10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3464)

29. mál, áfengisnautn

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal gefa sama loforð og hv. 6. þm. Reykv., að tefja ekki þessar umr., og það því fremur, þar sem svo undarlega vill til, sem ég býst þó ekki við, að hefði verið vænzt af mér, að ég er þessum hv. þm. að mörgu leyti sammála. Ég er t. d. sammála því, sem hann sagði nú síðast, að hæstv. Alþ. væri sæmra að gefa skýrari yfirlýsingu um vilja sinn í þessu máli en hér virðist standa til.

Hv. 6. þm. Reykv. var eitthvað að minnast á spurningar, sem frambjóðendum hefðu verið sendar við síðustu alþingiskosningar, um hvaða afstöðu þeir hefðu í áfengismálunum. Mig rámar eitthvað í þetta, og ég minnist þess, að ég svaraði þessum spurningum engu, því að þær voru frá mönnum. sem mér komu ekkert við. Ekki veit ég, hvað aðrir þm. hafa gert í þessu.

Eins og mönnum er kunnugt, reyndi ríkisstj. um tíma ráð, sem stungið er upp á í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, en það var, að áfengi skyldi skammtað. Árið 1941 var tekin upp skömmtun á áfengi, og stóð hún alllangan tíma. Allir hljóta að sjá, að ástandið í áfengismálunum breyttist mikið við þessa ráðstöfun til hins betra. Ölvun á almannafæri minnkaði stórlega, og landsreikningarnir sýna, að mikið dró úr sölu áfengis, svo að hún hefur ekki verið jafnlítil um fjöldamörg ár.

Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 30, felur í sér ákveðnar ákvarðanir um tilhögun á áfengismálum þjóðarinnar. Fyrra ákvæðið er um það, að ríkisstj. skuli láta l. um héraðabönn koma til framkvæmda. Síðari liður till. er svo um það, að tekin skuli upp skömmtun á áfengi.

En hvernig snýst svo meiri hl. hv. allshn. við þessari till.? Ég hygg, að það eigi ekki fyrir mörgum þskj. að liggja að verða fræg, en þó skil ég varla annað en að nál. meiri hl. allshn. á þskj. 319 verði nokkuð frægt. Samkvæmt áliti n. má Alþingi ekki láta í ljós vilja sinn um lausn þessa máls, heldur á ríkisstj. að fá það til undirbúnings og athuga, hvort ekki reynist fært að framkvæma till., en þó sérstaklega með tilliti til þess, að ríkissjóður missi ekki við það neitt af tekjum sínum. Ég er sannfærður um, að ekki verður hægt að draga úr áfengissölunni, ef sjá á ríkissjóði fyrir tekjum, nema þjóðin greiði í ríkissjóð eftir einhverjum öðrum leiðum en þeirri að kaupa áfengi.

Ég hef áður lýst yfir því, að ég hef ekki mikla trú á héraðabönnum, og ég var á móti l. um það, þegar þau voru sett. Ég veit ekki betur en við höfum nokkurs konar héraðabönn, þar sem víða eru stór svæði í landinu, þar sem engin áfengisverzlun er. Mér er ekki kunnugt um, að á þessum stöðum sé drukkið neitt minna en annars staðar á landinu, þar sem hægara er að ná í vín.

Ég minnist þess, að þegar till. um héraðabönn var til umr. hér, rökstuddi 1. flm. hana m. a. með því, að þegar Djúpbáturinn færi vestur á firði frá Ísafirði, væri eftir komu hans þar mikil ölvun og almenn. Þarna er þó nokkurs konar héraðabann, sem auðvitað kemur ekki að gagni, þar sem áfengisútsala er á Ísafirði. Og jafnvel þótt héraðabann væri einnig á Ísafirði, væri áreiðanlega hægurinn á fyrir Ísfirðinga að fá nóg vín með Esju og öðrum skipum. Öðru máli væri þó að gegna, ef skömmtun fylgdi með. Þá ættu leynisalar örðugra með að birgja sig upp af víni.

Mér virðist, að þótt þessi tvö atriði, héraðabönn og áfengisskömmtun, séu ekki nein fullnaðarlausn á áfengismálum, þá styðja þau hvort annað, og það er álit mitt, að Alþ. ætti að geta tekið fullnaðarákvörðun gagnvart þeim.

Svo að ég nú víki aftur að nál. meiri hl. allshn., þá tekur hann fram, að fela skuli ríkisstj. að sjá um, að 1. um héraðabönn komi til framkvæmda. Eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á, eru þetta landslög og ríkisstj. því skylt að láta þau koma til framkvæmda. Það er embættisskylda hennar. Mér finnst það undarlegt að eiga nú að fara að samþykkja hér till. um að fela ríkisstj. að gera það, sem henni ber að gera lögum samkvæmt.

Ég verð einnig að taka undir það með hv. B. þm. Reykv., að seinni liður brtt. n. á þskj. 319 sé næsta undarlegur, en hann fjallar um það að skora á ríkisstj. að koma á þeirri skipan, að engir fái áfengi undir útsöluverði, þó að óbreyttri þeirri venju, sem gilt hefur áður um þetta gagnvart æðstu stjórnarvöldum landsins, þeim sem með framkvæmdarvaldið fara. Efni þessa liðs er í sjálfu sér ekkert undarlegt, heldur það, að liðurinn skuli eiga að koma inn í till. um ráðstafanir til að draga úr áfengisnautn í landinu. Ég hygg, eins og hv. 6. þm. Reykv., að það mundi ekki draga neitt úr áfengisnautn í landinu, þó að þessir 11 menn, sem fengið hafa áfengi með lægra verði en aðrir, yrðu allir sviptir þeim fríðindum. Það hefði kannske einhver áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en engin á vínnautnina. Hv. frsm. meiri hl. játaði líka, að hvað þennan lið snertir, þá væri þar ekki um neitt bindindismál að ræða, og þetta væru ekki ráðstafanir til að draga úr áfengisnautn. En hvers vegna er þá verið að setja slíkt inn í till. um ráðstafanir til að draga úr áfengisnautn? — Hv. frsm. gat þess, að hann aðgreindi ekki lengur allar þessar till., sem fyrir hendi eru í bindindismálunum. En því ekki að gera það og taka forseta Alþingis undan þeim ákvæðum, sem gilt hafa um kaup á áfengi með lægra verði? Það væri miklu eðlilegra en að vera að setja þetta inn í till. þá, sem hér liggur fyrir. Mér þykir heldur leiðinlegt að tala um þetta, af því að ég á hér hlut að máli, en ég get lýst yfir því, að ég hef hingað til getað keypt það brennivín, sem mér hefur sýnzt að kaupa, án þess að ég fengi það með lækkuðu verði. — Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa tekið eftir því, og ég bið þá að taka eftir því, að þessi fríðindi, hið svo kallaða „forsetabrennivín“, er stjórnarráðstöfun frá tímum Jóns Magnússonar forsrh., að því er snertir forsetana. Með 2. lið brtt. á þskj. 319 er lagt til, að Alþ. lögfesti þessa venju, því að þar er skorað á ríkisstj. að láta þessi fríðindi haldast gagnvart æðstu stjórnarvöldum landsins, þeim er með framkvæmdarvaldið fara. Nú er það áreiðanlegt, að forseti Sþ. mundi stundum heyra undir þetta, — sem sagt þegar forseti lýðveldisins er erlendis eða forfallaður. (PO: Hann er þá í skjóli forsetans).

Ég vil taka undir þá ósk, sem beint var til forseta utan dagskrár, að hann láti taka á dagskrá það, sem 2. liður brtt. á þskj. 319 fjallar um, og lýsi ég yfir því, að ég mun greiða atkvæði með honum. — Ég get svo látið máli mínu lokið að þessu sinni.