23.10.1947
Sameinað þing: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (3445)

26. mál, læknisbústaður í Flateyjarhéraði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér, áður en þetta mál fer til n., að benda á þrennt.

Það eru nokkur fleiri héruð læknislaus, sem hafa kannske sömu ástæður og þetta hérað. Og þegar farið verður að athuga þessa till. í fjvn., þá má ekki heldur gleyma þeim öðrum héruðum, sem læknislaus eru.

Þegar þetta mál var rætt síðast hér á þingi, læknislausu héruðin, þá var samþ. að skipa mþn. til að gera álit og till. um málið. Síðan eru fjögur ár. Sú n. hefur starfað, en ég hef ekki heyrt neitt frá henni. Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðh., hvað þessi n. hefur starfað og hvenær mætti vænta, að hún færi að koma með sitt nál., sem átti að leysa læknamálið úti um land. Í þeirri n. mun landlæknir vera og, að ég held, núverandi borgarstjóri í Reykjavík og Magnús Pétursson bæjarlæknir. Kannske hefur borgarstjórinn verið sendur út í læknislausu héruðin til að leita álits manna þar, eins og hann var á sínum tíma sendur að leita að stjórnarskrám, en ég hef aldrei heyrt meira af þeim stjórnarskrám, sem hann kom með úr för sinni, og ef til vill er þetta svipað með álit þau, er hann hefur sótt til manna í læknamálinu, og kannske líkt starfi hans yfirleitt.

Í þriðja lagi vil ég benda á, að þegar í fyrra var um það rætt hér á þingi að byggja prestsseturshúsin, margbenti ég á það, að ekki ætti að afgreiða það mál, heldur frv. um embættisbústaði embættismanna ríkisins, svo að allir stæðu þar við sama borð. Nú heyri ég, að hv. þm. Barð. vill, að læknar séu þarna í sama hóp og aðrir embættismenn. Hví eiga ekki allar stéttir embættismanna að búa við sömu kjör? Hví ekki að samræma l. um bústaði fyrir alla starfsmenn ríkisins, sem ríkið vill láta hafa bústaði eða á að láta fá bústaði? Ég vil nú beina því til hæstv. stj., hvort hún vill ekki í tilefni af þessari till. sjá um, að bústaðir lækna verði byggðir á fleiri stöðum en Flatey. Þar er illa ástatt, en það er víðar. Ég vil spyrja hana, hvort hún vill ekki taka alla slíka bústaðaþörf upp og hvort hún vill ekki athuga, hvort ekki ætti að samræma l. um bústaði héraðsdómara, presta, lækna o. s. frv. og láta það sama gilda fyrir alla þá bústaði, sem ríkið vill kosta og leggja til sínum starfsmönnum.