp allvíðtæka skömmtun á neyzluvörum almennings, byggingarefni, benzíni o. fl., þá byrjuðu þessir menn, bæði í blaði sínu, Þjóðviljanum, og með persónulegum áróðri, að gera þessa skömmtun tortryggilega áður en hún varð til, sem hafði það í för með sér að vekja hjá fólki óróa og ótta, sem náði hámarki sínu með hinum óeðlilegu vörukaupum eða hamstri síðustu dagana áður en sölutakmarkanirnar voru gerðar. Á sama hátt hafa þeir, eftir að skömmtunin gekk í gildi nú um síðustu mánaðamót, hamazt bæði í blaðinu og með flutningi tillagna hér á Alþingi í þessa sömu átt, allt í þeim tilgangi að draga sem mest úr því, að þessar skömmtunarreglur næðu tilgangi sínum.

Þetta er afstaða þeirra til þeirra sparnaðarráðstafana, sem gerðar hafa verið af fjárhagsráði, sem nauðsynlegar og óumflýjanlegar eru til þess að ná jafnvægi á viðskiptin við útlönd og þegar virðast hafa borið þann árangur. að 50 millj. kr. sparist í innflutningi til áramóta, eins og áður hefur verið lýst.

Þá er einnig kunn afstaða þessara manna til vandamála framleiðslustarfseminnar í landinu vegna dýrtíðar og verðbólgu.

Það liggur nú skýrt fyrir, svo ekki verður vefengt, að við getum ekki lengur selt okkar aðalframleiðsluvörur, fisk og fiskiafurðir, fyrir sambærilegt verð og aðrar þjóðir framleiða þessar vörur fyrir, nema með meðgjöf beint og óbeint, ef framleiðendur eiga að fá upp borinn útlagðan kostnað.

Áður en nokkuð var farið að gera til þess að ráða bót á þessu og áður en nokkuð var farið að ákveða, hvernig það skyldi gert, hlupu þessir menn á stað til fundahalda víðs vegar um land og prédikuðu fyrir fólki í fyrsta lagi, að hér þyrfti engrar lækkunar við, ef stjórnin aðeins hefði vit og vilja til að selja vörurnar á réttum stöðum, og í öðru lagi leituðust þeir við að gera allar væntanlegar aðgerðir tortryggilegar, áður en þær væru bornar fram og áður en nokkuð var vitað um, hverjar þær mundu verða. Þeim eins og öðrum var ljóst, að einhverra aðgerða var þörf, og þá var um að gera að ráðast á þær — fyrir fram — hvernig sem þær yrðu. Þeim eins og öðrum var ljóst, að niðurgreiðsla úr ríkissjóði til að halda niðri vöruverði og vísitölu hlaut að taka enda, ríkissjóðurinn var ekki þess megnugur að halda þeim áfram, og þeim var líka ljóst, að bein meðgjöf úr ríkissjóði til þess að skila ákveðnu ábyrgðarverði til framleiðenda gat ekki haldið áfram, og þeim er sjálfsagt einnig mætavel ljóst, að með óbreyttum tilkostnaði og án niðurgreiðslu getur framleiðsla okkar ekki keppt á erlendum markaði.

En drengskapur þeirra og þjóðhollusta er slík, að þegar okkur ríður meira á en nokkru sinnt, að framleiðslustarfsemin haldi áfram og aukist, en dragist ekki saman, þá meta þeir meira sinn pólitíska ávinning af glundroða og upplausnarástandi heldur en þá þjóðarnauðsyn, að allir sameinist um virkar aðgerðir til að draga úr dýrtíðinni.

Og svo loks þessi tillaga, sem hér liggur fyrir.

Ef það tækist að gera tortryggilegar og jafnvel eyðileggja þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til gjaldeyrissparnaðar með innflutningstakmörkunum og skömmtun, og ef það tækist að koma í veg fyrir, að hægt væri að lækka eitthvað dýrtíð og draga úr verðbólgu, þá hefur þessum herrum sjálfsagt dottið í hug, að hægt væri í bili að lappa upp á sakirnar til bráðabirgða með lántöku, svo að hernaðaraðgerðirnar gátu ekki talizt fullkomlega í lagi, nema einnig væri fyrir því séð, að sú leið væri tekin til meðferðar líka, — og sú herferð virðist hafin með þessari tillögu, sem hér liggur fyrir til umræðu.

Virðist þá vel fyrir öllu séð, ef hvorki má draga úr innflutningi né halda uppi eðlilegri framleiðslustarfsemi né heldur taka lán. Undir þennan síðasta þátt þeirra í baráttunni gegn efnahagsafkomu þjóðarinnar rennur auk þess sú styrka stoð — í þeirra augum —, að þar eru þeir að vinna beinlínis í anda alþjóðasamtaka sinna, sem hafa lýst sig algerlega fjandsamleg fyrirhugaðri aðstoð Bandaríkjamanna við efnahagsviðreisn Evrópuþjóðanna, sem þátt tóku í Parísarráðstefnunni.

Ég skal ekki hér fara út í þá sálma að skýra þátttöku okkar Íslendinga í þeirri ráðstefnu. Það hefur verið gert hér í kvöld, svo að þar þarf ekki við að bæta. Það liggur í augum uppi, að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast með því, hvernig efnahagskerfi nágrannaþjóða okkar verður byggt upp, og helzt að reyna að hafa á það áhrif, þannig að ekki komi til fiskveiðastarfseminnar fleiri tæki og fleiri menn en þörf er fyrir til að fullnægja eftirspurninni. Við þurfum að gera þessum þjóðum ljóst, að við getum ekki lifað af öðru en fiskveiðum og framleiðslu fiskafurða, að við höfum beztu aðstöðu á ýmsan hátt til þessarar starfsemi, og því eigum við að fá að sitja að henni eftir því, sem geta okkar leyfir. Einmitt á ráðstefnu eins og þessari eru skilyrði fyrir hendi til þess að koma sjónarmiðum eins og þessum á framfæri og halda þeim fram til streitu.

Einnig má á það benda, að þó að öllum sé illa við gjaldeyrislántökur til venjulegrar eyðslu, getur vel komið til greina að taka slíkt lán til aukningar framleiðslutækja landsmanna, sem beint og óbeint geta kannske fljótlega skilað þessu láni aftur og meira til. Enn er svo mikið ógert af slíkum framkvæmdum, að það er engan veginn hægt að slá því föstu, að beðið skuli með þær framkvæmdir allar þangað til hægt er að ljúka þeim af gjaldeyristekjum þeim, sem til falla. Þess vegna er okkur nauðsyn — ef á þarf að halda og aðrar leiðir til fjáröflunar reynast ekki færar, en við á hinn bóginn höfum hug á vissum arðgæfum framkvæmdum, — að eiga opnar dyr til þeirra, sem þá í bili geta veitt lán og aðstoð.

Þennan möguleika vilja kommúnistar útiloka, bæði vegna þess, að þeir telja sig þá vera að vinna í anda sinna allsherjarsamtaka, hvort sem þeir taka nú opinberan þátt í þeim samtökum eða ekki, og eins vegna hins, að þeim virðist nú mest um það hugað af öllu — af pólitískum ástæðum — að viðhalda fjárhagserfiðleikunum innanlands, — það hefur framkoma þeirra sýnt undanfarið.

Ég vil að lokum leyfa mér að benda á, að í fyrra um þetta leyti, þegar fyrrv. stjórn hafði til athugunar, á hvern hátt væri hægt að tryggja áframhaldandi rekstur útvegsins, fengust kommúnistar ekki til að ræða það mál, þó að þeir væru þá sjálfir í stjórn, og þeir sögðu þá af sér, ekki vegna ágreinings um lausn þeirra mála, heldur vegna ímyndaðra hagsmuna erlends stórveldis. Afkoma íslenzkra verkamanna og sjómanna lá þeim þá ekki þyngra á hjarta en það, að þeir töldu sig hafa um allt annað að hugsa.

Í ár eru þeir þó komnir það lengra á veg, að nú telja þeir sig reka erindi verkamanna og sjómanna með því bezt að hindra, að bót fáist ráðin á þessi mál, að framleiðslan geti gengið eðlilega og gjaldeyrisjöfnuður náðst.

Þessum útvarpsumræðum er nú að verða lokið. Ríkisstjórnin óskaði eftir þeim til þess að gera alþjóð grein fyrir því, sem um var spurt fyrst og fremst. Í öðru lagi vildi hún fá tækifæri til þess enn einu sinni að gera þjóðinni grein fyrr þeim örðugleikum, sem nú er við að stríða vegna gjaldeyrisskorts og dýrtíðar. Og síðast en ekki sízt til að sýna þjóðinni, hvernig stjórnarandstöðuflokkurinn — kommúnistar — hefur brugðizt við þessum erfiðleikum.

Það er nú bert orðið, að þeir hugsa ekkert um lausn vandans — um afkomu þjóðarinnar. Það er afkoma flokksins pólitískt séð, sem þar í sveit er fyrst hugsað um, — og það ætti þjóðin vissulega að muna.

Mér er það fyllilega ljóst, að það er ekki vinsælt verk að þurfa að takmarka neyzlu manna og ýmis þægindi, sem þeir hafa vanið sig á og telja sig nú illa geta verið án, en vegna þess að þetta er ill nauðsyn, sem ekki er hægt að komast hjá í bili, ef vel á að fara, — og í trausti þess, að þessar byrðar verði látnar ganga jafnt yfir alla — og til að tryggja það — hefur Alþfl. ekki viljað skorast undan að vera með í þessum ráðstöfunum og undirbúningi þeirra, — og einnig vegna þess, að hann trúir því, að mjög bráðlega geti rætzt úr — með auknum útflutningi — og þá verði engra lána, þörf né beinna skammtana, — hefur hann viljað vera með, þó að ólíkt hægara sé að standa utan við og æpa.

Þetta vona ég, að þjóðin skilji, því að á því veltur hennar velferð í framtíðinni, og þá verður líka pólitísk uppskera Kommúnistaflokksins minni en til var stofnað.